Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
... og kýrnar leika við hvurn sinn fingur
Á faglegum nótum 22. júní 2016

... og kýrnar leika við hvurn sinn fingur

Höfundur: Katrín Andrésdóttir, f.v. héraðsdýralæknir.
Nú eru bændur landsins sem óðast að leysa út nautgripi sína. Almenningur gleðst yfir að sjá kýrnar á beit og ferðamenn dást að litafjölbreytninni.
 
Mikilvægust er samt útbeitin og útivistin fyrir heilbrigði  og velferð gripanna.
  • Dagleg hreyfing eykur súrefnisupptöku – meiri virkni vöðva eykur blóðflæðið.
  • Sogæðakerfið örvast – varnarkerfi líkamans gegn smiti og sýkingum.
  • Minni líkur á súrdoða, föstum hildum og júgurbólgu.
  • Hreyfing hefur jákvæð áhrif á liði og eykur næringu liðbrjósks.
  • Fætur og klaufir kúa á útbeit eru heilbrigðari en þeirra sem inni standa, gróið land fer mun betur með lappirnar en harður flór og mykja í flórum.
  • Kýr sem hreyfa sig meira hika síður við að leggjast.
  • Tíðni spenastiga er umtalsvert lægri.
  • Mun færri kýr fá burðarlömun (þ.e. liggja lengi í doða/slíta lærvöðva)
  • Hegðunarfrávik sjást nánast ekki hjá nautgripum á beit.
  • Frumutala hækkar fyrstu dagana á beit hjá kúm með frumutölu >125  en lækkar síðan.
  • Beit hefur jákvæð áhrif á mjólkurgæði og efnasamsetningu mjólkur.
  • Mjólkurkýr ættu að vera úti í u.þ.b. 6 tíma á dag í 8–16 vikur. 
  • Kálfar yngri en fimm mánaða ættu ekki að vera úti nema með viðbótarfóðrun og tryggja verður gott skjól. 
  • Þroskaðar kvígur og geldneyti í góðum holdum geta gengið úti allt árið ef aðbúnaður og fóðrun er í lagi. 
Forðast verður sveiflur í fóðrun og tryggja aðgengi að hreinu drykkjarvatni og steinefnum. Auðvelt er að lengja útbeitartímabilið hjá kvígum með viðbótargjöf. 
 
Hvenær líður gripum illa úti?
 
Í mikilli rigningu/roki, í mikilli sólarsterkju og þegar bitvargurinn flýgur líður gripunum illa og þeir verða að geta leitað skjóls. Góð skjólbelti hlífa gripum vel. Best er að mjólkurkýr hafi frjálsan aðgang að fjósinu.  
 
Hvað segja Danir?
 
Skýrsla danska dýrasiðfræðiráðsins (Dyreetisk Råd) feb. 2006:
Ráðið telur útbeit mjólkurkúa hafa jákvæð áhrif á heilbrigði og frjósemi. Sömuleiðis minnki árásargirni, lægra settar kýr eigi auðveldara með að forðast þær hærra settu og kýrnar fái tækifæri til eðlilegrar félagslegrar hegðunar. Kýrnar hreyfa sig meira, eiga auðveldara með að leggjast og standa upp og hvíldaratferli er ótruflað. Hreyfingin eykur einnig þol og heilbrigði kúnna. 
 
Niðurstaða ráðsins er sú að útbeit sé eðlileg leið til að tryggja velferð mjólkurkúa og að almennt eigi allar kýr að fá möguleika til beitar. 
 
Undirmálskýr
 
Danir skilgreina haltar, laskaðar og vesælar kýr sem „loser cows“ eða undirmálskýr. (Taberko - malkeko der trives dårligt og derfor er nederst i hierarkiet) „Winner cow“/ hraust kýr mjólkar meira, þarf minni umönnun og lifir lengur. Misjafnt er eftir hjörðum hve undirmáls­kýrnar eru margar. Í hjörðum þar sem hraustu kýrnar eru hlutfallslega flestar er kálfadauði minni og frumutalan lægri. Velferð kúa í hjörðum með margar undirmálskýr er augljóslega ábótavant, mikilvægt er að greina ástæðurnar og leiðir til úrbóta. 
Í hjörðum þar sem kúnum er beitt eru líkurnar á að kýr verði undirmáls­kýr 2,5 sinnum minni, mjúkt legusvæði (bás) og möguleikar á eðlilegu atferli minnka líkurnar enn meira. 
 
