Styrkir vegna kaltjóna
Bjargráðasjóði hefur borist 81 umsókn frá bændum vegna kaltjóns á túnum. Fresturinn rennur út á miðnætti 31. ágúst og er mat á umsóknum ekki hafið.
Samkvæmt upplýsingum frá matvælaráðuneytinu hafa einhverjir umsækjendur fengið tölvupósta frá Náttúruhamfaratryggingu Íslands (NTÍ) sem sér um rekstur Bjargráðasjóðs, þar sem óskað er eftir frekari gögnum, eins og myndum. Bent er á að hafi einhverjir litið á það sem höfnun sé það rangt en það kunni að leiða til synjunar á síðari stigum ef engin viðbrögð koma við beiðnunum.
Verklagsreglur um afgreiðslu umsókna um fjárstyrk vegna tjóns af völdum kals árið 2024 voru samþykktar 10. júní síðastliðinn og sendar Bændasamtökum Íslands, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, öllum búnaðarsamböndum á landinu, ásamt fleiri aðilum. Í reglunum stendur meðal annars: „Skilyrði fyrir styrkveitingu er að greinargóðar ljósmyndir og/eða drónamyndir af skemmdum fylgi með umsókninni. Það skal koma skýrt fram af hvaða spildu hver mynd og/eða drónamynd er tekin.“ Bjargráðasjóður getur jafnframt falið sérfróðum aðilum að meta skemmdir í vettvangsferð ef ástæða þykir til.
Ekki verður hægt að stofna nýjar umsóknir eftir 31. ágúst, en umsækjendur geta bætt við gögnum fram yfir umsóknarfrestinn ef ástæða er til.