Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Viðtal 1. október 2019
Höfundur: smh
Í ágúst samþykkti Matvælastofnun sex umsóknir af sjö um aðlögunarstyrk að lífrænum framleiðsluháttum. Elínborg Erla Ásgeirsdóttir er ein þeirra sem fá úthlutað þetta árið, en hún keypti fyrir fáeinum árum eyðijörðina Breiðargerði í Skagafirði, þar sem hún hefur hreiðrað um sig með sína lífrænu útiræktun á grænmeti.
Hún bætist þar væntanlega í hóp fárra garðyrkjubænda sem stunda lífræna útiræktun og framleiða markvisst fyrir almennan markað. Aðlögunartímabilið að lífrænni vottun fyrir einært grænmeti eru tvö ár. Lítil nýliðun hefur verið á Íslandi á undanförnum misserum hvað framleiðendur snertir á lífrænt vottuðu grænmeti, þrátt fyrir að markaðurinn fyrir slíkar vörur virðist hafa stækkað nokkuð ört.
Markmið aðlögunarstyrkjanna er einmitt að aðstoða framleiðendur að uppfylla skilyrði lífrænt vottaðrar framleiðslu og auka framboð lífrænna vara á markaði, en þetta er í þriðja sinn sem slíkir styrkir eru veittir. Fyrir tveimur árum bárust Matvælastofnun einungis tvær umsóknir en í fyrra sóttu fimm framleiðendur um styrki.
Alltaf haft áhuga á garðyrkju
Elínborg Erla Ásgeirsdóttir er alin upp í sveit, á bæ skammt frá Breiðargerði þar sem stunduð var sauðfjárrækt.
„Ég hafði alltaf takmarkaðan áhuga á henni,“ segir Elínborg.
„En hef aftur á móti alltaf haft áhuga á allri ræktun og gróðri almennt – og vann fyrst í garðyrkjustöð þegar ég var 16 ára gömul.
Líklega kviknaði áhugi minn á lífrænni ræktun þó fyrst og fremst þegar ég vann við gulrótaupptöku hjá Akurseli ehf. í Öxarfirði fyrir nokkrum árum síðan. Þá sannfærðist ég allavega um að lífræn ræktun væri möguleg á Íslandi í útiræktun á grænmeti. Þegar ég svo hélt áfram að kynna mér hlutina, lesa mér til og afla mér vitneskju um hugmyndir lífrænnar framleiðslu, heillaðist ég og hef í dag þá skoðun að það sé besta leiðin til þess að framleiða matvæli. Mikil áhersla er lögð á frjósemi jarðvegs, að ganga ekki á landsins gæði, nota ekki eiturefni og almennt að vinna allt í sátt við náttúruna,“ segir Elínborg.
Greip tækifærið þegar Breiðargerði var auglýst
Elínborg hafði velt fyrir sér möguleikanum á eigin garðyrkjuframleiðslu í nokkurn tíma þegar hún sá jörðina Breiðargerði auglýsta til sölu.
„Þar var þá hvorki föst búseta né búskapur og enginn húsakostur á jörðinni utan eitt lítið íbúðarhús. Hún er auðvitað stutt frá heimili foreldra minna og því sá ég möguleikann í því að geta samnýtt tækjabúnað með þeim. Fyrir vikið sá ég fram á að fjárfestingin gæti verið viðráðanleg, sló til og keypti jörðina. Kaupin gengu í gegn í apríl 2015. Ég flutti þangað og bý þar ein. Ég hef síðan smám saman verið að koma mér upp nauðsynlegri aðstöðu og búnaði til þess að framleiða og pakka grænmeti á staðnum. Þar er ég fyrst og fremst að hugsa um útiræktun og jafnvel ræktun í óupphituðum gróðurhúsum.
