Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Margar þjóðir hafa orðið illa fyrir barðinu á svínapestinni, en þessi mynd er frá Rússlandi.
Margar þjóðir hafa orðið illa fyrir barðinu á svínapestinni, en þessi mynd er frá Rússlandi.
Fréttir 9. október 2020

Stórútflutningur Þjóðverja á svínakjöti í uppnámi

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Julia Klöckner, landbúnaðarráðherra Þýskalands, staðfesti þann 10. september að fyrsta tilfellið af afrísku svínapestinni (ASF) hafi fundist í landinu. Þá hafði fundist hræ af smituðum villigelti í ríkinu Brandenburg í austurhluta Þýskalands. Þann 23. september höfðu fundist 32 smituð villisvín í Þýskalandi og voru staðfest smit orðin 46 þann 7. október. Illa virðist ganga hjá yfirvöldum að hefta útbreiðslu sjúkdómsins.

Þjóðverjar líta málið mjög alvarlegum augum, enda hefur svínapestin leikið svínarækt í mörgum ríkjum grátt. Þó hvergi eins illa og í Kína þar sem hollenski bankinn Robobank hefur áætlað að meira en 40% af 360 milljóna dýra svínastofni hafi drepist. Svínapestarvírusinn hefur nú fundist í 10 Evrópulöndum.

Skammt frá pólsku landamærunum

Hræið af smitaða villigeltinum sem fyrst fannst í Þýskalandi var í 6 km fjarlægð frá pólsku landamærunum og í um 30 km fjarlægð frá þeim stað sem slíkt smit var síðast staðfest í Póllandi. Sýni úr hræinu var tekið til rannsóknar hjá rannsóknastofu Loeffler-stofnunarinnar í Þýskalandi sem staðfesti að um afrísku svínapestina (AFS) væri að ræða. Engin lyf eru enn til við þessum mjög svo smitandi sjúkdómi sem er með 100% dánartíðni. Hann dregur svín nær undantekningarlaust til dauða á innan við sjö dögum.

Verið er að koma upp um 120 km löngum rafmagnsgirðingum til að hefta för villisvína í Þýskalandi og útbreiðslu á afrísku svínapestinni.
Þjóðverjar að missa tökin á svínapestinni

Síðustu fréttir af útbreiðslu afrísku svínapestarinnar í Þýskalandi eru taldar alvarlegt bakslag fyrir þýska svínaframleiðendur og sláturiðnaðinn. Þar með einnig fyrir dönsku svínaframleiðendurna sem senda smágrísi til Þýskalands eða eiga á annan hátt viðskipti við kollega í suðri.

Nýjustu tíðindi af útbreiðslu pestarinnar sýna að þýsk yfirvöld hafa ekki stjórn á málinu og eykur þetta verulega áhyggjur af frekari útbreiðslu. Alls hefur nú verið staðfest að 38 villisvín eru smituð af afrísku svínapestinni og óttast menn nú að pestin sé búin að herja á svín á svæðinu mun lengur en talið var. Á hinn bóginn eru enn engar fregnir af faraldri í eldisdýrum í Þýskalandi.

Varaði við andvaraleysi

Stig Mellergaard, aðalráðgjafi um dýraheilbrigði hjá dönsku dýralæknis- og matvælastofnuninni, hafði áður varað við andvaraleysi Þjóðverja eftir að smit hafði greinst í svínum Póllandsmegin við landamærin. Sagði hann þá að þegar menn uppgötvuðu svona sjúkdóm væri líklegt að hann hafi þegar verið á svæðinu í einn til tvo mánuði. Auk þess hefur verið bent á að smit hafi getað borist á önnur svæði með skrokkum villisvína sem veiðimenn hafi verið að skjóta. Eftirlit hefur nú verið hert með villisvínaveiðum á smituðum svæðum.

Smit hefur borist minnst 80 km á tíu dögum

Nú hafa smituð villisvín fundist í norðurhluta Bleyen, eða í um 80 kílómetra fjarlægð frá þeim stað sem fyrsta smitið fannst. Hafa þýsk yfirvöld þannig fengið enn stærra svæði til að fylgjast með smiti. Bráðabirgðatilkynningar benda til þess að setja eigi upp rafmagnsgirðingar á Bleyensvæðinu, rétt eins og komið var fyrir í Neuzelle.

Þjóðverjar gerðu sér vonir um að kínversk yfirvöld myndu samþykkja að kaupa áfram svínakjöt af svæðum utan skilgreindra sýkingarsvæða, en þær vonir virðast orðnar að engu.

Tugum þúsunda eldissvína slátrað í Póllandi

Í Póllandi heldur svínapestin áfram að breiðast út og tölur í síðustu viku sýna að slátra þurfi 846 eldissvínum í Mið-Póllandi. Hafa nú tæplega 100 hjarðir orðið fyrir áhrifum pestarinnar síðan í janúar, samkvæmt frétt þýska fjölmiðilsins Fleischwirtschaft. Vegna þessa hefur 56.800 innlendum eldissvínum verið slátrað til að reyna að hemja útbreiðslu sýkinnar.

