Sápur úr hreindýrafitu
Kara Nótt Möller hefur stundað sápugerð um árabil. Þegar kom að því að velja viðfangsefni fyrir lokaverkefni sitt úr búfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands ákvað hún að rannsaka möguleikann á að gera sápur úr hreindýrafitu, sem er ónýtt afurð í dag.
Kara Nótt hafði aldrei velt því fyrir sér að mögulegt væri að framleiða sápur heima hjá sér. Hún sá hins vegar fólk gera þetta á Youtube.com fyrir nokkrum árum og ákvað því að láta slag standa. „Ég keypti 25 kíló af vítissóda því það eru minnstu pakkningarnar sem þú getur fengið. Eftir að hafa gert mjög mikið af sápum, þá á ég enn þá eftir helminginn af því,“ segir hún. Eftir að hafa gert sínar eigin sápur hefur Kara Nótt líka tekið eftir því að ofnæmisviðbrögð og þurrkur í húð hefur dregist saman. „Það virðist vera sem þessar sápur mýki og næri húðina frekar en þær sápur sem þú kaupir úti í búð.“
Þrjú uppistöðuefni í sápu
„Uppistöðuefnin í sápu eru fita, vatn og vítissódi. Svo er hægt að blanda út í þetta ýmislegu og breyta hlutföllum. Það þarf hins vegar að passa upp á að hafa næga fitu til að hlutleysa allan vítissódann, annars getur hann skaðað húðina. Það er því svolítil efnafræði við að setja saman uppskriftina, en þegar uppskriftin er komin þá er þetta eins og að baka,“ segir Kara. Þessu er svo öllu blandað saman og hellt í form. Við það fara af stað efnahvörf sem nefnast sápun – blandan nær upp hita og harðnar að lokum.
Kara Nótt ákvað að taka vísindalega nálgun í verkefninu og bar saman þrjár tegundir af dýrafitu, þ.e. nauta-, kinda- og hreindýrafitu. Hún kannaði líka mismunandi magn dýrafitu á móti jurtafitu í þremur mismunandi hlutföllum, allt frá því að vera með mjög litlu hlutfalli af jurtafitu yfir í að vera einungis með dýrafitu. Samtals voru þetta því níu uppskriftir og voru helstu niðurstöðurnar að með auknu hlutfalli af jurtafitu freyðir sápan meira. Á móti varð sápan harðari eftir því sem hún innihélt meiri dýrafitu. Ekki var merkjanlegur munur á eiginleikum sápunnar eftir því hvernig dýrafita var notuð.
Mest allri hreindýrafitu fargað
Hreindýrafitan sem Kara Nótt fékk er aðallega innyflafita og fitan sem er í kringum læri og rass. Hráefnið fellur til í verkunarstöðvum sem verka hreindýr fyrir veiðimenn. Eins og staðan er í dag er fitan notuð í litlu magni til heimabrúks, en fer annars alfarið í urðun. Til að fá samanburð kannaði hún hvernig staðan er hjá tveimur stórum sláturhúsum og fékk þær upplýsingar að nýtingarhlutfall sauðfjár- og nautafitu er almennt mjög gott.
Umhverfisvænni kostur
Fitan sem Kara Nótt notaði í sína sápugerð áður en hún fór í þetta verkefni voru ólífuolía, kókosolía og pálmaolía. „Hugsunin með því að nota dýrafituna er að þá get ég tekið út pálmafituna,“ sem Kara Nótt segir að sé jákvætt í ljósi þess að framleiðslan á pálmafitu hefur mjög neikvæð umhverfisáhrif. Þar sem að hreindýrafitunni er annars fargað má segja að hreindýrasápan sé mjög umhverfisvæn.
Þrátt fyrir fjölmarga kosti og sérstöðu hreindýrasápunnar gerir Kara Nótt ekki ráð fyrir að koma henni á markað. Kröfurnar til að fá leyfi fyrir sölu á handverkssápu með nýju hráefni séu einfaldlega of miklar.