Breskir bændur stynja undan verðhækkunum
Bretar glíma við miklar verðhækkanir á matvöru, rúm 19% að jafnaði á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, að því er kemur fram á fréttavef BBC.
Hefur það leitt af sér ýmis vandkvæði fyrir bændur á Bretlandseyjum, ekki síður en neytendur. Jafn skörp hækkun hefur ekki sést í tæp 45 ár og valda henni margir samverkandi þættir, svo sem afleiðingar Covid-19 faraldursins, breytingar í kjölfar Brexit og innrásarstríð Rússa í Úkraínu. Útsæði og áburður hefur hækkað umtalsvert í verði í Bretlandi eins og annars staðar og segjast bændur þar verða varir við nærfellt daglega hækkun á aðföngum til landbúnaðar. Svo tekið sé dæmi hefur kostnaður kartöflubónda í Pembrokeshire vegna áburðarkaupa farið úr 290 pundum í 900 á örfáum misserum, úr 50 þúsund íslenskum krónum í 158 þúsund krónur.
Hvað varðar hækkun á landbúnaðarvörum til breskra neytenda má nefna að agúrkur hafa til dæmis hækkað um 54%, gerilsneydd mjólk um 33% og kartöflur og smjör um 28%