Vilja flýta innviðauppbyggingu
Lélegir samgöngu- og orkuinnviðir hamla verðmætasköpun, vexti og velsæld Vestfjarða að sögn Guðmundar Fertram Sigurjónssonar, stofnanda og forstjóra Kerecis.
Hann er talsmaður nýstofnaðs Innviðafélags Vestfjarða sem ætlar að leggja sitt af mörkum við að flýta uppbyggingu á svæðinu.
Félagið undirritaði á dögunum samstarfssamning við Bláma nýsköpunarfélag um greiningu og ráðgjöf tengda því að flýta uppbyggingu og fjármögnun samgönguinnviða á Vestfjörðum.
Að baki Innviðafélagi Vestfjarða standa kraftmikil fyrirtæki á Vestfjörðum að því er fram kemur í fréttatilkynningu.
Þar kemur fram að velta atvinnulífs á Vestfjörðum hafi þrefaldast á árunum 2016–2023. Haft er eftir Guðmundi Fertram að sóknarhugur sé í Vestfirðingum.
„Efnahagsævintýri Vestfjarða er raunverulegt og sá vöxtur nýtist þjóðarbúinu. Hins vegar kallar áframhaldandi verðmætasköpun og vöxtur á stóraukinn kraft í uppbyggingu samgönguinnviða fjórðungsins. Við trúum því að öflugir innviðir séu forsenda sterkra samfélaga. Finna verður leiðir til fjármögnunar samgönguinnviða Vestfjarða og greiða niður háa innviðaskuld fjórðungsins.
Lélegir samgöngu- og orkuinnviðir hamla áframhaldandi verðmætasköpun, vexti og velsæld Vestfjarða. Það kallar á samstarf atvinnulífs, íbúa og hins opinbera.“