Suður-Kórea og Japan banna innflutning á svínakjöti frá Þýskalandi
Framleiðsla á svínakjöti í Þýskalandi er nú í uppnámi eftir að smit fannst í hræi af villisvíni innan landamæra Þýskalands 10. september. Erlendir kaupendur svínakjöts halda að sér höndum.
Þjóðverjar hafa flutt út milljónir tonna af svínakjöti árlega og eru kaupendur nú í viðbragðstöðu. Strax 11. september fóru að berast fréttir af því að bæði Suður-Kórea og Japan höfðu lagt bann við innflutningi á svínakjöti frá Þýskalandi. Á árinu 2019 fluttu Japanir inn yfir 40 þúsund tonn af svínakjöti frá Þýskalandi.
Beinast augu Þjóðverja nú að Kína og hver viðbrögðin verða þar vegna svínapestarinnar sem komin er upp í villtum svínum í Þýskalandi. Ef Kínverjar loka fyrir innflutning yrði það gríðarlegt högg fyrir þýska svínabændur. Þangað hafa verið flutt út yfir 5 milljónir tonna á ári. Hafa Kínverjar reynt að bæta upp skaða af svínapest heimafyrir með því að kaupa svínakjöt hvar sem það hefur verið að finna í veröldinni. Um120 milljónir svína hafa drepist í Kína frá því veikin fannst þar fyrst í ágúst 2018. Það hefur sett kínverska markaðinn í uppnám sem hefur lýst sér í miklum verðhækkunum. Hafa kínverskir milljarðamæringar m.a. nýtt sér stöðuna.