Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Lilja Guðnadóttir og Guðni Þór Guðjónsson, kartöflubændur í Hrauk í Þykkvabænum. Um 70 prósent af allri kartöfluuppskeru í landinu kemur úr Þykkvabæ þar sem um tíu ræktendur eru enn eftir. Í fyrra uppskáru þau um 750 tonn en reikna með minni uppskeru í haust, bæði vegna þess að færri hektarar voru undir og eins hefur tíðarfar verið fremur óhagstætt. Í gegnum tíðina hefur gengið nokkuð vel í búskapnum hjá þeim og þau kvarta ekki yfir afkomunni.
Lilja Guðnadóttir og Guðni Þór Guðjónsson, kartöflubændur í Hrauk í Þykkvabænum. Um 70 prósent af allri kartöfluuppskeru í landinu kemur úr Þykkvabæ þar sem um tíu ræktendur eru enn eftir. Í fyrra uppskáru þau um 750 tonn en reikna með minni uppskeru í haust, bæði vegna þess að færri hektarar voru undir og eins hefur tíðarfar verið fremur óhagstætt. Í gegnum tíðina hefur gengið nokkuð vel í búskapnum hjá þeim og þau kvarta ekki yfir afkomunni.
Mynd / smh
Fréttir 29. ágúst 2024

Útlit fyrir sæmilega kartöfluuppskeru

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Í Þykkvabænum er útlit fyrir sæmilega kartöfluuppskeru þegar á heildina er litið, ef ekki frystir á næstu vikum og bændur sleppa við kartöflumyglu.

Ef frystir falla kartöflugrösin og vöxtur á kartöflunum stöðvast. „Það gengur ágætlega hjá okkur þó það hafi ekki viðrað neitt sérstaklega í sumar. Ef við fáum hins vegar ágætt veður restina af ágúst, þá verður þetta sæmileg útkoma hjá okkur,“ segir Guðni Þór Guðjónsson, kartöflubóndi í Hrauk.

„Á meðan ekki frýs þá mjakast þetta áfram, en í þessari tíð hefur vaxtarhraðinn á kartöflunum ekki verið upp á sitt besta. Ef september verður svo líka góður, ættum við að ná alveg meðaluppskeru á heildina litið.“

Lilja er hér með fallegt smælki af Rauðum íslenskum.
Sumaruppskeran ræktuð undir plasti

Fyrsta uppskeran úr Þykkvabænum kemur vanalega rétt fyrir miðjan júlí, hraðvaxta yrkið Premier, og svo einnig fljótlega í kjölfarið Gullauga og síðan Rauðar íslenskar skömmu eftir verslunarmannahelgi. Lítill hluti þeirrar uppskeru sem ætlaður er á markað á þessum tíma er ræktaður undir plasti.

Að sögn Guðna var fyrsta uppskeran ekki langt á eftir meðalárinu – kannski viku síðar. „Það var allt seinna til má segja, vorverkin voru seinna á ferðinni af ýmsum ástæðum, til dæmis var nokkuð lengi klaki í jörðu, þannig að það var sett seinna niður en vanalega.“

Foktjón í júní

„Við glímdum við þó nokkrar áskoranir í vor, enda fengum við gular veðurviðvaranir í apríl, maí og júní, en ekki í janúar, febrúar og mars – eins og við erum frekar vön,“ heldur Guðni áfram. „Í óveðrinu sem gekk yfir landið í júní, og lék bændur á Norðurlandi sérstaklega illa, hafði líka mikil áhrif hjá okkur. Gróðurplastið fauk upp og svo fauk ofan af útsæðinu líka,“ segir Guðni.

Þau jákvæðu tíðindi eru hins vegar úr Þykkvabænum að bændur hafa enn ekki orðið varir við kartöflumyglu, en talsverður ótti var um að skæð evrópsk mygluafbrigði myndu berast til landsins með innfluttu erlendu stofnútsæði. Þykkvabæjarbændur hafa á undanförnum áratugum lent í nokkrum slæmum myglusumrum og þurft að þola þungar búsifjar af hennar völdum.

„Við höfum verið á tánum hérna með fyrirbyggjandi aðgerðir. Við fylgjumst með spálíkönum sem segja til um hvenær mestar líkur eru á að myglan komi upp, sem er oftast þegar mikill raki og heitt loft kemur saman í tíðarfarinu. Svo þurfum við líka að notast við fyrirbyggjandi varnarefni, sem við notum sparlega í samráði við garðyrkjuráðunaut Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins.“

Guðni og Lilja eru hér í kartöflugarði í Háarima, þar sem Guðni ólst upp. Þau eru með lönd þar einnig undir sína ræktun.

Ferskar kartöflur og afurðir til matvælaframleiðslu

Í Þykkvabænum er enn nokkuð umfangsmikill hluti af kartöfluræktun sem rennur til matvælaframleiðslunnar í Þykkvabæjarverksmiðjunni. Bændurnir stofnsettu verksmiðjuna og áttu til 2015 þegar matvælavinnslufyrirtækið Sómi keypti hana. Hluti af þeirri uppskeru er fenginn með erlenda útsæðinu sem þykir hentugt í þá framleiðslu.

Matís og íslenskir kartöflubændur eiga í samstarfi um ræktun á stofnútsæði á tilteknum kartöfluyrkjum sem neytendur þekkja úr verslunum; Premier, Gullauga, Helgu og Rauðum íslenskum. Þannig eiga íslenskir kartöflubændur að geta gengið að sjúkdómafríu útsæði ár hvert. Guðni segir að um 70 prósent af allri kartöfluræktun í landinu sé í Þykkvabænum og segir að þar séu eftir um 10 ræktendur – hann sé í hópi þeirra umfangsmestu. „Í fyrra uppskárum við nálægt 750 tonnum sem telst vera góð uppskera, en þá vorum við með aðeins fleiri hektara undir en núna. Við settum í um 26 hektara í vor.“

Mikið vinnuhagræði er af tækjabúnaðinum sem sér um flokkunina á kartöflunum, en um stóra fjárfestingu var að ræða í búrekstrinum.

Ágæt afkoma

Guðni er kominn af kartöflubændum og bjó með foreldrum sínum á nágrannabænum Háarima, en kona hans, Lilja Guðnadóttir, er aðflutt frá Bakkakoti í Meðallandi. Þau sinna kartöflubúskapnum bæði í fullu starfi, en fjárfestu árið 2020 í tækjabúnaði sem flokkar kartöflur í stærðarflokka og greinir skemmdir í þeim líka. Þau segja að gríðarlegur vinnusparnaður sé af vélinni. Einungis séu fjórar aðrar vélar til í landinu.

Þau Guðni og Lilja kaupa Hrauk 2005, en fyrir voru þar aðrir kartöflubændur. Þau segja að í raun hafi gengið bara nokkuð vel í kartöflubúskapnum í gegnum tíðina og þau kvarta ekki yfir afkomunni. Afurðaverðið sé orðið viðunandi og eftir því sem þau selji meira á ferska markaðinn því hærra verð fái þau hlutfallslega fyrir afurðirnar. En almennt séð fer hlutfall þeirra afurða vaxandi sem fer í matvælavinnslu á íslenskum kartöflumarkaði.

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...