Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Dr. Lance Price, prófessor og sérfræðingur í útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería og lýð­heilsu.
Dr. Lance Price, prófessor og sérfræðingur í útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería og lýð­heilsu.
Fréttir 1. mars 2019

„Ísland til fyrirmyndar í vörnum gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería“

Höfundur: Vilmundur Hansen

Afnám frystiskyldu á innfluttu kjöti er mikið áhyggjuefni, segir sérfræðingur í útbreiðslu sýkla­lyfjaónæmis og lýðheilsu. Hann segir stöðu Íslands til fyrirmyndar þegar kemur að vörnum gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería og að sérstaðan glatist verði frystiskyldan afnumin.

Dr. Lance Price, prófessor við George Washington-háskóla og skóla Milken-lýðheilsustofnunarinnar í Washington, hélt erindi á Hótel Sögu í síðustu viku þar sem fjallað var um lýðheilsu og hrein matvæli. Price er einnig stofnandi og stjórnarformaður samtaka sem kallast Antibiotic Resistance Action Center og sérhæfir sig í viðbrögðum við sýklalyfjaónæmi.

Hann segir að í kjölfar lofts­lagsbreytinga sé sýklalyfjaónæmi önnur mesta ógn mannkynsins í dag og að Ísland sé til fyrirmyndar í vörnum gegn útbreiðslu sýkla­lyfjaónæmra baktería.

Framsögumenn á fundinum Lýðheilsa og hrein matvæli ásamt dr. Price voru Karl G. Kristinsson, prófessor við Háskóla Íslands og yfirlæknir við sýklafræðideild Landsspítalans, og Herborg Svana Hjelm, forstöðukona Matartímans.

Sérstaða Íslands stórmerkileg

Í fyrirlestrinum talaði dr. Price um of- og misnotkun á sýklalyfjum í landbúnaði og áhrif þess á sýklalyfjaónæmi í fólki og lýðheilsu.

„Sérstaða Íslands þegar kemur að sýklalyfjaónæmi er stórmerkileg og gríðarlega áhugaverð. Sýkla­lyfjaónæmi í fólki á Íslandi er það lægsta sem þekkist í heiminum þrátt fyrir að notkun fólks á sýklalyfjum sé svipuð og í Evrópu.

Skyldi ástæða þess vera sú að loftið og vatnið á Íslandi er hreinna en víða annars staðar eða skyldi ástæðan vera sú að sýklalyfjanotkun í landbúnaði er mun minni á Íslandi en annars staðar í heiminum? Á Íslandi eru í gildi strangar reglur um notkun sýklalyfja í landbúnaði og þeim er framfylgt. Auk þess sem á Íslandi gilda strangar reglur um innflutning á kjöti frá öðrum löndum og inn­flutningnum fylgir frystiskylda.“

Price segir að þrátt fyrir að í Evrópusambandinu séu í gildi reglur um að bannað sé að nota sýklalyf sem vaxtarörvandi í landbúnaði sé farið í kringum þær reglur á ýmsan hátt, til dæmis með því að segja að notkun sé til að fyrirbyggja sýkingar.

Mín skoðun er sú að það geti verið fleiri ástæður þess að sýklalyfjaónæmi er lágt á Íslandi en þær helstu eru að reglur um lyfjanotkun í landbúnaði eru strangar og að til landsins má ekki flytja inn ferskt ófrosið kjöt.“

Frystiskyldan mikilvæg

„Allir sem skoðað hafa útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería vita að þær geta hæglega breiðst út með kjöti og það að frysta kjötið dregur úr útbreiðslu þeirra og að þær berist til landsins.“

Í samtali við Bændablaðið lýsti Price furðu sinni á að landbúnaðarráðherra ætli að leggja fyrir Alþingi tillögu um að leyfa skuli innflutning á hráu ófrosnu kjöti, ferskum eggjum og ógerilsneyddri mjólkurvörur til landsins.

„Satt best að segja veldur þetta mér furðu og áhyggjum og ég tel öruggt að sýklalyfjaónæmi í landinu eigi eftir að aukast verði innflutningur á ófrystu kjöti leyfður. Hvað sem öllu eftirliti varðar þá er slíkt eftirlit yfirleitt handahófskennd sýnataka og aðeins lítill hluti kjötsins sem fluttur er inn skoðaður.

Einnig skiptir máli hvaðan kjötið er flutt inn og í hvaða landi það er framleitt. Kjöt sem er flutt milli landa er oft framleitt í einu landi, pakkað í öðru og flutt til þess þriðja. Þannig að ef vel á að standa að eftirlitinu verður að taka sýni úr kjötinu á öllum stigum framleiðslunnar og bæði í uppruna- og pökkunarlandinu.

Þegar kemur að notkun á sýklalyfjum í landbúnaði er ástandið í löndum Evrópusambandsins víða slæmt og það er verst í Suður-Evrópu og ef við lítum til landa eins og Brasilíu, Suður-Afríku, Indlands og Kína, sem flytur mikið út af kjöti, þá er sýklalyfjaónæmi mjög mikið.“

Kampýlóbakter-sýking lág á Íslandi

Price segir að frystiskylda á kjöti dragi mest úr hættunni á kampýlóbakter-sýkingum og ef litið sé til sýkinga af völdum kampýlóbakter á Íslandi og annars staðar í heiminum þá sé hún mjög lág á Íslandi og öfundsverð.