Frá 2016 hef ég svo ræktað grænmeti í litlu magni og selt í verslunum í nágrenninu undir merkjum Breiðargerðis. Vinsælastar eru líklega gulræturnar sem ég rækta í alls konar litum. Ég er ákveðin í að halda áfram að rækta þær, en er ekki fyllilega búin að ákveða hvaða annað grænmeti ég verð með í árvissri ræktun. Ég er einmitt að taka upp gulrætur þessa dagana og þrátt fyrir mikla þurrka í byrjun ræktunartímabilsins þá líta þær ágætlega út, enda fengið bæði vætu og yl seinnipart sumars og í haust.“
Nemur lífræna ræktun í fjarnámi við LbhÍ
„Ég er í námi í lífrænni ræktun við garðyrkjudeild Landbúnaðarháskóla Íslands að Reykjum í Ölfusi. Námið er tvö ár í dagskóla, en ég tek það á fjórum árum í fjarnámi með vinnu. Garðyrkjuskólinn er magnaður staður. Þar er mikill mannauður og hafsjór fróðleiks fyrir ræktendur að sækja í. Ég mæli með fyrir alla þá sem ætla að stunda garðyrkju að fara í nám við skólann. Ekki síst í lífrænni ræktun þar sem oft getur verið erfitt að nálgast upplýsingar um hvað virkar í lífrænni ræktun á Íslandi.
Stétt lífrænna framleiðenda á Íslandi er því miður fámenn og lítið til af upplýsingum og niðurstöðum rannsókna á vefnum. Oft er því ekki í boði að setjast við tölvuna og leita á vefnum að þeim upplýsingum sem mann vantar, heldur nauðsynlegt að forvitnast um reynslu annarra,“ segir Elínborg.
Elínborg Erla Ásgeirsdóttir í gulrótargarði sínum í Breiðargerði.
Ræktar lífrænt en vottunin bíður
Draumurinn hjá Elínborgu var að vera búin að skapa sér atvinnugrundvöll þegar náminu lyki.
„Mig dreymdi um að vera búin að koma mér upp ræktunarlandi, aðstöðu og tækjum til þess að geta framleitt grænmeti í meira magni og stækkað sölusvæðið.
Frá byrjun hef ég einungis notað lífræna áburðargjafa og ekki notað nein eiturefni. Ræktunin er þó ekki lífrænt vottuð eins og er, en hún kemur vonandi að aðlögun lokinni. Lífræn vottun er auðvitað mikill gæðastimpill og neytendur ættu að vera mjög öruggir um að vottuð vara uppfylli öll skilyrði,“ segir hún.
En lífrænt vottuð ræktun er líka kostnaðarsöm að sögn Elínborgar og útheimtir oft meiri vinnu.
„Lífrænt vottuð fræ eru dýrari, lífrænir áburðargjafar bæði dýrari og oft meiri vinna að koma þeim í ræktunarlandið, meira þarf að nota af yfirbreiðslum alls konar og það þarf meira pláss til þess að passa upp á frjósemi jarðvegsins með því að rækta ekki sömu tegundina lengi á sama stað. Þá er illgresiseyðing tímafrekari þegar ekki eru notuð eiturefni, það þarf pláss og aðstöðu til að jarðgera úrgang frá býlinu og svo framvegis.
Síðan er alltaf ákveðinn kostnaður við aðlögunarferlið og vottunina sjálfa og ég leit því þannig á að ekki væri raunhæft að leggja í þann kostnað fyrr en ræktunin hefði náð ákveðinni stærð, nægilegri veltu til þess að standa undir kostnaðinum,“ útskýrir Elínborg.
En vottunarferlið tekur líka tíma. Að sögn Elínborgar er aðlögunartíminn í ræktun á einærum plöntum – líkt og flestu því grænmeti sem er ræktað úti á Íslandi – yfirleitt tvö ár. Ekki er leyfilegt að merkja vöruna sína með vottunarmerki Túns sem lífrænt vottaða fyrr en að aðlögunartíma loknum, að því gefnu að þú uppfyllir öll skilyrðin auðvitað.
