Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Jón Elvar Gunnarsson og Helga Rún Jóhannsdóttir með dætrum sínum Ragnheiði og Sigurborgu. Þau eru stolt af hvítu kálfunum sínum og klæða þá í bláar hlífðarkápur svo þeir fái síður kuldahroll og skitu.
Jón Elvar Gunnarsson og Helga Rún Jóhannsdóttir með dætrum sínum Ragnheiði og Sigurborgu. Þau eru stolt af hvítu kálfunum sínum og klæða þá í bláar hlífðarkápur svo þeir fái síður kuldahroll og skitu.
Mynd / sá
Viðtal 6. júní 2024

Nautin út og áhersla á kýrnar

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Á Breiðavaði í Eiðaþinghá búa þau Jón Elvar Gunnarsson og Helga Rún Jóhannsdóttir með dætrum sínum, Ragnheiði og Sigurborgu. Þau eru með 62 kýr í lausagöngufjósi og segja búskapinn ganga ágætlega.

Þau kunna að sögn ágætlega við stærðina á búskapnum og hafa ekki hugsað sér að færa út kvíarnar í bili. Meira liggi á að bæta dálítið aðstöðuna. Fjósið sé gamalt básafjós frá árinu 1983, byggt við það nautahús 2001 og geldneytaaðstaða 2006.

Þá var fjósinu jafnframt breytt í lausagöngufjós og settur upp mjaltaþjónn sem endurnýjaður var í fyrra. 380 þúsund lítra mjólkurkvóti er á Breiðavaði. „Já, okkur langar að byggja við og auka rými,“ segir Jón Elvar. „Aðeins að auðvelda umferðina fyrir kýrnar í fjósinu. Nú hættum við bráðum með nautin, vegna plássleysis, og tökum þá kálfaplássið undir kýrnar líka.“

Auka eigi rekstrartengda kennslu

Þau Helga Rún og Jón Elvar eru bæði búfræðimenntuð, kynntust að sögn í náminu og útskrifuðust bæði árið 2011.

„Bændaskólinn mætti gjarnan vera þrjú ár í stað tveggja, því það þarf miklu meiri kennslu í rekstrarhagfræði og því um líku. Ef þú ætlar að verða bóndi þá þarftu að kunna það, enda ein stærsta áskorunin í búskap,“ segir Jón Elvar.

Fjögur ár eru síðan Helga Rún og Jón Elvar tóku að fullu við búskapnum, af foreldrum Helgu Rúnar, Jóhanni Gísla Jóhannssyni og Ólöfu Ólafsdóttur, sem tóku við búskapnum 1980 af foreldrum Jóhanns Gísla. Þá var búið með kýr, geldneyti, nokkurt fé og einar 300 hænur. Fénu var öllu lógað árið 1988, eins og raunar öllu fé á svæðinu austan Lagarfljóts, og meiri áhersla þá lögð á mjólkurframleiðslu.

Breiðavað var um árabil verknámsbýli, fyrst fyrir Bændaskólann á Hólum og síðar var tekið á móti verknemum frá Bændaskólanum á Hvanneyri. Breiðavað var einnig frá árinu 1990 með samning við Héraðs- og Austurlandsskóga um skóg- og skjólbeltarækt.

Rúmlega sextíu kýr eru í lausagöngufjósi á Breiðavaði og stendur til að stækka rýmið. 380 þúsund lítra mjólkurkvóti er á búinu.

Snuprur fyrir kúabúskap

Fremur fá kúabú eru á Fljótsdalshéraði og rekja þau ástæðuna m.a. til þess að kaupfélagið hafi á sínum tíma ekki stutt við bakið á bændum.

Á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar hafi búskapurinn á Héraði verið gríðarlega erfiður. Í Eyjafirði, þaðan sem Jón Elvar er ættaður, hafi KEA t.d. fjármagnað uppbyggingu með bændum, sem sumir þeirra búi að enn þá. Þegar byggt var upp á Breiðavaði 1981 hafi allir verið að fara í refarækt og Breiðavaðsbændur verið snupraðir fyrir að ætla í kúabúskap á sama tíma og bullandi uppgangur væri í refa- og minkarækt. Þar hafi peningarnir flætt inn. Ef fjármagn hefði þá fengist til að byggja upp hinar hefðbundnu greinar stæðu menn betur. „Enda sést það svolítið á Héraði, það eru minkahús víða sem geyma bara hjólhýsi núna,“ bætir Jón Elvar við.

