Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Leikið í laufum. „Ósjálfrátt gerist eitthvert undur í huga okkar og hjarta, hjartslátturinn verður hægari, blóðþrýstingur verður jafnari og við leitum inn á við, hlustum betur á innsæið okkar og tilfinningar,“ segir Sigrún Magnúsdóttir.
Leikið í laufum. „Ósjálfrátt gerist eitthvert undur í huga okkar og hjarta, hjartslátturinn verður hægari, blóðþrýstingur verður jafnari og við leitum inn á við, hlustum betur á innsæið okkar og tilfinningar,“ segir Sigrún Magnúsdóttir.
Mynd / Aðsendar
Viðtal 17. október 2024

Trén lyfta anda manneskjunnar

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Leitið og þér munuð finna er heiti verkefnis Sigrúnar Magnúsdóttur sem hún vann við Hallormsstaðaskóla og sýndi í Hallormsstaðarskógi fyrr á árinu.

Markmið Sigrúnar var að kanna hvernig fólki liði innan um tré og gróður og hver áhrifin væru á líkamlega og andlega heilsu.

Nútímamaðurinn ver minni tíma úti við heldur en forfeður okkar gerðu, því eru tengsl okkar við náttúruna að dvína. En á sama tíma hefur kannski aldrei verið meiri þörf fyrir náttúrutengingu en áður og hefur rannsóknum sem benda á ávinning þess og mikilvægi að verja tíma í náttúrunni fleygt fram.
Sigrún Magnúsdóttir

„Ástæða þess að ég valdi að skrifa ritgerð um tré og gróður eru hrein og bein áhrif sem ég varð fyrir þegar ég kom fyrst á Hallormsstað til að hefja nám í Hallormsstaðaskóla,“ segir Sigrún. „Skógurinn skartaði sínum fallegu haustlitum í öllum regnbogans litum. Ég fann það strax að ég myndi vilja kynnast þessu gróðursæla umhverfi betur og finna áhrifin innan um trén. Ég er sjálf mikið náttúrubarn og líður alltaf best innan um tré og gróður frá því ég man eftir mér,“ segir hún um tilurð verkefnisins.

Hún vildi fá fólk til að skoða þann möguleika að gera einfalda hluti til að stuðla að betri líðan og heilsu, eins og t.a.m. að fara í göngutúr í skógi, faðma tré og staldra við og leita eftir hughrifum frá gróðrinum í kring.

„Ósjálfrátt gerist eitthvert undur í huga okkar og hjarta, hjartslátturinn verður hægari, blóðþrýstingur verður jafnari og við leitum inn á við, hlustum betur á innsæið okkar og tilfinningar,“ útskýrir Sigrún og bætir við að öll séum við mismunandi eins og við séum mörg og upplifum alls konar áhrif úti í náttúrunni. „Í þessu fallega lífsformi eins og við mennirnir erum hver á sinn hátt. Ég finn líka fyrir auðmýkt í hjarta mínu fyrir lífi náttúrunnar og fullkomleika hennar,“ segir hún.

Tré draga fólk að sér

Sigrún tók viðtöl við 22 ólíka einstaklinga sem svöruðu spurningalista hennar um viðfangsefnið.

Einn svarenda, sem hefur búið í skógi í 47 ár, sagði að í skógi liði sér betur en í öðrum vistkerfum. Þar væru ekki eingöngu tré heldur einnig fuglar, skordýr, sveppir og ótal plöntutegundir svo eitthvað væri nefnt. Trén ynnu saman og töluðu saman neðanjarðar.

Annar talaði um að upplifa frið í skóginum og jafnvel upplifa að verða að trénu, tré drægju viðkomandi að sér. Minnst var á ýmsar trjátegundir í svörunum en einum viðmælenda sagðist sem svo: „Birkiætt vex víða um norðurhvel jarðar, er hægvaxta, ljóselskt, vind- og frostþolið eins og við Íslendingar urðum að vera til að lifa af hér áður fyrr. Ætli þessi tegund sé ekki í svona miklu uppáhaldi hjá mér þar sem hún líkist okkar uppruna og hefur fylgt okkur frá því við námum Ísland. Birkiafurðir eru heilnæmar fyrir mannslíkamann, að vera úti í birkiskógi gefur manni orku, að drekka birkisafa gefur manni orku. Birkitréð er mögnuð lífvera.“

Hallormsstaðaskóli í haustfegurð skógarins.
Styrkur, stöðugleiki og sveigjanleiki

Talað var um trén sem efnivið til smíða, sem hitagjafa og skjól. Þau gefi frá sér holl efnasambönd, gefi verndandi tilfinningu, mildi veður og ilmurinn og litir þeirra séu heilnæmir, auk þess sem unun sé að heyra vindinn þjóta um krónur trjánna. Þau merki styrk og stöðugleika, en ekki síður sveigjanleika.

„Mér líður yfirleitt vel í skógi og við tré,“ svaraði annar og sagðist títt sækja þangað styrk og ró. „Tré þykja mér afar merkilegar lífverur, m.a. vegna stærðar og aldurs margra þeirra, og mikilvægis fyrir lífið á jörðinni og ekki síst vegna fegurðar þeirra.“

Á jörðinni vaxa um þrjár billjónir trjáa, eða um 422 tré á hvern einstakling, segir í verkefninu. Samanlagt sé þetta verulegt magn laufblaða sem sannarlega hafi áhrif á líf okkar, bæði hvað varðar loftgæði og tónlist. Án laufblaða verði trén hljóðlát. Brotni þau vaxi þau yfirleitt aftur, ef til vill bara í aðra átt. Þau teygi sig til sólar og blómstri og visni á víxl. Maðurinn upplifi ró og frið í skógum.

Nokkrir sögðust finna fyrir nærveru krafta og vera sem jafnan væru ósýnileg mannsauganu, svo sem ljósálfa, álfadísa og blómálfa.

„Tré fyrir mér er eitthvað stabílt en sveigjanlegt. Eitthvað sem þolir mikla mótstöðu og hreyfist með vindinum. Tré er merki lífs og þroska en fyrst og fremst þolinmæði í gegnum erfiða, kalda tíma,“ hljóðaði eitt svaranna. Annar viðmælandi minnti á að trén veittu endalausan innblástur í myndir, smásögur og ljóð, auk tónlistar. Þá var skógurinn sagður kjörinn staður til að hugsa og velta öllum mögulegum
hlutum fyrir sér.

„Ég elska skógargöngustíga, ég baða mig í orku trjánna. Japanir kalla það skógarbað. Það er mikil heilun að ganga um fallegan furulund um leið og það heilar þig og alla þína veru. Að anda að sér súrefni og tíðni trésins er dásamlegt að upplifa, það er alltaf til staðar að njóta gjafa frá trjám. Þetta er ein besta orkuhleðsla sem ég nýti ef þörfin kallar á að endurnærast,“ var enn eitt svarið.

Tónverk um Hallormsstaðarskóg

Eitt svarið vakti sérstaka athygli en sá viðmælandi sagðist einfaldlega ekki verða fyrir nokkrum einustu áhrifum af trjám og var það eina svarið af því tagi. Annar minnti á að þrátt fyrir að skógar væru oft friðsælir og hrífandi gætu þeir einnig verið ógnandi svæði, t.d. í myrkri, þau gætu verið hættuleg í óveðrum og erlendis væri víða ýmsum dýrum, eins og björnum og úlfum, að mæta í skógum. Tónlistarmaður nokkur, sem var einn svarenda, kvaðst nýlega hafa samið tónverk skv. pöntun, um Hallormsstaðarskóg og íslensku skógana almennt. Er verkið samið fyrir einleiksfiðlu.

Uppáhaldstré voru, auk birkis, sögð vera t.d. hengibjörk, askur, heggur, furur, þ.á m. lindifura, fjallaþinur, beyki, blóðheggur, síberíulerki, kirsuberjatré, reyniviður, þ.á m. ilmreynir, íslenski einirinn og blæösp.

Skylt efni: Skógar

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt