Hjónin Stefanía Hjördís Leifsdóttir og Jóhannes Helgi Ríkharðsson hafa í aldarfjórðung staðið að baki afkastamiklu
búi á harðbýlu svæði á Tröllaskaga.
Hjónin Stefanía Hjördís Leifsdóttir og Jóhannes Helgi Ríkharðsson hafa í aldarfjórðung staðið að baki afkastamiklu búi á harðbýlu svæði á Tröllaskaga.
Mynd / ghp
Viðtal 8. nóvember 2024

Framtakssamir Brúnastaðabændur

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Um 70 kílómetrum frá heimskautsbaug, á hinum volduga Tröllaskaga, um miðja vegu milli Hofsóss og Siglufjarðar, stendur býlið Brúnastaðir í Fljótum. Þar býr dugmikil fjölskylda sem heldur úti fjölbreyttri starfsemi. Hjónin Stefanía Hjördís Leifsdóttir og Jóhannes Helgi Ríkharðsson hafa nú í aldarfjórðung rekið gróskumikið blandað bú, matvælavinnslu, verslun, húsdýragarð, gistingu fyrir ferðamenn og fósturheimili, svo fátt eitt sé nefnt.

Brúnastaðir eru stórt sauðfjár- og geitabú. Vetrarfóðraðar kindur eru 700–800 talsins og um 70 geitur sem nýttar eru til mjólkurframleiðslu og ostagerðar á staðnum. Þá er þar nautgripaeldi til kjötframleiðslu. Heimavinnsla búsins selur beint frá býli og í gegnum vettvang smáframleiðenda.

Í dýragarðinum má finna nær öll húsdýr landsins; margar tegundir af hænum, endur, kanínur, geitur, heimalinga, hross og grísi, kálfa og kalkúna svo eitthvað sé nefnt. Þar að auki er þar töluverð ferðaþjónusta, bæði gistihús og sveitabúð þar sem seldar eru veitingar yfir sumartímann og í þokkabót rekur fjölskyldan félagsheimilið Ketilás.

Dagarnir eru því erilsamir en margar hendur vinna léttari verk. Fjölskyldan er fjölmenn, hjónin eiga fjögur börn sem öll taka þátt í búskapnum á einn eða annan hátt. Þá eru Hjördís og Jóhannes einnig fósturforeldrar þriggja barna. Einnig hafa grænlenskir búfræðinemar verið í verknámi á Brúnastöðum um langt skeið og dvelja þá að jafnaði ár í senn sem og nemar í gegnum Erasmus sem koma þangað til skemmri og lengri tíma. Ávallt er því annríki á Brúnastöðum, sjaldnast færri en tíu manns í mat, en þannig vilja hjónin hafa það.

Hjónin eiga fjögur börn, Ríkeyju Þöll, Kristin Knörr, Ólaf Ísar og Leif Hlé. Öll taka þátt í búskapnum á einn eða annan hátt. Mynd/Einkaeign

„Ég er alin upp á mannmörgu og gestrisnu heimili á Keldudal í Hegranesi. Það var eins og umferðarmiðstöð, við vorum sex systkini, en líka fósturheimili fyrir börn og búið mjög stórt. Ég þekki því ekkert annað. En það er líka svo gefandi, hingað koma ungmenni sem eru frjáls í anda og hafa upplifað svo margt skemmtilegt. Þau eru góðar fyrirmyndir fyrir börnin okkar og fósturbörn, því þau hafa ekki látið neitt stoppa sig í að láta drauma sína rætast,“ segir Hjördís. Við leggjum mikla áherslu á það í uppeldinu að börnin tileinki sér víðsýni og fordómaleysi og forvitni um umheiminn. Leggjum áherslu á menntun og ferðalög til fjarlægra landa.

Samræðurnar við eldhúsborðið geta enda orðið mjög fjörugar. „Við ræðum mikið þjóðfélagsmál og allir taka þátt í pólitískum umræðum.“ Enda kemur í ljós í samræðum hjónanna við blaðakonu, hvar upprunaleg efnistök viðtals áttu að snúast um loftslagsmál og landbúnað, að á ansi mörgum áhugaverðum umræðupunktum var að taka.

