Sjö ARR-kindur finnast í Miðdölum
Sjö kindur í Miðdölum í Dalabyggð hafa fundist til viðbótar sem bera genasamsætuna ARR.
Tvær kindur eru staðsettar á bænum Háafelli og þrjár í Geirshlíð. Nýjustu tíðindi eru svo af tveimur á Sauðafelli.
Fundurinn kemur í kjölfar þess að í janúar var staðfest að ær og lambhrútur á bænum Vífilsdal í Dölum væru með þessa fágætu genasamsætu, sem þótti mikill happafengur fyrir ræktunarstarfið fram undan með verndandi arfgerðir. Hafist var handa við arfgerða greiningar á hjörðum í Vífilsdal og á fimm öðrum bæjum sem eiga kindur sem skyldar eru þeim kindum sem fundust með ARR í Vífilsdal.
Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá RML, segir að í Geirshlíð sé um að ræða þrjár ær, tvær af þeim eru svargolsóttar, önnur hyrnd en hin kollótt.
Þriðja ærin í Geirshlíð sé hvít að lit, hyrnd og er hún sammæðra þeirri golsóttu hyrndu. Hann segir að á Háafelli séu báðar ærnar hyrndar og hvítar að lit. Nýjustu tíðindin eru sem fyrr segir frá Sauðfelli. Eyþór segir að þessar tvær ær á Sauðfelli séu mæðgur. „Þær eru báðar hyrndar og golsóttar á lit. Golsi 02346 frá Háafelli er á bak við þær og tengir saman allar ARRær sem við höfum fundið til þessa í Dölum,“ segir hann.