Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Hestaverkfærin frá Ólafsdal voru meðal þeirra gripa sem fyrstir komu í safnið sumarið 1940. Verkfærin eru flest frá því fyrir aldamótin 1900.
Hestaverkfærin frá Ólafsdal voru meðal þeirra gripa sem fyrstir komu í safnið sumarið 1940. Verkfærin eru flest frá því fyrir aldamótin 1900.
Fréttir 27. apríl 2015

Sjötíu og fimm ára safn

Höfundur: Bjarni Guðmundsson
Landbúnaðarsafn Íslands hefur opnað nýja sýningu í framtíðarhúsnæði sínu, Halldórsfjósi á Hvanneyri. Af þeirri ástæðu og því að safnið fagnar sjötíu og fimm ára afmæli á þessu ári munu í næstu tölublöðum Bændablaðsins birtast nokkrir pistlar um safnið.
 
Við byrjum á sögunni:
Þegar árið 1903 samþykkti Búnaðarþing „að hlynna að því, að gömul landbúnaðaráhöld komist á forngripasafnið“.   Bændum varð því snemma ljóst, að ástæða væri til þess að hyggja að fortíð, um leið og gengið var af feginleik til móts við nýja og betri tíma.  Og árið 1920 flutti Matthías Þórðarson þjóðminjavörður erindi á ársfundi Búnaðarfélags Íslands um landbúnaðarsafn. Hann vildi: 
...að komið yrði upp landbúnaðarsafni hjer á landi, í líkingu við það, sem tíðkaðist hjá öðrum þjóðum, til þess að vernda frá algerðri glötun búsáhöld, sem smátt og smátt legðust niður . . .  Aldrei hefði verið slík nauðsyn sem nú á því að stofna slíkt safn, þar eð breytingarnar væru meiri, og umskiftin örari á búsáhöldum, en nokkru sinni áður ... væri fróðlegt og gagnlegt, að safna á einn stað niðurlögðum búsáhöldum, og sýna með því breytingarnar og framþróunina á þessum sviðum.  
 
Af framkvæmdum varð ekki, en Búnaðarfélagið mun þó hafa tekið nokkur jarðyrkjuverkfæri frá Ólafsdal til varðveislu og þannig bjargað þeim frá glötun.  
 
Næsti áfangi varð árið 1940, en þá samþykkti Alþingi lög um rannsóknir og tilraunir í þágu landbúnaðarins. Í 20. grein þeirra sagði m.a.:
Safni af landbúnaðarverkfærum skal komið upp við bændaskólann á Hvanneyri, undir umsjón verkfæranefndar. Reynt sé að fá sem flestar verkfæraverzlanir og verksmiðjur til þess að leggja fram sýnishorn í safnið, en ella skulu keypt til reynslu verkfæri, sem ekki fást á annan hátt.
 
Þannig var Verkfærasafnið á Hvanneyri lögfest sem nýmæli í byrjun hinnar raunverulegu vélaaldar til sveita, fyrst og fremst til þess að kynna nýjustu landbúnaðarverkfæri á hverjum tíma. 
 
Fyrstu gripunum safnað 1940
 
Sumarið 1940 var fyrstu gripunum safnað, m.a. áðurnefndum verkfærum frá Ólafsdal og gripum, sem Thor Jensen, bóndi á Korpúlfsstöðum, gaf safninu.  Guðmundur Jónsson, kennari og síðar skólastjóri, sinnti safninu, gerði fyrstu munaskrá þess og sá til þess að gripirnir komust í geymslu.
 
Verkfærasafnið komst á fjárlög ársins 1942, og hélst þar til og með fjárlagaárinu 1967 – með 1000–2000 kr. framlagi árlega. Safnið megnaði engan veginn að halda í við tækniþróun landbúnaðarins, sem brátt komst á ógnarhraða. Það varð því fljótt, og raunar öndvert frumtilgangi sínum, safn um það, sem liðið var. Lítið var þó hægt að gera fyrir krónurnar frá Alþingi. 
 
Árið 1976 sendu nokkrir Hvanneyringar Búnaðarþingi erindi um Verkfærasafnið og eflingu þess. Þingið fjallaði um erindið og tók forystu í málinu, undir stjórn Haraldar Árnasonar ráðunauts. Hafin var fjársöfnun til húsbyggingar fyrir safnið meðal samtaka bænda. Nokkurt fé safnaðist, en meira munaði þó um að athygli vaknaði á málinu. Ekkert varð af húsbyggingunni en fyrir atbeina Haraldar var hluta af fé Vélasjóðs, sem þá var að ljúka störfum, varið til þess að pússa upp fáein gömul og merkileg verkfæri og traktora. Þau voru síðan sýnd við ýmis tækifæri. 
 
Þannig, og með gripunum, sem safnað hafði verið árið 1940, varð til dágóður vísir að safni, og sumarið 1987 var hann opnaður almenningi sem sýning í smáum stíl þó. Þúfan, sem hlassinu velti, var sú, að starfsmenn Bútæknideildar RALA á Hvanneyri höfðu þá gert upp nokkrar fornvélar til viðbótar og útbúin var dálítil sýningaraðstaða í húsnæði Bændaskólans. Starfsemin fékk nafnið Búvélasafn. Safnið náði þegar athygli gesta. Í hjáverkum og með atbeina góðra manna, bæði sjálfboðaliða og launaðra verktaka, var safnið aukið og bætt jafnt og þétt. Á engan er hallað þótt nefndur sé Haukur Júlíusson og fyrirtæki hans, Jörvi hf., sem helstu liðsaukar á þessum árum og löngum síðar. Bændaskólinn og síðar Landbúnaðarháskólinn var bakhjarlinn. 
 
Bændaskólinn lagði safninu til vinnu, húsnæði og aðra aðstöðu, sem að hluta var tíundað í reikningum hans. Án þess framlags hefði safnið aldrei á koppinn komist. Síðan hóf Alþingi aftur að leggja safninu lið með fjárstuðningi. Frá og með árinu 1998 var safnið komið á þann legg, að farið var að hafa það opið sumarmánuðina þrjá og raunar lengur, meðal annars í góðri samvinnu við Ullarselið, sem var undir sama þaki. Þannig, sem og með nær árlegum dagskrám og sérsýningum, og síðar námskeiðahaldi, vann Búvélasafnið sér hægt og sígandi sess í vitund almennings og komst á blað meðal annarra safna í landinu sem viðurkennt safn lögum samkvæmt. 
 
Það var svo í ársbyrjun 2007 að rekstrarformi safnsins og nafni var breytt. Til varð sjálfseignarstofnunin Landbúnaðar­safn Íslands. Stofnaðilar voru Landbúnaðarháskóli Íslands, sveitarfélagið Borgarbyggð og Bændasamtök Íslands. Í stjórn safnsins eiga sæti, auk fulltrúa áðurnefndra aðila, fulltrúi þjóðminjavarðar og fulltrúi ráðherra landbúnaðarmála. Á þeim grunni starfar Landbúnaðarsafn Íslands í dag. 

4 myndir:

Áskrift að Bændablaðinu 2025
Fréttir 27. desember 2024

Áskrift að Bændablaðinu 2025

Gefin eru út 23 tölublöð af Bændablaðinu ár hvert. Upplagi þess er dreift um all...

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...