Vilja hamla innflutning
Erfitt er að finna magntölur yfir úkraínska kjúklingaframleiðslu en því er haldið fram að landið sé þriðji stærsti birgirinn í Evrópu, utan Evrópusambandsins.
Árið 2021 voru flutt um 259.000 tonn af alifuglakjöti til ESB frá Úkraínu. Einn stór framleiðandi, Myroniscsky Hliboproduct (MHP), er með yfirburðastöðu á markaðnum. Sá framleiðandi er lóðrétt samþættur, þ.e.a.s. hann getur ræktað sitt eigið fóður, ræktað og slátrað kjúklingum og síðan selt og dreift kjötinu eftir eigin flutninga- og frystigeymslukerfi, innanlands og utan.
Árið 2022 hefur kjúklingakjötsframleiðsla í Úkraínu haldist stöðug þrátt fyrir stríðsátök. Minni innlend eftirspurn leiddi til meiri útflutnings og sérstaklega eftir að Evrópusambandið afnam tolla á úkraínskar vörur. Fréttamiðillinn Reuters segir frá því að hækkandi kostnaður í franskri kjúklingarækt sökum fóður- og orkuverðshækkana, sem og samkeppni við ódýrt innflutt kjöt, sé að ganga fram af þarlendum alifuglabændum. Samtök franskra kjúklingabænda hafa því beðið ESB að virkja varúðarreglu tollaniðurfellingarinnar þar sem hún er farin að valda framleiðendum tjóni. Slíkan fyrirvara er ekki að finna í íslensku reglugerðinni.