Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Ættliðaskipti á búi – gin ljónsins?
Á faglegum nótum 30. september 2015

Ættliðaskipti á búi – gin ljónsins?

Höfundur: Guðný Harðardóttir, ráðunautur hjá RML
Ættliðaskipti á búi geta á margan hátt verið viðkvæmt málefni og margir upplifa það sem svo að þeir horfist í augu við ljón sem er í árásarhug er kemur að því að ræða þau.
 
Aðrir líta svo á að þeir vilji ekki rugga bátnum og það geta verið jafnt fráfarandi bændur og tilvonandi bændur sem það á við. Það er eðlilegt þar sem aðstæður er mismunandi hverju sinni. 
 
Hér koma tvær dæmisögur, tekið er fram að þær eiga sér enga hliðstæðu í raunveruleikanum þó að þær hljómi einhverjum kunnuglega í eyru. 
 
Dæmisaga 1
 
Jói hafði búið á sínu kúabúi í 40 ár er heilsan brást hjá honum. Hann var reyndar ekki kominn á aldur en Lísa, kona hans, var heldur ekki of góð til heilsunnar. Augljóst var að ekki var hægt að halda áfram búskap við þessar aðstæður. Því voru góð dýr ráð, hver vildi taka við?
Hvernig átti að haga ættliðaskiptunum? Af fjórum börnum þeirra höfðu tvö sýnt búskapnum mikinn áhuga og alltaf verið til taks væri þörf á hjálparhönd. Páll, elsti sonur þeirra, sá í hvað stefndi og hafði þess vegna fyrst orð á því hvort hann ætti ekki að taka við, en kona hans og fjölskylda höfðu áhuga fyrir búskap. 
 
Guðný Harðardóttir.
Yngra systkinið sem hafði áhuga fyrir búskap, Jóna, var í námi við Háskóla Íslands og ákváðu þeir feðgar því að hún væri ekki á þeim stað í lífinu að hún vildi taka við búinu. Ráðist var í að koma því þannig fyrir að Páll fengi leigða jörðina með kaupleigu án þess að hin systkinin væru höfð til samráðs.
Auðvitað urðu systkinin ekki ánægð með það fyrirkomulag en sættust á það, þó síst Jóna sem hefði haft áhuga á því að búa. Liðu nokkur ár og Jói féll frá og kona hans fljótlega í kjölfarið. Rann þá jörðin til allra systkinanna. 
 
Jóna hafði þá hitt draumaprinsinn sem gekk með búskapardraumana í maganum með henni og sáu þau sér leik á borði að nýta sér sinn hluta bújarðarinnar. Varð það til ósættis milli allra systkinanna þar sem Jóna og Páll bitust á um hluti systkina sinna.
 
Árin liðu í þessum bardaga og á meðan varð engin uppbygging á jörðinni og Páll fór á hausinn með búreksturinn. Bújörðin endaði í eyði. Það var ekki framtíðarsýn Jóa áður en hann féll frá, hann vildi sjá blómlegan búskap áfram á jörðinni. Því hefði verið skynsamlegt hjá Jóa að kalla öll börn sín saman og funda með þeim um framtíð búsins. Best hefði verið að gera samning við Pál sem allir hefðu skrifað undir, þ.e.a.s. öll börnin. 
 
Dæmisaga 2
 
Gunnar hafði alla tíð búið á Hjáleigu með foreldrum sínum og aðstoðað við búskapinn. Hin systkini hans fluttu snemma að heiman og höfðu komið upp fjölskyldum annars staðar. 
 
Hann kynntist stúlku sem vildi búa með honum. Þau ákváðu að byggja sér hús á Hjáleigu og fá keypta lóð undir það af foreldrum hans en sinna enn vinnu í næsta þéttbýli. Engar umræður voru gerðar um að hann tæki við búrekstrinum. Kona hans, Jónína, gerði þó alltaf ráð fyrir því að svo hefði verið gert.
 
Gunnar aðstoðaði við heyskap og önnur störf á meðan foreldrar hans gegndu daglegum fjósastörfum. Fór svo að faðir Gunnars veiktist svo að Gunnar steig í hans verk og minnkaði við sig vinnuna. Enda lá það beinast við þar sem hann bjó hvort eð er á hlaðinu. Einn daginn kom það fyrir að Jónínu var sagt upp vinnunni. Gunnar og Jónína fóru að velta því upp hvort þau ættu ekki að fá að taka við búinu. Vinna Gunnars og búseta þeirra þarna á Hjáleigu hlyti að teljast til frádráttar á búinu en svo virtist nú ekki aldeilis vera.
 
Þrátt fyrir veikindi föður hans þá hafði hann sterkar skoðanir á því að jörðin ætti að skiptast jafnt á milli barna þeirra hjóna, annað væri ekki sanngjarnt. Þarna kom upp pattstaða sem eðlilega endaði ekki öðruvísi en að Gunnar og Jónína stukku á næstu jörð sem þau höfðu ráð á og hófu búskap þar. Búskapur lagðist af á Hjáleigu eftir lát gömlu hjónanna og systkinin seldu jörðina undir sumarhúsabyggð. 
Hér að ofan má sjá dæmi um hversu mikilvægt er að ræða hlutina vel, með alla viðkomandi saman. 
 