Mjaltaþjónar og útbeit
 
Almenn er mælt með ca 6 tíma útbeit á dag. Ekki má vera of langt milli fjóss og beitar (250–500 m), sé langt í beitina þurfa kýrnar lengri tíma til að læra að koma heim. Sé beitin nálægt fjósinu eru kýrnar sjálfstæðari, koma oftar inn til mjalta og dreifing mjalta verður jafnari. Þær eru líka lengur úti, koma oftar inn í stuttar heimsóknir og hafa rýmri tíma til að drekka.
 
Þegar líður á sumarið verða kýrnar sjálfstæðari og koma oftar inn einar eða í litlum hópum. 
Stjórnið gróffóðurgjöfinni inni (minni gjöf meðan kýrnar eru úti). Sé fóðurlínan rétt fyrir innan dyrnar getur myndast biðröð í dyrunum. Hafið brynninguna aðeins inni í upphafi beitartímabilsins.
 
Lokkið kýrnar inn, t.d. með þekktum hljóðum í fóðurvagni og kjarnfóðurbásum. Ef allar kýrnar eru reknar inn í einu verða þær að geta legið, drukkið og étið meðan þær bíða. Varist mikinn mun á birtu innandyra og úti, gott er að hafa bjart innan við fjósdyrnar því þá ganga gripirnir greiðar inn. Sækið kýrnar sem ekki koma sjálfar. 
 
Rétt staðsetning mjaltaþjóns í fjósi skiptir máli því mikilvægt er að umferðin um þjóninn og út á beit sé greið. Mjaltaþjónninn má ekki vera ásettur, leyfið t.d. lengri tíma milli mjalta. Munið að mjaltaþjónninn annar aðeins níu kúm á klukkutíma. Gelda má kýr í lítilli nyt.
 
Fjósið þarf að vera rétt staðsett við beitarsvæðin, kýrnar ættu að sjá hagann og hjörðina frá fjósinu. Góð beit freistar kúnna, stjórnið beitinni (t.d. randbeit). 
 
Kúagötur verða að vera góðar
 
Fjóshlað verður að vera vel úr garði gert svo hægt sé að halda því þrifalegu. Gott er að láta kýrnar hreyfa sig aðeins áður en þær fara út úr fjósinu, þær leggja þá frá sér og minni skítur verður á götunni. 
Skipuleggið kúagötur þannig að auðvelt sé að halda þeim þurrum og hreinum. Takmarkið umferð þungra vinnuvéla um kúagöturnar.
 
Gatan á að vera þétt og mjúk, burðarlagið stöðugt og leiða burt vatn. Kýr með skemmdar/ofvaxnar klaufir hægja á sér á hörðum vegi. Sé undirlagið mjög hart má ekki vera gróf möl ofan á, hætta er á mari og skemmdum á klaufum. 
 
Því lengra sem reka á kýrnar því breiðari verður gatan að vera, gatan á að vera eins bein og hægt er, forðist krappar beygur og blindgötur. Gætið vel að mynni götunnar við beitilandið svo ekki myndist þar for og bleyta, sömuleiðis gott rými svo lágt settar kýr hafi undanfæri. Girðið hæfilega nærri kúagötunni svo kýrnar leiti ekki út fyrir og traðki niður vegakantinn.
 
Gott er að hafa nokkur hlið inn í beitarhólfin og dreifa þannig álaginu, þá verða minni skemmdir á gróðri við hliðin. 
 
Nautgripir í beitarhólfum sem liggja að kúagötunni trufla reksturinn. Ekki ættu að vera drykkjarkör við götuna, einhverjir gripir stansa til að drekka. 
 
Kýr vilja helst ganga í halarófu, þær hæstsettu fremst og þær lægstsettu aftast. Takmarkað rými er algengasta orsök árásargirni, sé of mikið rekið eftir kúnum verða þær stressaðar og stimpingar verða í hópnum. Þetta getur leitt til meiðsla, sömuleiðis gæta kýrnar ekki nægilega hvar þær stíga og geta meiðst á klaufum. Sé hópurinn tregur í rekstri á að reka eftir háttsettu kúnum sem eru fremstar, að reka eftir öftustu kúnum getur leitt til streitu og árekstra því þær lægst settu lenda í klemmu milli rekstrarmannsins og háttsettu kúnna.
 
Beitin
 
Skipuleggja verður beitina þannig að hún sé góð og lystug. Ágætar upplýsingar er að finna á heimasíðu Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, www.rml.is, ráðunautar RML veita sömuleiðis góð ráð og leiðbeiningar.
 
Hafa ber í huga að ormasmit getur magnast upp á beitarlandi og háð þá sérstaklega ungviðinu. Ormalyfjagjöf í samráði við dýralækna skilar oft miklum árangri.
 
Lögin, reglugerðin og eftirlitið
 
Í 14. grein laga nr 55/214 um velferð dýra kemur fram að umráðamönnum dýra ber að tryggja grasbítum beit á grónu landi á sumrin. Í 17. gr. reglugerðar um velferð nautgripa er útbeitarkrafan svo útfærð nánar.
Grein þessi er að hluta til unnin upp úr fyrirlestri sem höfundur hélt fyrir fagráð í naugriparækt 2013.
 
Beitin og mjólkin
 
Rannsóknir sýna að mjólk úr kúm á beit inniheldur meira af CLA og Omega-3 fitusýrum. 
Auk þessa inniheldur mjólkin meira E-vítamín sem styrkir fitukúlurnar – minna um fríar fitusýrur (FFS).
 
Aukin hreyfing er heilsubót. Kýr á beit ganga oft 4-8 km/dag meðan kýr í góðum lausagöngufjósum ganga 400-800 metra.
 
1065/2014
Reglugerð um velferð nautgripa.
17. gr. Útivist.
 
Allir nautgripir, að undanskildum graðnautum, skulu komast á beit á grónu landi í átta vikur hið minnsta, á tímabilinu frá 15. maí til 15. október ár hvert. Aðgangur að útigerði uppfyllir ekki kröfu um útivist á grónu landi.
 
Gripir sem eru úti skulu geta leitað skjóls fyrir veðrum. Að vetri skal skjól þetta vera gripahús eða legusvæði í skýli sem tekur mið af þörfum viðkomandi gripa.
 
Þar sem nautgripir, aðrir en mjólkurkýr, eru haldnir úti skal vera aðstaða til að handsama gripi ef þeir þurfa meðhöndlun eða taka þarf úr þeim sýni.
 
Átsvæði skal vera með þéttu og þrifalegu undirlagi. Þar sem gripir eru á útigangi allt árið skal vera aðstaða innanhúss til að hlúa að gripum sem þurfa sérstakrar umönnunar við.
 
Hafa skal reglubundið eftirlit með gripum á útigangi og haga því eftir aðstæðum. Á tímabilinu 15. október til 15. maí skal líta til með gripum á útigangi daglega.
 
„Liggja, éta, mjólka ...“
 
Kýr bíta 4–9 klukkutíma á dag, mest í fjórum lotum; í dögun, um miðjan dag, seinnipart dags og þegar fer að skyggja. Kýrin sefur aðeins fjóra tíma á dag en liggur u.þ.b. 60% af sólarhringnum, mest að næturlagi (ríflega 12 tíma).
 
Þess vegna nýta þær beit mun verr að næturlagi.
 
Yfirdýralæknir upplýsir að Matvælastofnun muni fylgjast með að bændur virði ákvæði um útivist nautgripa. Brotum verður fylgt eftir með álagningu dagsekta eða stjórnvaldssekta.
 
Ítarefni og heimildir eru tiltækar áhugasömum.
 
Katrín Andrésdóttir,
f.v. héraðsdýralæknir.

4 myndir:

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...