Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Vinna keratín í snyrtivörur úr hornum og klaufum sauðfjár
Mynd / HKr.
Fréttir 27. maí 2020

Vinna keratín í snyrtivörur úr hornum og klaufum sauðfjár

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Unnið er að stofnun fyrirtækis með það að markmiði að vinna keratín úr hornum og klaufum sauðfjár og nýta það í framleiðslu á snyrtivörum. Þegar er komið nafn á fyrirtækið sem kemur til með að heita Ovis Cosmetics.
 
Að þessu koma fimm einstaklingar sem stundað hafa nám við Háskólann í Reykjavík (HR), þau Einar Baldvin Gunnarsson, Fannar Leó Örvarsson, Hildigunnur Hauksdóttir, Magnea Björg Friðjónsdóttir og Valur Hólm Sigurðarson.  Er verkefnið sprottið upp úr áfanga í HR sem heitir Nýsköpun og stofnun fyrirtækja. 
 
Ætlunin að vinna keratín úr hornum og klaufum
 
„Hugmyndin er að nýta betur þau dýr sem slátrað er á hverju ári. Við erum í sambandi við sláturhús sem hafa sýnt þessu mikinn áhuga enda mögulega sparað þeim fjármuni, bæði með minnkun förgunar og með bættri nýtingu afurða sem kemur vonandi bændum líka til góða. Hugmyndin rímar einnig vel við þær áherslur sem háskólinn hefur tileinkað sér síðustu ár með áherslu á sjálfbærni og nýtingu auðlinda,“ segir talsmaður hópsins, Valur Hólm Sigurðarson.
 
Hugmyndin kviknaði á Gautlöndum í Mývatnssveit
 
Hann er með góða tengingu við sveitina og er uppalinn á Gautlöndum í Mývatnssveit. Sagði hann hugmyndina upphaflega hafa kviknað í samræðum við föður sinn, Sigurð Böðvarsson, um hvernig hægt væri að nýta betur horn og annað sem til fellur í sauðfjárrækt. 
 
„Síðan hefur hugmyndin þróast mjög mikið og við höfum öll fimm unnið náið saman að þessu. 
Algengast er að vinna keratín úr ull en okkar plön lúta að því að vinna það úr hornum og klaufum á sauðfé. Það er ódýrara að því leyti að hráefnið sjálft kostar okkur lítið sem ekkert þar sem hornin og klaufarnar hafa verið lítið nýtt til verðmætasköpunar hér á landi.
 
Við erum búin að heyra í nokkrum sláturhúsum varðandi mögu­leg kaup á hráefnum og fengum að heyra að þau væru bara ánægð að losna við þetta, þar sem urðunargjaldið er mjög hátt. Sum sláturhús sögðust vera að selja hornin, önnur voru jafnvel til í að gefa þau frá sér. Öll sláturhús sem við höfum haft samband við sögðust senda klaufarnar til urðunar. Þau sögðu okkur einnig að við þyrftum að rannsaka það vel hvernig sé best að ná klaufunum af löppunum. Við erum að vega og meta nokkrar aðferðir til þess, en eigum enn eftir að rannsaka það til fulls.“
 
Nýta þekktar vinnsluaðferðir
 
„Við erum svo einnig búin að vera í sambandi við efnafræðing sem segir að horn séu heppileg til vinnslu keratíns, enda er vinnslan mjög keimlík þeim aðferðum sem nýttar eru nú þegar við að vinna keratín úr öðru hráefni. Við höfum aðeins skoðað vélar til þess að vinna það. Verðið á þeim er aðeins mismunandi en er að jafnaði um 4 milljónir, svo eru efnin sem þarf til vinnslunnar tiltölulega ódýr og aðgengileg. 
 
Við þurfum ekki að finna upp hjólið efnafræðilega, þar sem þetta ferli er vel þekkt og við þyrftum aðeins að aðlaga það að því að nýta horn og klaufar í stað t.d. ullar, fiðurs og annars hráefnis.“ 
 
Góður stuðningur frá skólanum
 
Fimmmenningarnir voru að leggja lokahönd á verkefnið og klára viðskiptaáætlun, fjárhagsáætlanir, framtíðarplön og frumgerð og vefsíðu í síðustu viku. Var það svo kynnt á föstudaginn og eru þau bjartsýn á að hægt verð að fjármagna slíkt nýsköpunarverkefni. Enda eru mikil tækifæri í nýtingu á keratíni.
 
Ekki er auðvelt að finna tölur um framleiðslu og sölu á keratíni á heimsmarkaði, enda halda snyrtivöruframleiðendur og aðrir sem það nýta spilunum þétt að sér varðandi miðlun upplýsinga. Eitt virðist þó víst að markaðurinn fyrir keratín fer ört vaxandi. 
 
Félagarnir segja að skólinn hafi stutt vel við bakið á þeim í þessu ferli.
 
„Þeim leist mjög vel á hugmynd­ina og eru búin að hjálpa okkur mikið,“ sagði Hildigunnur Hauksdóttir. Þá nefndi Einar Baldvin að yfirleiðbeinandinn væri Guðmundur Hafsteinsson, sem þekktur er fyrir vinnu sína við að koma Google Maps á markað. Ellen Ragnars Sverrisdóttur hafi líka liðsinnt þeim mikið, en hún vann m.a. hjá snyrtivöruframleiðandanum Bio Effect. 

Skylt efni: Ovis Cosmetics | keratín | horn | klaufir