Þegar Bændablaðið bar að garði var Ólafur heima til að aðstoða við byggingarframkvæmdir. Hann heldur hér á þriggja daga gömlum kálfi.
Hæglát framleiðsla úr alfaraleið

„Við búum við mjög sérstakar aðstæður og veðrið getur verið gjörsamlega galið,“ segir Hjördís og Jóhannes tekur undir. „Við fáum annaðhvort rosalega gott veður eða rosalega slæmt – það er engin meðalmennska hér.“

Þau njóta þess að búa svo afskekkt í stórkostlegu umhverfi. Landið sé vænt til búfjárræktar, þau hafi aðgang að bæði sjó og fjalllendi sem laðar til sín ferðafólk. „Við höfum lært mikið á því að sjá svæðið í gegnum augu gesta okkar. Enda viljum við að fólk komi hingað og njóti, upplifi svæðið og sérstöðu þess, skilji söguna og menninguna og hugsunina bak við það að búa hér.“

Hugsjónin er í anda hæglætis og sjálfbærni. „Við viljum hafa þetta undir „slow“ hattinum. Slow food, slow travel, slow farming,“ segir Stefanía sem var nýkomin af matarhátíðinni Terra Madre á Ítalíu á vegum Slow Food-hreyfingarinnar. Þar var ýtt úr vör verkefninu Slow Food Farms sem ætlað er að efla tengsla- og fræðslunet bænda sem stunda vistvænan landbúnað við ferðaþjónustu og matreiðslumenn til að fækka milliliðum. Hjördís kom full eldmóðs frá Ítalíu þar sem hún heimsótti nokkra ítalska bændur sem hafa fundið sér ýmsar sniðugar leiðir til að auka afkomu sína með framleiðslu á gæðavörum.

Í sumar voru sjötíu huðnur mjólkaðar daglega frá júlí fram í miðjan október. Geit skilar um hálfum lítra af mjólk á dag. Heildarframleiðsla sumarsins var á milli fjögur og fimm þúsund lítrar og úr þeim eru unnin um 4–500 kíló af geitaosti. Mynd/Einkaeign
Lífræn geitfjárrækt

Því tengdu stefna Brúnastaðabændur nú á þá vegferð að aðlaga geitfjárhald sitt að lífrænni vottun. Þau hafa stundað geitfjárrækt á forsendum mjólkurframleiðslu í fjögur ár.

Geitahjörð þeirra telur nú um 100 dýr en í sumar voru sjötíu huðnur mjólkaðar. Þær bera kiðum í mars og fá þau að ganga undir mæðrum sínum þar til í byrjun júlí þegar þau eru send á fjall rétt eins og sauðféð, sem er nokkuð sjaldséð.

„Víðast hvar annars staðar í Evrópu, þar sem geitfjárrækt til ostagerðar er stunduð, er kiðum lógað strax í fæðingu rétt eins og í kúamjólkurframleiðslu. Með því að láta kiðin ganga undir erum við auðvitað að missa besta mjaltaskeiðið hjá huðnunum en við viljum ekki fara aðra leið,“ segir Hjördís.

Huðnurnar eru alla jafna mjólkaðar einu sinni á dag frá júlí fram í miðjan október. Geit skilar um hálfum lítra af mjólk á dag. Heildarframleiðsla sumarsins var á milli fjögur og fimm þúsund lítrar og úr þeim eru unnin um 4–500 kíló af geitaosti, en í dag gera þau sjö gerðir sem hafa ávallt selst upp.

Nú standa yfir framkvæmdir fyrir geiturnar. Nýr braggi er í byggingu þar sem geitur verða aðskildar öðru búfé, munu geta staðið á hálmi og sótt í hey af óábornum túnum samkvæmt reglum um lífræna ræktun. Það er því stefnan að Brúnastaðir verði fljótlega fyrsta og eina lífræna geitfjárbú landsins.

Jóhannes hugar að geitahjörðinni. Nú standa yfir framkvæmdir fyrir geiturnar. Nýr braggi er í byggingu þar sem geitur verða aðskildar öðru búfé, munu geta staðið á hálmi og sótt í hey af óábornum túnum samkvæmt reglum um lífræna ræktun. Það er því stefnan að Brúnastaðir verði fljótlega fyrsta og eina lífræna geitfjárbú landsins.
Plágurnar sjö

Árið 2024 hefur verið sérstakt fyrir margra hluta sakir. Sumarið náði þeim vafasama heiðri að vera innblástur lagsins „Skítaveður“ sem ómar nú á útvarpsstöðvum.
Norðlenskir bændur urðu hvað verst úti vegna ótíðar. Jóhannes og Hjördís segja tímabilið án fordæma en hvert áfallið fylgdi á fætur öðru. „Þetta hefur verið hræðilegt ár. Eftir snjóléttan vetur leit allt svo vel út, sáum fram á að sauðburður yrði búinn snemma og að við gætum farið að bera skít á túnin. Svo komu páskarnir og allt fór á bóla-djöfulsins-kaf og svo snjóaði stanslaust í þrjár vikur.“

