Stofnanir út á land
Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan höfuðborgarsvæðisins samkvæmt ákvörðun ráðherra.
Þær stofnanir sem um ræðir eru ný Umhverfis- og orkustofnun, sem mun hafa aðsetur á Akureyri, ný Náttúrufræðistofnun verður á Vesturlandi og Náttúruverndarstofnun á Hvolsvelli. Á næstu dögum stendur til að auglýsa eftir umsóknum í embætti forstjóra þessara stofnana. Frá þessu er greint í frétt á vef Stjórnarráðsins.
Markmiðið með því að hafa stofnanir ráðuneytisins úti á landi er að hafa starfsfólkið sem mest í grennd við viðfangsefnið, sem í þessu tilfelli er náttúra landsins, umhverfi og auðlindir. Jafnframt er markmiðið að fjölga störfum á landsbyggðinni, þó núverandi starfsmenn þurfi ekki að flytja sig um set. Starfsmannafjöldi þessara þriggja stofnana verður samtals á þriðja hundrað.
Samkvæmt nýjum lögum mun Umhverfis- og orkustofnun taka við starfsemi Orkustofnunar og hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar. Náttúruverndarstofnun mun taka við Vatnajökulsþjóðgarði og starfsemi náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar. Báðar þessar stofnanir taka til starfa 1. janúar á næsta ári. Náttúrufræðistofnun tók til starfa þann 1. júlí síðastliðinn, en inn í hana gengu Landmælingar Íslands og Náttúrurannsóknarstöðin við Mývatn.