Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Nýsköpunargildið sem felst í þróun á textíl og ullarframleiðslu er oftar en ekki vanmetið. Áhugafólk og framleiðendur telja að íslenska ullin eigi mikið inni og fjölmörg vannýtt tækifæri séu fyrir hendi henni tengd.
Nýsköpunargildið sem felst í þróun á textíl og ullarframleiðslu er oftar en ekki vanmetið. Áhugafólk og framleiðendur telja að íslenska ullin eigi mikið inni og fjölmörg vannýtt tækifæri séu fyrir hendi henni tengd.
Mynd / bbl
Fréttir 10. október 2023

Stjórnvöld hafa gleymt gildi íslensku ullarinnar

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Stjórnvöld hafa gleymt virði ullarinnar sem framleiðsluvöru og vörur framleiddar hér innanlands úr íslenskri ull þurfa skýra upprunamerkingu.

Spurt var hvers íslenska ullin væri megnug og hver væri framtíð ullarframleiðslu á Íslandi í svokölluðu sófaspjalli á Fundi fólksins í Norræna húsinu á dögunum. Segja aðstandendur viðburðarins, skrifstofan Íslenzk ull, bekkinn hafa verið þétt setinn áhugasömum þátttakendum. Umræðurnar leiddu þau Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir, einn stofnenda fyrirtækisins Vík Prjónsdóttir, Margrét Katrín Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri TextílLabs, Sigurður Sævar Gunnarsson, forstjóri Ístex og Þorgerður J. Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands og var vöngum velt um hvers vegna mikilvægt sé að viðhalda íslensku ullinni og hvernig mætti tryggja stöðu hennar.

Ágústa Sveinsdóttir

Ágústa Sveinsdóttir, talsmaður verkefnisins Íslenzkrar ullar, segir að svo virðist sem stjórnvöld hafi minni áhuga á ullinni en annarri innlendri framleiðsluvöru og hafi það verið mat margra viðstaddra í sófaspjallinu. Sammælst hafi verið um að nýsköpunargildið sem felist í þróun á textíl og ullarframleiðslu sé oftar en ekki vanmetið. Það sé miður því íslenska ullin feli enn í sér fjölda vannýttra tækifæra.

Aðstöðumunur í verðlagningu

Þátttakendum þótti mikilvægt að stjórnvöld stæðu betur vörð um íslenska framleiðslu í heild sinni. Fyrirtæki sem ekki framleiði innanlands geti verðlagt vörur sínar mun lægra en innlendir framleiðendur. Í því samhengi var einnig rætt um upprunamerkingar á vörum og bent á að enn sé ekkert sem standi í vegi fyrir því að vörur sem framleiddar eru erlendis séu merktar líkt og þær séu alíslenskar. Fólk hafi verið sammála um að við þessu þyrfti að bregðast. Gagnsæi væri nauðsynlegt til að gera íslenska framleiðslu sýnilegri og aðgreinanlegri. Sem dæmi mætti taka að ef peysa úr íslenskri ull væri ofin í Bretlandi og saumuð í Portúgal ættu þær upplýsingar allar að koma fram á merkimiða peysunnar svo neytandinn gæti tekið meðvitaða ákvörðun.

Verkefnið Íslenzk ull er rannsóknarverkefni þriggja nemenda úr LhÍ og HÍ sem hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna hjá Rannís í sumar. Segir í tilkynningu að Ágústa, sem er vöruhönnuður, Valgerður Birna Jónsdóttir vöruhönnuður og Elís Gunnarsdóttir, grafískur hönnuður, sameini þar krafta sína til að stuðla að aukinni vitund um framtíðarmöguleika íslensks ullariðnaðar.

Leitað aftur til ársins 1939

„Verkefnið er endurvakning á samnefndri skrifstofu sem starfrækt var af tveimur konum á árunum 1939–1951, þeim Önnu Ásmundsdóttur og Laufeyju Vilhjálmsdóttur, í þeim tilgangi að efla íslenskan ullariðnað,“ segir Ágústa. „Skrifstofan stóð fyrir fjölbreyttri grasrótarstarfsemi í yfir tvo áratugi sem knúði fram miklar breytingar á hugarfari fólks til nýtingar á ullinni.“

Hún segir margt sammerkt með stöðu ullariðnaðarins nú á tímum og þá. „Sauðfjárrækt er ekki fjárhagslega sjálfbær sem stendur en íslenska ullin er dýrmætt hráefni sem enn felur í sér fjölda vannýttra tækifæra,“ segir hún og bætir við að nú verði áhersla lögð á að skapa vettvang fyrir aukna verðmætasköpun úr ullinni með því að efla samtal milli ólíkra starfsstétta, sem allar hafi hag af því að íslenski ullariðnaðurinn sé efldur.