Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Lennart Ackzell, formaður landsambands skógarbænda í Svíþjóð og Hlynur Gauti Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landssamtaka skógareigenda. Mynd / HKr.
Lennart Ackzell, formaður landsambands skógarbænda í Svíþjóð og Hlynur Gauti Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landssamtaka skógareigenda. Mynd / HKr.
Fréttir 4. júlí 2019

Skógar binda 83% af árlegri koltvísýringslosun í Svíþjóð

Höfundur: Vilmundur Hansen

Flatarmál skóga í Svíþjóð hefur tvöfaldast síðustu hundrað ár og þeir eru enn að vaxa. Í dag binda skógar 83% af árlegri koltvísýringslosun Svíþjóðar. Formaður Landssambands skógarbænda í Svíþjóð segir möguleika á að stunda skógrækt samhliða annars konar landbúnaði á Íslandi mikla.

Lennart Ackzell, formaður Landssambands skógarbænda í Svíþjóð og skógræktarráðgjafi, var staddur hér á landi fyrir skömmu þar sem hann sat meðal annars ráðstefnu á vegum samtaka Norrænna skógarbænda. „Ráðstefnan var haldin á Akureyri og fjallaði um rannsóknir í skógrækt og hvernig á að ráðstafa fé sem Norræna ráðherranefndin úthlutar til rannsókna í skógrækt. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að féð eigi að renna til rannsókna á nytjaskógrækt smærri skógarbænda og bænda sem stunda skógrækt með annars konar búskap.“

Samkvæmt vefsíðu SkogsSverige hafa um 60.000 manns beina atvinu af skógariðnaði og yfir 300.000 einstaklingar eru eigendur að skógum í landinu. Þá skapa skógarnir stóran hluta af útflutningstekjum Svía.  

Skógar binda mikið magn koltvísýrings

Í Svíþjóð er áætlaður heildarvöxtur trjáa um 120 milljón rúmtonn á ári og skógrækt í landinu hefur tvöfaldast á síðustu hundrað árum. Af því eru nytjuð milli 85 og 90 milljón rúmtonn og skógar því enn í vexti og sá vöxtur bindur um 83% af allri árlegri koltvísýringslosun í Svíþjóð.

„Skógrækt er langbesta og árangursríkasta leiðin sem til er til að binda koltvísýring og um leið besta leiðin til að draga úr hlýnun jarðar vegna loftslagsbreytinga.

Svíþjóð er gamalt skógræktarland og í dag njótum við þess þegar kemur að bindingu koltvísýrings. Tré sem sjá um bindinguna var ekki plantað með það í huga heldur til að framleiða timbur og tryggja afkomu bænda, fjölskyldna þeirra og afkomenda.“

Lennart segir að nýting á skógarafurðum sé alltaf að aukast í Svíþjóð. „Sífellt færist í aukana að byggð séu hús úr timbri, timbur er notað til að búa til plast, til hitunar og smíðaðir eru úr því nytjahlutir eins og gert var fyrr á tímum og það dregur úr notkun á efnum sem unnin eru úr jarðefnaolíu og lækkar um leið kolefnisspor landsins.“

Tvenns konar samtök skógarbænda

Að sögn Lennart tilheyra skógar­bændur í Svíþjóð yfirleitt tveimur samtökum. Annars vegar eru það Landssamtök skógareigenda sem eru hluti af sænsku bændasamtökunum og svipað því sem er á Íslandi. Hins vegar eru þeir hluti af sölusamtökum skógarbænda.

Skógar þekja um 28 milljónir hektara, eða um 69% landsins. 

„Í dag eru um 150 þúsund bændur meðlimir í Landssamtökum skógareigenda í Svíþjóð og skiptast þeir á milli fjögurra sölusamtaka.“ Lennart segir að verksvið Landssamtaka skógareigenda sé að stórum hluta pólitísk stefnumörkun og ráðgjöf til einstakra bænda og sölusamtakanna en sölusamtökin sjái um viðskiptahliðina.

Ólíkar aðstæður til skógræktar

Lennart segir aðstæður til skógræktar á Íslandi og í Svíþjóð mjög ólíkar. „Á Íslandi er skógrækt á byrjunarstigi eða felst í endurheimt skóga og mér sýnist hvort tveggja vera unnið af metnaði og stórhug. Skógrækt á Íslandi í dag fer að mestu fram á skóglausu landi en þar sem skógar eru fyrir í Svíþjóð erum við að endurplanta trjám í land sem þegar hefur verið nytjað til skógræktar.

Eftir að timbrið úr skógræktinni í Svíþjóð er nýtt er hluti hagnaðarins notaður til að endurplanta trjám fyrir næstu uppskeru. Á Íslandi þurfa bændur í dag aftur á móti að leggja fram fé til að planta út trjám og bíða í tugi ára þar til hægt verður að nytja skóginn. Skógrækt á Íslandi er því langtímafjárfesting og því ekkert óeðlilegt við að stjórnvöld leggi til fjárhagslegan stuðning til að koma framleiðslunni af stað.

Slíkan stuðning er að finna um alla Evrópu, til dæmis á Írlandi og Spáni, þar sem gamalt beitarland, akra og óræktarland er tekið undir skógrækt. Stuðningurinn sem um ræðir getur komið frá stjórnvöldum í viðkomandi landi eða úr sjóðum Evrópusambandsins.“

Ungt lerki í nýskógrækt.

Miklir möguleikar til skógræktar á Íslandi

„Þegar kemur að skógrækt á Íslandi segist Lennart hafa séð mjöð álitlega skógrækt í kringum Akureyri og við Húsavík. Þetta er að stórum hluta lerki og aðrar tegundir með og miðað við allt það land sem er á Íslandi ætti að vera hægt að rækta hér stóra og mikla nytjaskóga.

Á Íslandi eru einnig möguleikar til að stunda skógrækt samhliða annars konar landbúnaði, bæði búfjárrækt og jarðyrkju. Landgæði aukast samhliða aukinni skógrækt og um leið möguleikarnir sem landið býður upp á. Samhliða skógrækt má beita búfé á svokallaða hagaskóga og trén veita aukið skjól til matjurtaræktar og á sama tíma binda tré koltvísýring úr andrúmsloftinu. Kostir skógræktar eru því ótvíræðir,“ segir Lennart Ackzell, formaður Landssambands skógarbænda í Svíþjóð, að lokum. 

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...