Vantar stuðning sveitarfélagsins

Jón Elvar segir að það vanti fólk á Austurland. „Sveitarfélagið þarf að standa miklu betur að baki dreifbýlinu heldur en raun ber vitni. Til dæmis þarf að styðja fólk og efla til að taka við búum. Kynslóðaskiptin eru mikilvæg en hér fækkar og fækkar því svo fáir hafa tök á að taka við búunum.“

Það séu ekki alltaf peningarnir sem máli skipti, heldur einfaldlega að standa á bak við fólk og sýna jákvæðni í orði og á borði gagnvart búgreinum. Jón Elvar tekur dæmi úr Eyjafjarðarsveit, sem sé landbúnaðarhérað alveg í gegn. „Þar heyrir maður að sveitarfélagið er að berjast fyrir landbúnaðinum, eins og til dæmis varðandi málaferlin tengd nýja svínabúinu,“ segir hann. Tala þurfi upp búskapinn og vera með í samtalinu, það skipti heilmiklu máli og skorti á það í Múlaþingi. Dreifbýlið vilji gleymast.

Einn Breiðavaðskálfa ornar sér undir hitalampa í kuldatíð.
Spennt fyrir grænmetisrækt

Breiðavað stendur skammt frá bökkum Lagarfljóts. Jörðin er tæpir 400 ha, þar af er ræktað land um 100 ha og tæpir 50 ha undir skógrækt, einkum lerki og furu sem fer að verða grisjunarhæft. Þrjú íbúðarhús eru á Breiðavaði; eitt húsið fylgir búinu, Jóhann Gísli og Ólöf eru í gamla íbúðarhúsinu á sérlóð, og í þriðja húsinu býr bróðir Jóhanns Gísla. Því búa þarna þrjár fjölskyldur.

Ungu hjónin segja heilmikla möguleika vera á jörðinni. Gaman væri að fara út í einhverja grænmetisrækt og vera með fjölbreyttari búskap. Líklega þurfi þó einhverja fleiri á þann vagn til að slíkt myndi ganga.

Árið 2019 var boruð tilraunahola rétt við bæinn til að fá neysluvatn, því miklir þurrkar voru það sumar og vatnsbólið þornaði upp. „Þá hittum við niður á 23 °C heitt vatn sem var raunar ekki neysluhæft og skilaði engu. Hitaveitan fór í kjölfarið af stað og er búin að vera að kanna svæðið við landamerkin að næstu jörð og það virðist gefa það góða raun að við gætum fengið heitt vatn í hitaveitu. Svo þurfum við bara að fylgjast með hvernig landbúnaður þróast og fylgja því eftir,“ segir Jón Elvar.

Byggja upp kornþurrkun

Þau hafa aðeins verið í kornrækt. „Við, nokkrir karlar í Búnaðarfélaginu, erum að reyna að koma upp kornþurrkun,“ heldur Jón Elvar áfram. „Ég veit nú ekki hvort það hefst fyrir haustið, en þetta er í vinnslu. Við erum búin að rækta korn hér frá árinu 2016, með ágætis árangri. Næsta skref, til að geta nýtt afurðina betur, er að fara í kornþurrkun. Þetta hefur aðallega verið notað í nautin en ef við náum að þurrka kornið þá getum við notað það fyrir kýrnar með auðveldari hætti,“ segir hann. Korn var ræktað á Breiðavaði á fimmta áratug síðustu aldar eða uns brustu á mikil kalár. Þá var kornþurrkun á Egilsstöðum.

Mæðgurnar fást líka aðeins við hrossarækt, segja það til gamans gert og nokkrir reiðhestanna séu ágætir. Þau sækja ekki vinnu út fyrir býlið en Jón Elvar hjálpar stundum til við löndun á uppsjávarfiski á Norðfirði og Seyðisfirði.

Þau segjast einbeita sér að sinni framleiðslu og að halda skepnunum heilbrigðum og mjólkinni góðri.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt