„Við vöxum ekki með því að vera alltaf að fækka og fjölga“
Sjötti þáttur „Spjallað við bændur“ er kominn í loftið. Að þessu sinni eru sauðfjárbændurnir í Háholti í Gnúpverjahreppi sóttir heim, þau Bryndís Eva Óskarsdóttir og Bjarni Másson. Þau byrjuðu smátt með um 200 fjár en árið 2008 breyttu þau gömlum svínahúsum í fjárhús og juku við bústofninn. Árið 2012 tóku þau hlöðuna undir sauðfé og eru nú með rúmlega 400 fjár á fóðrum. Auk sauðfjárræktarinnar reka þau Bryndís Eva og Bjarni verktakafyrirtækið „Búið og gert ehf.“ sem vinnur öll möguleg verkefni fyrir bændur í sveitinni og aðra aðila.
Bjarni bóndi segir það mikilvægt að sauðfjárræktin búi við stöðugleika svo hægt sé að halda þeirri framleiðslu sem er í dag. „Þannig getum við vaxið sem atvinnugrein, við vöxum ekki með því að vera alltaf að fækka og fjölga. Við þurfum að koma kjötinu inn á góða markaði og leggjast á eitt um það, hvort sem við heitum sláturleyfishafar, bændur eða erum í störfum fyrir Markaðsráð kindakjöts eða Landssamtök sauðfjárbænda. Það vil ég meina að sé okkar stóra verkefni í dag.“
Þættirnir „Spjallað við bændur“ eru unnir af kvikmyndafyrirtækinu Beit fyrir Bændablaðið. Þeir eru aðgengilegir á vefsíðu Bændablaðsins, bbl.is, og einnig eru þeir sýndir á sjónvarpsstöðinni ÍNN.
Horfa á þáttinn