Hvert áfallið fylgdi á fætur öðru í sumar. Kristinn Knörr smalar saman fé fyrir óveðrið í júní. Mynd/Einkaeign

Við tók mikill kuldatími sem seinkaði allri jarðvinnslu. „Loks þegar snjórinn hopar eru öll okkar bestu tún steindauð.“ Jarðvinnsla og endurrækt þurfti að bíða fram yfir sauðburð.

En óveðrið rétt eftir sauðburð var skepnum og bændum mikið áfall. Þó fjölskyldunni hafi tekist að koma öllum í skjól meðan á því stóð voru afleiðingar þess langvarandi. Í stað þess að setja skepnurnar á nýsprottið tún þurftu þær að sætta sig við hey og bíða lengur en ella eftir að komast á fjall. Kindurnar þrifust þar af leiðandi verr og það dró verulega af þeim.

„Sífelld norðanskot með ísköldu úrhelli svona hálfsmánaðarlega í sumar, sem gekk svo nærri bæði ánum og lömbunum að við vorum að finna dauðar skepnur í allt sumar. Það vantar glás,“ segir Jóhannes en tæplega sextíu lömb fundust dauð á túnum áður en rekið var á fjall.

Þegar fé var loks komið á fjall var farið að endurrækta. „Við plægðum og sáðum um 20 hektara. En svo hættir ósinn á vatninu að hleypa út í sjó svo það flæðir hér allt yfir og nýræktartúnin fóru á bólakaf,“ segir Jóhannes. Býst hann við að miklum verðmætum, bæði áburður og sáðvörur, hafi skolast á haf út.

„Síðan bætist ofan á þetta að óhemju fjöldi gæsa og álfta settust niður á vatninu í sumar. Svona til að gleðja okkur. Það var ekki beint óskastaða að fá þær loksins þegar grænfóðrið var komið aðeins af stað, þær hreinsuðu hér allt,“ segir Jóhannes og Hjördís líkir ferlinu við plágurnar sjö í hálfgerðu gríni.

Sprettan var rýr vegna tíðarfarsins en hjónin segjast þó hafa getað heyjað nóg fyrir veturinn enda geti þau sótt í önnur tún. „Öll bestu túnin voru ónýt en öll lélegustu túnin heil. Við gátum, þökk sé „Deplunum“, heyjað þeirra jarðir. Þarna voru mörg óslétt og gömul tún sem ekki höfðu verið slegin í nokkur ár. Gæðin eru kannski ekkert sérstök en þetta hafðist.“

Ekki var heyskapurinn þó vandkvæðalaus. „Í september var þessi fína spá í tvo daga og við ætluðum að drífa okkur í að klára heyskapinn. Við slógum heilan helling. En þá kom sunnanrok og heyið fauk út í veður og vind. Ætli við höfum ekki orðið af tugum rúlla þar,“ segir Jóhannes og getur ekki varist brosi. „Þetta var skrautlegt sumar.“

Jóhannesi reiknast til að það vanti um 3,5 tonn í beinu innleggi frá þeim í ár miðað við meðalár, þar sem afföllin eru 180 lömb frá 1. júní sem í venjulegu ári eru um 50 og meðalvigt um tveimur kílóum minni. Honum reiknast til að beint afurðatap verði að lágmarki 4,5 milljónir króna. Þau búast við að eitthvað muni fækka í hjörðinni. Allmargar veturgamlar og ungar ær urðu fyrir júgurskemmdum í ótíðinni og í staðinn freistast þau til
að nota eldri ær lengur en ella. Þar að auki var heyfengur minni og mikill kostnaður fylgir endurræktun túna sem eyðilögðust vegna kals.

Hjördís segir sárast að sjá eftir skepnunum. „Það er sorglegt að horfa upp á skepnurnar sínar veslast upp og finna þær dauðar. En þótt þetta sé peningalegt tjón og sársaukafullt þá eru aðrir að kljást við mun stærri áföll. Allir í fjölskyldunni eru heilbrigðir og hamingjusamir, við erum mjög stór og samheldin fjölskylda og það er ekkert annað í boði en að bera sig vel,“ segir Hjördís.

