Færri dráttarvélar seldar í Evrópu
Samtals voru næstum 215.000 dráttarvélar skráðar í þrjátíu löndum Evrópu árið 2022. Þar af voru 59.300 undir 50 hestöflum og 155.700 yfir 50 hestöflum.
Samtök evrópska landbúnaðarvélasala, CEMA, áætla að 165.200 af heildarfjölda traktora selda á árinu séu landbúnaðartæki. Restin eru farartæki sem geta farið í sama tollflokk og dráttarvélar, eins og fjórhjól. Á bak við þessar tölur liggja gögn frá 30 Evrópulöndum, þ.m.t. ESB-löndin, Bretland, Ísland, ásamt nokkrum Austur- Evrópulöndum, að Rússlandi og Úkraínu undanskildum. Frá þessu er greint í samantekt CEMA.
Samdráttur ársins 2022 var 8,7 prósent samanborið við 2021. Síðarnefnda árið var salan sú besta um árabil. CEMA fullyrðir að árið 2022 hefði orðið metár í dráttarvélasölu ef ekki hefði verið fyrir truflanir á aðfangakeðjum. Þar spila helst inn í langvarandi áhrif vegna Covid-19 heimsfaraldursins, sem voru gerð verri með innrás Rússa í Úkraínu á liðnu ári. Af þessu hafa hlotist tafir og hækkað verð á hrávörum og íhlutum.
Seinkanir framleiðslu minnkuðu eftir því sem leið á árið. Vegna óvenjumikillar eftirspurnar hjá kaupendum eru biðlistar eftir afhendingu dráttarvéla enn langir. Fyrir faraldur máttu kaupendur vænta þess að fá dráttarvélar afhentar á tveimur til þremur mánuðum. Nú eru biðlistarnir minnst hálft ár og birgðir vélasala í Evrópu með minnsta móti.
Mestur var samdrátturinn í sölu á dráttarvélum undir 130 hestöflum, eða 15,2 prósent milli 2021 og 2022.
Á móti kemur að 3,7 prósent aukning var í sölu á traktorum yfir 130 hestöflum. 39 prósent seldra dráttarvéla falla í síðarnefnda stærðarflokkinn. CEMA hefur þann varnagla á að vegna afhendingartafa og seinkana getur verið að þessar tölur gefi ekki rétta mynd af raunverulegum óskum og þörfum kaupenda.
Nálægt 40 prósent allra nýrra dráttarvéla í tölum CEMA voru seldar í Frakklandi og Þýskalandi. Samdráttur var í flestum löndum Vestur-Evrópu, á meðan aukning var hjá nokkrum af Norðurlöndunum og Austur-Evrópu.