Þjóðverjar langstærstu svínakjötsframleiðendur í Evrópu

Þýskaland er langstærsti svínakjötsframleiðandinn í Evrópu. Áætlað er að svínakjötsframleiðsla Þjóðverja á árinu 2020 muni nema um 5,2 milljónum tonna, sem er örlitlu minna en á síðasta ári.

Um 50 þúsund tonn á mánuði til Kína

Þýskaland er stærsti útflytjandi í álfunni á svínakjöti til Kína. Hafa Þjóðverjar flutt þangað yfir 50.000 tonn af svínakjöti á mánuði samkvæmt frétt á vef National Hog Farmer í lok september. Þá er þýskt svínakjöt um 14% af öllu svínakjöti sem flutt er inn til Kína. Þýskaland er fjórði stærsti svínakjötsútflytjandi í heimi á efir Bandaríkjunum, Spáni, og Kanada, með yfir 9% hlutdeild á útflutningsmarkaði.

Helstu kaupendur banna svínakjötsinnflutning frá Þýskalandi

Fréttin af svínapestinni í Þýskalandi hafði strax þau áhrif 11. september að bæði Suður-Kórea og Japan settu bann á innflutningi á svínakjöti frá Þýskalandi. Á árinu 2019 fluttu Japanir inn yfir 40 þúsund tonn af svínakjöti frá Þýskalandi. Í kjölfarið bönnuðu yfirvöld í Kína, Brasilíu, Argentínu, Mexíkó og á Filippseyjum líka innflutning á svínakjöti frá Þýskalandi.

Samtök bænda gagnrýna seinagang yfirvalda

Samtök bænda í Þýskalandi (Deutscher Bauerverband - DBV) hafa kallað eftir því að yfirvöld kæmu upp villisvínalausu belti meðfram pólsku landamærunum. Hafa samtökin harðlega gagnrýnt yfirvöld í Brandenburg fyrir skilningsleysi á málinu. Haft er eftir Bernhard Krüsken, formanni samtakanna, að það hafi nákvæmlega enginn skilningur verið á málinu frá fyrsta degi. Viðbrögð hafi verið mjög sein og fjöldi viðbragðssveita væru að vinna að málinu hlið við hlið án nokkurrar samræmingar. Landbúnaðarráðherrann, Julia Klöckner, reyndi að hughreysta bændur og sagði að þeir yrðu ekki skildir eftir með þennan vanda. Þar yrðu m.a. tekin upp úrræði varðandi geymslu á kjöti sem ekki yrði hægt að selja úr landi.

Risabanki reynir að róa markaðinn

Hollenski fjölþjóðabankinn Rabo­bank, sem er næststærsti banki Hollands, reyndi að hughreysta fjárfesta á hrávörumarkaði í fyrri viku með að langtímaáhrif á svínakjötsmarkaðinn yrðu kannski ekki eins alvarleg og ætla mætti. Hljómaði það dálítið sérkennilega í ljósi innflutningsbanns fjölda ríkja á svínakjöti frá Þýskalandi. Þá höfðu smit greinst á tveimur stöðum í ríkinu Brandenburg við landamærin að Póllandi, þ.e. í OderSpree og Spree-Neissde.

Landbúnaðarráðuneyti Þýska­lands setti af stað hæsta viðbúnaðarstig, enda talið erfitt að koma í veg fyrir útbreiðslu veikinnar í Þýskalandi með villtum svínum. Danir höfðu áður brugðist við með því að reisa sérstaka girðingu á landamærunum að þýskalandi sem á að koma í veg fyrir að villt svín frá Þýskalandi ráfi mögulega yfir landamærin.

Búið er að koma upp tvöföldu kerfi rafmagnsgirðinga í kringum svæðin þar sem smit hafa fundist í Þýskalandi, en það virðist ekki hafa dugað. Þá hafa yfirvöld sett í gang leit að villisvínum í því augnamiði að reyna að komast að því hversu útbreidd svínapestin sé orðin. Er notast við hunda og þyrlur við leitina. Hundarnir hafa verið fluttir á svæðið frá Rínarhéraðinu Palatinate og frá Schleswig-Holstein. Eru þeir sérþjálfaðir í að finna svínahræ en snerta þau ekki.

Skylt efni: svínapest

Jólatrjáalundur hreindýrabóndans
Fréttir 27. desember 2024

Jólatrjáalundur hreindýrabóndans

Stefán Hrafn Magnússon, hreindýrabóndi í Grænlandi, hefur gróðursett tré á landi...

Kyngreining sæðis hafin
Fréttir 27. desember 2024

Kyngreining sæðis hafin

Við Nautastöð Bændasamtaka Íslands á Hesti í Borgarfirði hefur verið komið upp f...

Áskrift að Bændablaðinu 2025
Fréttir 27. desember 2024

Áskrift að Bændablaðinu 2025

Gefin eru út 23 tölublöð af Bændablaðinu ár hvert. Upplagi þess er dreift um all...

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...