Þegar Price er spurður hvort ekki sé hætta á að fólk beri með sér sýklalyfjaónæmar bakteríur til landsins segir hann að það geti auðvitað gerst. „Möguleikinn er alltaf til staðar en ef litið er til fjölda ferðamanna sem hafa komið til Íslands undanfarin ár virðast líkurnar ekki vera miklar. Ég hef skoðað þetta og samkvæmt mínum upplýsingum ferðast Íslendingar mikið og gríðarlegur fjöldi ferðamanna sem heimsækir landið miðað við mannfjölda.

Auðvitað getur fólk á ferða­lagi sýkst og borið með sér sýkla­lyfjaónæmar bakteríur en það virðist ekki hafa valdið auknu hlutfalli sýkinga á Íslandi.

Munurinn á mögulegri sýkingu úr kjöti eða frá fólki er talsverður. Kjöt er handleikið og við borðum það þannig að bakteríur í kjöti geta borist í meltingarfærin og valdið sýkingu. Fólk á ferðalagi borðar oft á veitingahúsum og er sjaldnast að meðhöndla hrátt kjöt og borðar það eldað. Líkamleg snerting við ferðamenn er einnig í flestum tilfellum takmörkuð og hreinlætisaðstaða er góð og það dregur verulega úr sýkingarhættu. Ég tel líka sjaldgæft að bakteríur í þörmum manna berist þeirra á milli með snertingu.

Kjöt er aftur á móti handleikið og geymt með öðru kjöti í kjötborðum. Bakteríur, hvort sem þær eru sýklalyfjaónæmar eða ekki, geta því hæglega borist manna á milli eftir að fólk hefur komið við kjöt eða þá milli kjötbita í kjötborðum verslana.“

Ekkert land í heimi í sömu stöðu

Price segir að annað sem verði að líta til í sambandi við innflutning á kjöti og ekki síst hráu kjöti sé heilsufarsstaða búfjár í landinu.

„Ég hef ekki fengið tækifæri til að heimsækja íslenskan bóndabæ en mér skilst að það sé mjög lítið um sjúkdóma í íslensku búfé þrátt fyrir litla notkun á sýklalyfjum í landbúnaði og ef til vill er lítið um sýkingar einmitt vegna þess.

Ekkert land í heimi er í sömu stöðu. Mér skilst að á Íslandi séu ekki stór verksmiðjubú eins og ég þekki vel frá Bandaríkjunum og annars staðar í heiminum og í Evrópusambandinu. Reynslan sýnir að búfé sem er alið við aðstæður verksmiðjubúa þarf meira á sýklalyfjum að halda en ef það er alið á minni býlum.

Þrengsli verksmiðjubúanna eru mikil og snerting dýranna einnig og smithætta mikil. Þegar dýrin eru síðan orðin veik er hægt að komast framhjá reglugerðum Evrópusambandsins um notkun sýklalyfja og samhliða því að gefa lyf í lækningaskyni og nota þau sem vaxtarörvandi.“

Bakteríur í grænmeti

„Ekki má gleyma því að sýkla­lyfjaónæmar bakteríur geta einnig borist í fólk með ávöxtum og grænmeti, ekki síst þar sem er notaður búfjáráburður við ræktunina. Yfirleitt er búfjáráburði safnað í nokkra mánuði og síðan dreift yfir akra án þess að vera meðhöndlaður á nokkurn hátt. Þannig að ef bakt­eríurnar berast með búfjáráburði í plönturnar geta þær smitast í menn. Það er því nauðsynlegt að þvo hrátt grænmeti vel áður en þess er neytt,“ segir dr. Lance Price, prófessor og sérfræðingur í útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería og lýð­heilsu, að lokum.

Kúrsinn tekinn til framtíðar
Fréttir 20. janúar 2025

Kúrsinn tekinn til framtíðar

Þingeyjarsveit hefur samþykkt nýja heildarstefnu fyrir sveitarfélagið fram til á...

Skógareldar vaxandi vá
Fréttir 20. janúar 2025

Skógareldar vaxandi vá

Norðurlöndin skoða nú í sameiningu vaxandi hættu á víðtækum skógareldum.

Auka við atvinnuhúsnæði
Fréttir 17. janúar 2025

Auka við atvinnuhúsnæði

Sveitarfélagið Dalabyggð og Byggðastofnun hafa gert með sér viljayfirlýsingu um ...

Stóra viðfangsefnið að styðja við unga bændur
Fréttir 17. janúar 2025

Stóra viðfangsefnið að styðja við unga bændur

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra nýrrar ríkisstjórnar, segir br...

Nýr hagfræðingur til Bændasamtakanna
Fréttir 16. janúar 2025

Nýr hagfræðingur til Bændasamtakanna

Harpa Ólafsdóttir hefur verið ráðin sem hagfræðingur Bændasamtaka Íslands og hóf...

Um hundrað stóð í blóðtöku árið 2024
Fréttir 16. janúar 2025

Um hundrað stóð í blóðtöku árið 2024

Meira blóði var safnað á árinu 2024 en á árinu áður. Fjöldi blóðtökuhryssna var ...

Fjögur áherslumál í landbúnaði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar
Fréttir 15. janúar 2025

Fjögur áherslumál í landbúnaði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar

Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar, sem gefin var út 21. desember, eru fjö...

Undanþágan beint til Hæstaréttar
Fréttir 15. janúar 2025

Undanþágan beint til Hæstaréttar

Hæstiréttur samþykkti að taka fyrir mál Samkeppniseftirlitsins og Innnes ehf. án...