„Núna í vor fór þó jörðin hjá mér í lífræna aðlögun. Öll jörðin fór í aðlögun, grænmetisgarðarnir, skógrækt sem er nýlega hafin á jörðinni og einnig það land sem í raun er ekkert notað eins og er. Þar eru þá til dæmis tækifæri í framtíðinni til þess að safna villtum jurtum af vottuðu landi,“ segir Elínborg.
Umsóknarferlið ekki mjög flókið
„Í fullri hreinskilni þá hefði ekki verið mögulegt fyrir mig að byrja vottunarferlið strax nema vegna aðlögunarstyrksins sem í boði er,“ segir Elínborg þegar hún er spurð að því hversu miklu það breyti fyrir hana að hafa fengið styrkinn.
„Hægt er að sækja um styrk vegna alls þess kostnaðar sem fellur til beinlínis vegna aðlögunarinnar – sem ekki væri í boði ef ræktunin væri ekki lífræn.
„Auðvitað er einhver skriffinnska á bak við svona umsókn, það þarf til dæmis að gera kostnaðaráætlun. Þar naut ég þó dyggrar aðstoðar starfsmanns hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og þegar upp var staðið var umsóknarferlið ekki mjög flókið. Ef Matvælastofnun gerir ekki athugasemdir við kostnaðaráætlunina getur maður fengið að hámarki úthlutað upphæð sem samsvarar 50 prósent af áætlun. Það munar heldur betur um minna. Það er þó skilyrði fyrir úthlutun að vottunarferli sé þegar hafið, að þú hafir skrifað undir samning við vottunarstofu. Það er kannski það sem er mest taugatrekkjandi í ferlinu. Þú ert þegar búinn að skuldbinda þig til að leggja út í kostnaðinn við vottunina áður en þú veist hvort þú færð aðlögunarstuðninginn.
Ef allt gengur að óskum verð ég því komin með vottun á grænmetið hjá mér í seinasta lagi 2021 og mér því leyfilegt að selja það með vottunarmerki Túns á umbúðunum.
Í framtíðinni verður svo hægt að tína sveppi í lífrænt vottaðri skógrækt og fara í berjamó á lífrænt vottuðu landi hjá mér. Ef upp koma tækifæri til nýtingar á þessum eða öðrum afurðum svæðisins þá er vottunin til staðar.“
Bjartsýn á framtíð lífrænnar ræktunar
„Ég er almennt nokkuð bjartsýn á framtíð lífrænnar ræktunar á Íslandi,“ segir Elínborg, spurð um stöðu og horfur í þessum geira.
„Mér finnst neytendur alltaf verða meira og meira meðvitaðir um hvað þeir eru að kaupa og þá meðal annars hvað liggur að baki lífrænni vottun. Lífræn framleiðsla er líka umhverfisvæn og losar yfirleitt minna kolefni en almenn ræktun, það skiptir fólk miklu máli í dag.
Líklega þyrfti helst að kynna lífrænar aðferðir enn betur til að hraða þróuninni og fjölga þeim framleiðendum sem sækja sér vottun. Sýna fólki fram á að þetta er ekki bara vel gerlegt heldur vænlegt og að í lífrænni framleiðslu liggi fullt af tækifærum.“
Viðtal 26. apríl 2022
Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Baldur Sæmundsson, áfangastjóri í Menntaskólanum í Kópavogi, þar sem Hótel- og...
Viðtal 8. apríl 2022
Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...
Viðtal 8. desember 2021
Fann mína ástríðu í þessu starfi
„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...
Viðtal 8. nóvember 2021
„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...
Viðtal 13. júní 2021
„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...
Viðtal 12. febrúar 2021
Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...
20. desember 2024
Á kafi í hrossarækt
20. desember 2024
Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
20. desember 2024
Særður fram úr myrkviðum aldanna
20. desember 2024
Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
20. desember 2024