Litríkt og lokkandi
Svo virðist sem litagleðin allsráðandi í tískuheiminum, en meðal þess sem var á toppnum á tískuvikunni nýverið er bæði gult, bleikt, gull og loðið.
Nýyfirstaðin tískuvika hausts 2023 (fyrir þá sem vilja hafa vaðið fyrir neðan sig) bauð upp á ýmis skemmtilegheit en frá Milan sýndi m.a. Gucci skærbleika loðfeldi, silfurdress og aðra gleði.
Tískuvikan í London var að sama skapi skrautleg og kom sígilda merkið Burberry skemmtilega á óvart. Löngum þekkt fyrir klassíska jarðartóna skörtuðu nú módel þess skærum bleikum, gulum og bláum litum enda hafði hönnuður línunnar, Daníel Lee, bæði farið offari í litatryllingi auk þess að hafa blásið upp hið köflótta staðalmynstur Burberry. Útkoman kom þó skemmtilega á óvart og ekki annað hægt að segja en litadýrðin sem nú tröllríður merkinu muni ekki fara framhjá neinum. Daníel Lee hefur áður hrist upp í hlutunum á svipaðan hátt, en einhverjir muna e.t.v. eftir tvisti hans á hönnun undir merkjum Bottega Veneta fyrir nokkrum árum. Bottega Veneta er vel þekkt, m.a. fyrir staðalhönnun sína á töskum, þar sem efnið er fléttað saman. Með það í huga útfærði Daníel fatnað þar sem fléttað mynstrið lék stærstan þátt í því sem gladdi augað. Hann leikur nú sama leik undir merkjum Burberry og er útkoman afar áhugaverð.
Hafa fleiri tískuveldi tekið þá ákvörðun að litadýrðin verði allsráðandi í haustlínum sínum og áhugavert að leita þar fanga. Að minnsta kosti geta þeir sem langþreyttir eru orðnir á drapplitum tónum, sem oft ráða ríkjum á þeim tíma árs, sett upp sparibrosið og látið sig hlakka til haustsins.
Í bland við litadýrðina er gull áberandi og hafa gullstígvél skotið upp kollinum vítt og breitt um lendur tískunnar nýverið. Það er því enginn maður með mönnum nema að verða sér úti um a.m.k. eitt slíkt par svona fyrir haustið, en gylltir fylgihlutir eru einnig, eða verða, hæstmóðins er nær dregur hausti. Nú er bara um að gera að fara að leita sér fanga fyrir þessa skemmtilegu árstíð sem fram undan er – grafa upp gyllta fylgi hluti og pússa gyllta skartið.
Athuga svo hvort einhvers staðar leynist ekki litríkir gervipelsar sem má bursta rykið af.
Annars fyrir þá sem hata liti þá má alltaf grípa í svart. Góðar stundir.