Vel gengur að koma verndandi genum gegn riðu í hjörðina á Brúnastöðum. Jóhannes var nýbúinn að merkja féð með litum samkvæmt niðurstöðum arfgerðargreininga. „Þetta breytir ræktunarstarfinu aðeins, við horfum meira í genin en gerðina," segir hann.

Deplarnir góðir grannar

Brúnastaðabændur standa því keikir. „Við erum náttúrlega með mörg egg í okkar körfu, sem hjálpar okkur,“ segir Hjördís. Þá hafi fækkun búa í sveitinni, og þar með aðgangur að fleiri túnum, einnig komið til bjargar eins og áður var nefnt.

Við eigum mjög góða nágranna, allt í kringum okkur, við erum einstaklega heppin með það. Þá nefna hjónin sérstaklega góða samvinnu við forsvarsmenn lúxushótelsins Deplar Farm, „Deplana“ eins og þau kalla nágrannana. Hótelið er í eigu bandaríska ferðaþjónustufyrirtækisins Eleven Experience og hefur það keypt allmargar jarðir í Fljótunum. Hjónin segja þá leggja sig fram við að eiga góða samvinnu við sveitungana og eru til dæmis kappsamir kringum göngur. Þá útvegi þeir bíla og fólk til fjárflutninga og grilli ofan í göngufólk svo mikil stemning myndast sem geri það að verkum að þægilegt sé að fá fólk til að taka þátt í þeim.

„Þegar við fluttum hingað um aldamótin var mikið af ungum fjölskyldum með börn. Við stofnuðum leikskóla í sveitinni og hér var einnig grunnskóli. Með tímanum hefur búum fækkað en að sama skapi kom gríðarleg atvinnuuppbygging í sveitina með tilkomu Depla. Hér eru tugir manns í vinnu – þetta er næststærsti vinnuveitandi Skagafjarðar. En það er svo sorglegt að þrátt fyrir það rýrna alltaf innviðirnir. Leikskólanum var lokað, grunnskólanum var lokað og fjölskyldufólk sem hefur reynt að búa hér hefur gefist upp á því að þurfa að keyra börnin á Hofsós,“ segir Hjördís.

Þeim reiknast til að búrekstur sé stundaður á fimm býlum í Austur- Fljótum. Þeir sem hafa brugðið búi hafi selt jarðirnar. „Jarðirnar hafa selst til fjársterkra aðila sem eru kannski ættaðir héðan og vilja hafa hér sumarafdrep. Deplarnir hafa keypt annað. Venjulegt fólk á erfitt með að keppa við verðið sem þeir bjóða,“ segir Jóhannes. Þróunin sé tvíeggja sverð. „Það er tvennt í þessu. Þeir sem selja hafa meiri vissu um að fá ásættanlegt verð fyrir jörðina sína. En að sama skapi er hún ekki að fara til búskapar og það rýrir samfélagið í sveitinni. Fyrir vikið eru fleiri verkefni sem við sem eftir erum þurfum að sinna.“

Þau nefna sem dæmi aðstoð við þá sem fara um sveitina. „Okkur finnst að það mætti ívilna bændum fyrir að vera á ákveðnum veðurfarslega erfiðum svæðum af öryggisástæðum. Oft er illfært hér á veturna og um leið og Vegagerðin hættir að þjónusta veginn klukkan sjö á kvöldin, eða það er ekki þjónusta vegna veðurs, þá byrjar síminn að hringja og við erum farin að bjarga fólki úti um allt. Við vitum að Neyðarlínan gefur upp símann hjá Jóhannesi,“ segir Hjördís og Jóhannes segist aldrei hafa gefið sig út fyrir að vera í björgunarsveit. Hins vegar rennur þeim blóðið til skyldunnar að aðstoða fólk sem er í vandræðum.

„Einn daginn þá fór heill tankur á dráttarvélinni til að bjarga fólki hérna úti um allt. Jóhannes rukkar aldrei fyrir þennan greiða,“ segir Hjördís enda fólk oft dauðhrætt og miður sín, á ekki von á svona akstursskilyrðum.

Þau nefna þetta sem dæmi um hið mikilvæga samfélagslega hlutverk sem bændur í sveitum landsins gegna.

Þá hafi ásýnd landsins, með gróðursælum sveitum og lifandi dýrum, einnig mikið vægi fyrir ferðamennsku. Umræðan beinist þá að algengu þrætuepli.

Samfélagsleg skylda jarðareigenda

Lausaganga búfjár er ásteytingarefni, sérstaklega milli þeirra sem stunda sauðfjárbúskap og þeirra sem eiga jarðnæði sem þeir vilja ekki að sé beitt vegna skógræktar.

