Fuglaflensuvírus í vöðva nautgrips
Kjöt úr kú sem var slátrað eftir að hafa sýkst af fuglaflensu reyndist mengað af veirunni.
Mjólkurkýrin var meðal gripa sem voru skornir niður eftir að hafa greinst með H5N1 fuglaflensuvírusinn. Samkvæmt opinberum tölum hefur vírusinn greinst í hjörðum 58 kúabúa sem framleiða mjólk í níu ríkjum. Kjöti sýktra gripa er fargað og leggur landbúnaðarráðuneytið í Bandaríkjunum áherslu á að matvælakeðjan sé örugg. Sóttin hefur ekki greinst á búum sem sérhæfa sig í framleiðslu nautakjöts. The New York Times greinir frá.
Fullnægjandi matreiðsla nauðsynleg
Hins vegar vekur þetta áhyggjur af því að smitað kjöt geti ratað í verslanir, sem geti hugsanlega haft í för með sér sýkingarhættu fyrir menn. Fulltrúi hjá neytendasamtökunum Consumer Reports telur áhættuna ekki mikla að svo stöddu. Vilji fólk fullvissa sig um öryggi matvælanna þurfi það að hita kjötið almennilega þegar það er matreitt.
Tilraunir styðji við þær fullyrðingar að viðeigandi eldun drepi smitefni vírussins í kjöti. Í rannsókn landbúnaðarstofnunar Bandaríkjanna var miklu smitefni H5N1 blandað við hamborgara. Engin smitefni fundust þegar kjötið var steikt að 71 °C, sem samsvarar vel elduðum borgara, eða þegar kjötið var látið ná 63 °C, sem samsvarar meðalsteiktum borgara. Hins vegar fannst smitefni í skertu magni í lítið steiktum hamborgurum, eða þar sem kjötið náði 49 °C.
Hefur ekki fundist í búðum
Samkvæmt landbúnaðarstofnuninni virkuðu ferlar eins og ætlað var í ljósi þess að starfsmenn sjúkdómsgreindu kúna og sáu til þess að kjöti hennar var fargað. Hins vegar hefur verið bent á að fundist hafi sýktar kýr sem sýndu engin einkenni og því hugsanlegt að ekki hafi tekist að koma í veg fyrir að veikir gripir færu í sláturhús til matvælaframleiðslu. Landbúnaðarstofnunin hefur ekki fundið vírusinn við stikkprufur á kjöti í verslunum.
Þeirri spurningu hvort menn geti sýkst af fuglaflensu við neyslu á sýktu kjöti hefur ekki verið svarað. Nýleg rannsókn sýndi hins vegar fram á að mýs sem drukku ógerilsneydda mjólk með smitefninu urðu veikar. Þá hafa fjósakettir einnig sýkst eftir að hafa drukkið mjólk úr kúm með fuglaflensu.