Urriðakotshraun friðlýst
Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra friðlýsti Urriðakotshraun sem fólkvang miðvikudaginn 10. janúar.
Er það hluti af Búrfellshrauni sem rann fyrir um átta þúsund og eitt hundrað árum.
Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að friðlýsingu svæðisins sem fólkvangs sé ætlað að tryggja aðgengi almennings að náttúru Urriðakotshrauns, sem búi yfir fjölbreyttum náttúru- og menningarminjum og miklum möguleikum til útivistar, náttúruskoðunar og umhverfisfræðslu. Urriðakotshraun liggur við Heiðmerkurveg skammt frá Urriðaholti í Garðabæ.
Á heimasíðu Umhverfisstofnunar segir að hraunið sé svokallað klumpahraun og jaðar þess uppbelgdur og úfinn. Í hrauninu séu sveigðir hryggir á yfirborði og úfnir hraukar við jaðrana. Nokkuð sé um hraunhella og kallist þeir Selgjárhellar og Maríuhellar.
Viðstaddir friðlýsinguna voru fulltrúar sveitarfélagsins, Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa og Golfklúbbsins Odds sem friðlýsingin var unnin í góðu samráði við.