„Fólk á kannski jarðir og notar húsnæðið sem sumarbústað, en á ekki lögheimili þar og gefur lítið af sér til samfélagsins. Vilja svo ekki girða, því það segist ekki þurfa þess. Sumir setja upp öryggismyndavélar og hringja svo í tíma og ótíma í bændur og búalið til að smala því það sýnist sjá kind í mynd,“ segir Jóhannes og undir það tekur Hjördís.

„Þetta er ekkert sérstaklega flókið, það þarf einfaldlega að girða og þeir sem eru í landshlutabundinni skógrækt fá til þess styrk. Þegar við komum í Brúnastaði voru hér engin tré. Við erum búin að planta tugum þúsunda trjáa hér á svæðinu og upp í fjallið samhliða því að vera með eitt stærsta sauðfjárbú á Norðurlandi og geitur. Þetta eru engin geimvísindi og trjárækt og búfjárrækt eiga að geta farið fram í sátt og samlyndi sé vilji til.

Þau telja nauðsynlegt að skýra betur regluverkið bæði fyrir búfjár- og jarðareigendur. „Það þarf að útskýra hvað lausaganga er og skilgreina skyldur þeirra sem eiga jarðir. Í Noregi eru reglur um að þú fáir ekki að kaupa jörð nema þú takir þátt í samfélaginu. Hér ættu kannski líka að hvíla ákveðnar samfélagslegar kvaðir á þeim sem kaupa eignir í gamalgrónum sveitasamfélögum,“ segir Jóhannes.

Hjördís segir samfélögin geti staðið og fallið með slíkri samvinnu. „Það er erfitt að búa á svona svæði, margar veðurfarslegar áskoranir en allt verður léttara með samvinnu og samstöðu íbúa og enn þá betra þegar þeir sem kaupa jarðir eru með svipað hugarfar. Þá taka allir þátt og hafa gaman. En þegar einhver kemur inn í samfélagið, sem er með einhverja allt aðra sýn, þá verður allt erfiðara og þá molnar undan þessu mjög hratt.“

Brúnastaðir í Fljótum eru úr alfaraleið en þó staðsettir við þjóðveg 76. Bærinn er á sveitarfélags- og kjördæmamörkum. Það tilheyrir sveitarfélaginu Skagafirði og Norðvesturkjördæmi þótt það sé í raun nær Siglufirði en Fjarðabyggð sem tilheyrir Norðausturkjördæmi. Mynd / Einkaeign
Meira frelsi í búvörusamningum

Eitt af þeim málefnum sem skipta bændur meginmáli er hvernig stuðningskerfi landbúnaðar verði til framtíðar. Þó hjónin séu samtaka eru þau ekki alltaf sammála.

„Ef ég mætti ráða þá myndi ég vilja að bændur hefðu meira val, þannig að stuðningurinn yrði ekki bundinn við tiltekna framleiðslu eða búgrein, heldur yrði gefið meira frelsi svo fólk gæti gert fleiri hluti en samt fengið stuðning. Það myndi skapa fleiri tækifæri til dæmis til nýsköpunar,“ segir Hjördís.

Jóhannes segir að slíkt kunni ekki góðri lukku að stýra nema að meira fjármagn sé sett í stuðningskerfið. „Stórkostlegur samdráttur hefur verið á fjármagni til landbúnaðar undanfarin ár. Þú styrkir engan með því að taka frá einhverjum sem er á horriminni og setja á annan. Það skapar bara meiri óánægju milli bænda og það er ekki það sem við þurfum. Við vitum að sauðfjárræktin er komin á þann stað að við erum rétt að ná að framleiða fyrir innanlandsmarkað. Nautakjötsframleiðslan hefur verið í basli, þegar það hrúgast hér inn innflutt kjöt. Við erum með eitt besta grasræktarland Evrópu, sem er hentugt til að framleiða kjöt og hey á sjálfbæran hátt. Það er fáránlegt að verið sé að flytja hér inn fullt af matvælum sem eru framleidd á korni sem fólk gæti borðað. Í mínum huga væri miklu nær að framleiða kjöt á grasi sem manneskjan getur ekki borðað.“

