Viðbragðshópur vegna kuldatíðar
Matvælaráðherra hefur sett á laggirnar viðbragðshóp vegna þeirra erfiðleika sem hafa verið í landbúnaði sakir óvenjulegrar kuldatíðar undanfarið.
Guðrún Birna Brynjarsdóttir, fulltrúi Bændasamtaka Íslands í hópnum, segir honum ætlað að kortleggja ástandið. Ásamt henni sitja fundina fulltrúar matvæla- og innviðaráðuneyta, Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins og almannavarna ásamt fulltrúum lögregluembættanna á Norðurlandi vestra og eystra.
Þegar þetta er ritað hefur hópurinn fundað tvisvar og segir Guðrún Birna vinnuna vera á byrjunarreit. Fyrstu skrefin séu að taka stöðuna á ólíkum stöðum, en eftir fyrsta fundinn lá ljóst fyrir að kuldakastið hefði haft veruleg neikvæð áhrif á starfsemi bænda, bæði til lengri og skemmri tíma.
Ekki er búið að ákveða hversu lengi viðbragðshópurinn starfar þar sem ekki er vitað hvenær tjónið muni koma í ljós. Guðrún Birna segir lykilatriði að bændur skrái tjón með því að taka myndir, en gögn séu nauðsynleg til þess að hægt sé að bæta skaðann. Verklag í kringum gagnavinnslu verði kynnt fljótlega.
Bjarkey Olsen matvælaráðherra segir í tölvupósti til
Bændablaðsins mikilvægt að ná utan um ástandið. Hún vilji koma því skýrt á framfæri við bændur að ráðuneytið standi heilshugar að baki þeim í ljósi þeirrar náttúruvár sem gengið hefur yfir.