Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Fréttir 12. nóvember 2019
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Alls runnu 58,5 milljarðar evra til landbúnaðarkerfis Evrópusambandsins, CAP, á árinu 2018, samkvæmt nýlegum tölum Eurostat. Það er um 40% af útgjöldum ESB. Þar af nema beingreiðslur tæpum 41,5 milljörðum evra, eða 70,9%.
Til viðbótar beingreiðslum eru greiddir rúmir 14,3 milljarðar í dreifbýlisstuðning, eða 24,5% og tæpir 2,7 milljarðar evra í markaðssetningu, eða 4,6%.
Stuðningur Evrópusambandsins við landbúnað lætur nærri að nema um 16% af heildartekjum greinarinnar. Hlutfallsleg samsetning landbúnaðar innan ESB er með allt öðrum hætti en þekkist á Íslandi og veðurfarsleg og hnattræn staða hefur þar mest áhrif. Því er ekki óeðlilegt að það sé ódýrara að framleiða flestar landbúnaðarvörur í ESB-löndunum en á Íslandi. Því er stuðningurinn hér líka hærra hlutfall af heildartekjum greinarinnar, eða 24%. Meðal þjóða heims er samt lögð mikil áhersla á að geta brauðfætt sína þegna og tryggja þar með fæðuöryggi sitt þegar í harðbakkann slær. Auk þess sem loftslagsmál og önnur umhverfissjónarmið spila æ stærri rullu í heildarmyndinni.
Vínrækt, ávaxta- og grænmetisrækt fá mestan stuðning
Langmestur stuðningur í ESB-löndunum er við vínrækt og vínframleiðslu, eða rúmar 968 milljónir evra, eða 35,9% af beingreiðslunum og í ávaxta- og grænmetisframleiðslu fara rúmar 865 milljarðar evra, eða 32,1%. Önnur plönturæktun er að fá rúmlega 231 milljón evra, eða 8,6%. Mjólkurframleiðslan er með rúmlega 201 milljón evra, eða 7,5%. Ofarlega á listanum eru verkefni sem tengd eru menntun og fá þau tæpar 156 milljónir evra, eða 5,8%. Þá vekur athygli að kynningarstarf fær rúmlega 161 milljón evra innan landbúnaðarkerfis CAP, sem nemur 6% af beingreiðslunum.
Frakkland, öflugasta landbúnaðarlandið, fær mest
Þegar skoðuð eru útgjöld til einstakra ríkja þá fær Frakkland langmest, eða tæpa 9,5 milljarða evra. Bretar fá aftur á móti ekki „nema“ rúma 3,9 milljarða. Þá fá Spánverjar tæpa 6,8 milljarða evra og Þjóðverjar tæpa 6,4 milljarða evra. Síðan koma Ítalir með rúma 5,8 milljarða og Pólverjar með rúma 4,6 milljarða.
Er þetta athyglisvert ef litið er til þess að Frakkar eru rétt tæpar 67 milljónir talsins en Bretar, sem fá einungis um 41% af framlagi Frakka, eru rúmlega 66,3 milljónir. Skýrist það væntanlega af því að Frakkar eru með langöflugasta landbúnaðinn innan ESB-ríkjanna og er hann nærri þrefalt stærri en í Bretlandi.
Þýskaland er aftur á móti fjölmennasta ríki ESB með nærri 82,8 milljónir íbúa og er að fá heldur minna en 46,6 milljónir Spánverja. Ítalir sem eru nær 60,5 milljónir fá um milljarði minna en Spánverjar. Svo er Pólland, með nær 38 milljónir íbúa, að fá 1,2 milljörðum minna en Ítalir.
56,3% tekna ESB landbúnaðar kemur úr ræktun nytjajurta
Ef horft er á tekjuhliðina skilaði uppskera af allri ræktun landbúnaðar ESB 205,6 milljörðum evra á árinu 2018 (205.642.000.000 evra), eða 56,3% af landbúnaðartekjunum. Þar er garðyrkja og grænmetisrækt að skila mestu eða 52,7 milljörðum evra, 25,6%. Þar á eftir kemur kornrækt með 43,8 milljarða, eða 21,3%. Síðan kemur ávaxtarækt með 27,5 milljarða, 13,4% og vínrækt með 25,8 milljarða evra, eða 12,5%. greinarinnar. Plönturæktun þ.e. blómarækt og annað er að skila nær 19,7 milljörðum evra, eða 9,7%. Ræktun til iðnaðarframleiðslu skilar 17,8 milljörðum evra, eða 8,7% og fjöldi annarra greina skilar svo því sem upp á vantar.
43,7% tekna ESB landbúnaðar kemur úr dýraeldi
Allt dýraeldi og allar afurðir af dýrum skila 159,8 milljörðum evra, eða 43,7% af öllum landbúnaðartekjunum. Þar af er dýraeldi og kjötframleiðsla að skila 94,7 milljörðum evra, eða 59,3%. Afurðavinnsla eins og eggja- og mjólkurframleiðsla skila 65,1 milljarði evra, eða 40,7% af dýraeldisþættinum.
61,5% tekna í íslenskum landbúnaði kemur úr dýraeldi
Á Íslandi var heildarframleiðsluvirðið 2018 samtals tæpir 62,7 milljarðar króna samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Stærsti hluti tekna landbúnaðarins kemur af dýraeldi, eða 61,5%, á meðan 38,5% koma úr nytjaplönturækt. Heildarstuðningur ríkisins við landbúnað var þá um 15,6 milljarðar króna. Það þýðir að stuðningurinn hér á landi nemur því tæplega 24,% af heildartekjum greinarinnar. Það er vissulega hærra hlutfall en í ESB-löndunum í heild, en hafa ber í huga að veðurfarsleg skilyrði til ræktunar eru mun lakari hér og samsetning greinarinnar mjög ólík.
Ótrúlega góður árangur miðað við hnattstöðu
Dýraeldi á norðlægum slóðum er mun kostnaðarfrekara en í tempruðu eða heittempruðu loftslagi. Sama á við um nytjaplönturækt. Staðan hér er því mjög ólík stöðunni í ESB þar sem 56,3% teknanna koma úr nytjaplönturækt, enda skilyrði allt önnur.
Í raun má segja að miðað við hnattstöðu séu íslenskir bændur að ná ótrúlega góðum árangri í samanburði við evrópska kollega sína.
Fréttir 29. október 2024
Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
Slow Food Reykjavík hélt hátíð í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur dagana 18. og ...
Fréttir 29. október 2024
Dagur sauðkindarinnar
Þann 12. október síðastliðinn var dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu haldi...
Fréttir 29. október 2024
Nýr formaður Lífeyrissjóðsins
Vala Valtýsdóttir er nýr formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bænda. Aukaaðalfundur s...
Fréttir 28. október 2024
Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...
Fréttir 28. október 2024
Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu
Auka þarf innlenda matvælaframleiðslu um 45–55 prósent næstu þrjátíu árin til að...
Fréttir 28. október 2024
Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé
Innleiðing á verndandi og mögulega verndandi arfgerðum gegn riðu í sauðfé gengur...
Fréttir 25. október 2024
Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju
Umsóknum um styrki vegna útiræktunar grænmetis fækkaði um fimm frá fyrra ári.
Fréttir 25. október 2024
Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast
Kennitala Sláturhússins á Hellu hefur verið afskráð og verður reksturinn færður ...
29. október 2024
Nýr formaður Lífeyrissjóðsins
29. október 2024
Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
29. október 2024
Fjölmenningarhátíð í Aratungu
29. október 2024