Í þessu samhengi setur Jóhannes spurningarmerki við kolefnisútreikninga kjötframleiðslu. „Sauðfjárbændur bera svo lítinn áburð á túnin að það varla telur og lömbin éta bara gras sem annars nýtist ekki og yrði að sinu. Ótækt er að bera saman umhverfisáhrif þess við innflutt kjúklingakjöt og svínakjöt, þar sem kolefnissporið hverfur um leið og þú flytur það yfir hafið, vegna þess að það er skráð í einhverju öðru landi. Ég held við verðum að horfa á hvað við þurfum til að brauðfæða þjóðina. Hvernig ætlum við að sjá fram á að það verði einhver nýliðun í landbúnaði og að fólk geti lifað á búskap? Hvernig getum við nýtt allar þessar auðlindir okkar sem best? Hvernig ætlum við að tryggja það að hér sé framleitt nóg af matvælum?“ spyr Jóhannes.

Hvernig sem stuðningskerfi í landbúnaði verður þurfi það að tryggja að stuðningurinn rati til þeirra sem sannanlega búa á landsbyggðinni og framleiða landbúnaðarvörur. Stuðningurinn eigi að fara til þeirra sem framleiða og tryggja eðlilega tekjumöguleika þeirra sem stunda landbúnað.

Hjördís segir bændur þurfa að vera iðnari við að koma lífinu í landbúnaði á framfæri. „Við erum ekki nógu dugleg að segja frá því sjálf hvað við erum að gera, hvers vegna við gerum það, hvaða sýn við höfum á framtíðina og hverju við brennum fyrir.“

Brúnastaðir er nýtt þátttökubýli í verkefninu Loftslagsvænn landbúnaður sem Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins heldur utan um. Markmið þess er að auka þekkingu bænda á loftslags- og umhverfismálum en í gegnum verkefnið setja bændur sér mælanleg markmið hvernig þeir minnka kolefnisspor á sínu býli. „Þetta er frábært verkefni og í raun ótrúlega hollt fyrir hvaða býli sem er að skoða búreksturinn með tilliti til loftslagsmála en um leið með tilliti til fjárhagslegrar hagræðingar. Því þetta skilar ekki bara miklu meiri hugsun í því hvernig við komum í veg fyrir sóun heldur skilar þetta sér í beinhörðum peningum í rekstri hvers býlis,“ segir Hjördís.

Þau hafa alltaf haft sjálfbærni og umhverfismál að leiðarljósi í sínum búrekstri og þrátt fyrir að búa á harðbýlum stað sjái þau endalaus tækifæri til vaxtar og meiri grósku. „Ef þú ætlar að setja þig niður á svona stað þá þarftu fyrst og fremst að horfa á möguleikana sem svæðið hefur en ekki takmarkanir þess.

Hér er allt hægt að gera, ef þú bara nennir því,“ segir Jóhannes.

Í Víetnam á Tröllaskaga

Ferðaþjónusta hefur vaxið mikið á Tröllaskaga síðustu ár, sér í lagi vegna uppgangs þyrluskíðaferða í fjallgarðinum fyrir ofan Brúnastaði. Fjölskyldan verður sannarlega vör við það.

„Þetta er svolítið eins og villta vestrið hér á vorin þegar þyrlufyrirtækin keppast við að komast á hreina tinda. Þetta byrjaði af alvöru fyrir svona fimm árum síðan en í dag eru allavega fimm fyrirtæki sem sum gera út nokkrar þyrlur hvert Á fallegum kyrrum vormorgni þegar stillt er í veðri er mjög hljóðbært. Mætti þá stundum halda að við værum stödd í Víetnamstríðinu, þyrlurnar fljúga hér stanslaust yfir og hljóðin bergmála milli fjalla. Þetta skemmir upplifun okkar af vorkomunni og er mjög þreytandi, ef ég á að segja eins og er,“ segir Hjördís.

Þótt þau viti að slíkar ferðir séu komnar til að vera þá vonast þau til að settar verði reglur eða aðgangsstjórnun á svæðið. „Við búum við þennan breytta veruleika enda eru ekki margir staðir á landinu sem bjóða upp á svo svakalegan fjallgarð með mikill snjósöfnun. En við erum hrædd um slysahættu líka,“ segir Jóhannes.

Hann útskýrir að tveir mismunandi hópar ferðafólks sæki í fjöllin á Tröllaskaga. „Fólkið sem kemur og gistir hjá okkur tilheyrir þeim hópi sem er að sækja í kyrrðina og kýs að ganga á fjöllin með skinn undir skíðunum og renna sér svo niður. Þau eru auðvitað ekki spennt fyrir öllum þessum þyrlum yfir sér.“

Skylt efni: Brúnastaðir

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt