Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Fréttir 26. janúar 2017
Viktor Örn náði þriðja sæti í matreiðslukeppni þeirra fremstu
Höfundur: smh
Viktor Örn Andrésson og teymi hans náði þriðja sæti á Bocuse d'Or keppni matreiðslumeistara sem haldin var í Lyon í Frakklandi dagana 24.-25. janúar. Þar með náði Viktor markmiði sínu, en hann stefndi á eitt af þremur efstu sætunum.
Frá því að Ísland tók fyrst þátt árið 1999 hefur íslensku þátttakendurnir alltaf verið meðal tíu efstu, en einu sinni áður hefur náðst jafngóður árangur, en það var árið 2001 þegar Hákon Már Örvarsson fékk bronsið.
Viktor Örn lenti í Frakklandi á fimmtudaginn síðastliðinn ásamt teymi sínu, með eitt og hálft tonn í farteskinu af útbúnaði og hráefni frá Íslandi og náði Bændablaðið stuttu viðtali við hann rétt fyrir keppnina.
Hann tryggði sér þátttöku í þessari lokakeppni með góðri frammistöðu í Evrópuforkeppni Bocuse d‘Or sem var haldin í maí – en þá náði hann 5. sæti og fékk fiskréttur hans gullverðlaun. Hann var útnefndur matreiðslumaður Norðurlanda árið 2014.
Vegan-forréttur
Það vekur athygli að forrétturinn sem allir keppendur verða að skila er svokallaður vegan-réttur – sem er að öllu leyti án dýraafurða. Viktor sagði slíka matreiðsla leggjast vel í sig. „Við tökum mikið með okkur út af hráefni, en við megum aðeins taka tvö hráefni með okkur heiman frá fyrir forréttinn – annars verðum við að kaupa allt í hann hérna úti á markaðnum degi fyrir keppni. Við höfðum íslenska gúrku og piparrót með okkur fyrir þennan vegan-forrétt. Það fer vel á því að fara með íslenska agúrku þar sem hún er eitt af því fáa sem við erum alveg sjálfbær með á Íslandi allt árið og svo er piparrótin mjög norræn. Ég hef alveg prófað vegan-eldamennsku á þeim veitingastöðum sem ég hef unnið á og í veiðihúsum þar sem ég hef eldað. Það eru alltaf fleiri og fleiri sem biðja um þetta. Þetta er bara skemmtileg tilbreyting og opnar keppnina mikið.“
Bresse-kjúklingakynið
Skylduhráefni fyrir aðalréttinn er hið fræga Bresse-kjúklingakyn og skelfiskur. Keppendur þurfa að sameina þessi tvö hráefni ásamt meðlæti á fat fyrir 14 manns. Bresse-kjúklingurinn og skelfiskur var einmitt aðalhráefnið í fyrstu Bocuse d´Or keppninni árið 1987, en keppnin fagnar 30 ára afmæli í ár. „Við getum valið úr ýmsum tegundum skelfisks og ég valdi humartegundina langoustine eða leturhumar eins og hann heitir á íslensku. Sá sem ég er með er reyndar skoskur. Svo er ég líka með risahumar, eða blue lobster, sem þekktur er í Evrópu,“ segir Viktor.
Stefnt á efstu þrjú sætin
Æfingatímabilið hjá Viktori hefur verið langt og í raun nokkuð samfellt frá því í janúar í fyrra þegar æft var fyrir forkeppnina. „Þegar hún var afstaðin fórum við fljótlega að hugsa um aðalkeppnina, en ætli megi ekki segja að sá undirbúningur hafi farið á fullt í september. Þá erum við að tala um sex daga vinnuviku eingöngu í þessu. Þetta eru sömu dómarar mikið til og dæmdu í forkeppninni og maður verður að reyna að heilla þá með nýrri nálgun.
Það er alltaf pressa á íslenskum keppendum í þessari keppni enda hefur gengið verið gott frá því að Sturla Birgisson, fyrsti íslenski keppandinn, tók þátt í henni árið 1999. Hann náði þá fimmta sæti og síðan hafa íslensku þátttakendurnir alltaf náð inn á topp tíu. „Maður verður í versta falli að ná þangað,“ segir Viktor spurður um væntingarnar. „Markmiðið er þó mun hærra en það. Fyrir forkeppnina vildum við vera meðal fimm efstu en reyna svo að komast í þrjú efstu sætin í aðalkeppninni. Þetta er háleitt markmið en við teljum þau alls ekki óraunhæf.“
Í teymi Viktors voru matreiðslumeistarar frá Grillinu á Hótel Sögu; Hinrik Örn Lárusson, aðstoðarmaður Viktors, og Sigurður Helgason, þjálfari og fyrrv. keppandi í Bocuse d‘Or. Þá er Sturla Birgisson dómari í keppninni og teyminu til aðstoðar, auk þeirra Sölva Más Davíðssonar, Rúnars Pierre Heriveaux og Michaels Péturssonar.
Viktor tók síðustu æfinguna sína fyrir keppnina föstudaginn 13. janúar fyrir opnum tjöldum, í sérútbúnu æfingaeldhúsi í Fastus, Síðumúla 16. Meðfylgjandi mynd eru frá henni.