Farsælasta leiðin
 
Yngri kynslóðinni finnst oft erfitt að hafa frumkvæði að umræðum um ættliðaskipti vegna ótta við að eldri kynslóðinni finnist hún frek á arfleifð sína.
 
Þegar eldri kynslóðin hefur umræðuna gætu undirtektirnar aftur á móti orðið litlar því einhverjir af yngri kynslóðinni vilja ef til vill ekki íhuga brotthvarf foreldra sinna.
 
Ekki er öllum ljóst hvað það er sem þarf að taka tillit til þegar ættliðaskipti eru rædd innan fjölskyldu og oft á tíðum er viss afneitun til staðar. Sú afneitun getur tengst atriðum sem er erfitt fyrir einstaklinga að ræða, svo sem breytingum, fjármunum, örorku (andlegri sem líkamlegri) eða dauða.
 
Hver fjölskylda á sér málefni sem draga fram sterkar tilfinningar eða valda ósætti milli fjölskyldumeðlima. Fjölskyldur sem hafa farið í gegnum ættliðaskiptaferlið mæla með því að fyrst af öllu þurfi hver og einn fjölskyldumeðlimur að skilgreina sínar skoðanir. Næst ættu hjón (pör) að ræða þessa hluti sín á milli og síðan fjölskylda hverrar kynslóðar. 
 
Nálgast má á vef RML vinnublöð sem taka á öllum þeim þáttum sem hver og einn þarf að velta fyrir sér áður en lagt er af stað í ferlið. Ef þetta er gert gengur ferlið mun betur fyrir sig þegar farið er að funda um framkvæmd ættliðaskiptanna. Þó má búast við spennu eða árekstrum vegna mismunandi hlutverka og misjafns mats á verðgildi. 
 
Ferlið gengur mun betur fyrir sig og er árangursríkara ef allir hlutaðeigandi aðilar við ættliðaskiptin fá tækifæri til að bera kennsl á þarfir sínar og tjá þær. Fund um ættliðaskiptin skal halda með öllum hlutaðeigandi aðilum. Eldri kynslóðin er „fráfarandi bændur“, sem geta verið afi og amma, foreldrar eða frændi og/eða frænka. Yngri kynslóðin er afkomendur og/eða „tilvonandi bændur“. Heillavænlegast er að allir hlutaðeigandi sitji fundinn. 
 
Gott er að fá einhvern utanaðkomandi til að leiða umræðuna og stjórna fundinum en viðkomandi hefði samt grunnþekkingu á eðli málsins t.d. ráðgjafi frá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins. Meðlimir eldri kynslóðarinnar munu taka lokaákvörðunina, en án þess að vita þarfir og áhyggjur annarra fjölskyldumeðlima gætu þeir fengið hugmyndir sem eru ekki endilega réttar. Ef staðið er að málum eins og lýst var hér á undan, finna meðlimir yngri kynslóðarinnar að tekið er tillit til þarfa þeirra. 
 
Annað sjónarhorn á ættliðaskiptaferlið er skoðun á núverandi eignarhaldi á landi og öðrum eignum. Á að skipta um nafn? Hvað um rekstrarformið – er það hentugt fyrir þín markmið? Þó þú viljir skoða skattalegar skyldur, lögfræðilegar kvaðir, fjárhagslega áhættu og svo framvegis með sérfræðingum, þá taka aðeins þú og aðrir fjölskyldumeðlimir ákvörðun um eignarhaldið og rekstrarformið sem hentar ykkur. Ráðleggingar eru meðal annars aðgengilegar hjá lögfræðingum, endurskoðendum og ráðunautum Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins.
 
Að búa fjölskylduna undir ættliðaskiptaferlið er hluti af ábyrgð eldri kynslóðarinnar gagnvart yngri kynslóðinni. Ferlið skiptist í raun í tvennt, annars vegar lögfræðilega og skattalega hlið, sem er mjög mikilvægt en gott samband og samskipti innan fjölskyldunnar við skipulagningu á ættliðaskiptunum er það sem skiptir sköpum. Vegna meðfæddra tengsla við arfleifð, land og lífsstíl, eru ættliðaskipti mun algengari í landbúnaði en öðrum rekstri. Þegar fólk vinnur náið saman marga tíma á dag eins og gerist í landbúnaði er ósamkomulag eðlilegt, einnig árekstrar. Hvað sem því líður geta óleystir árekstrar haft mikil áhrif á langtímaárangur og lífvænleika búrekstrarins. Þeir geta haft mikil áhrif á ferlið við ættliðaskiptin. Eldri kynslóðin gæti komist að þeirri niðurstöðu að sama hvað sé gert, verði alltaf einhverjir af yngri kynslóðinni óánægðir. Eldri kynslóðin ætti ekki að láta þetta stöðva ferlið við að komast að niðurstöðu og taka ákvörðun um ættliðaskiptin. 
 
Munum að þau sem mynda eldri kynslóðina hafa unnið hörðum höndum að því að auka virði búrekstrarins – hann er eign þeirra og það er þeirra að ráðstafa honum eins og þau álíta best.
 
Nánari upplýsingar um tiltæk gögn um ættliðaskipti í landbúnaði er m.a. að finna á vef Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, www.rml.is, undir Búseta í sveit og einnig er hægt að hafa samband við Guðnýju Harðardóttur, ráðunaut RML, gudnyh@rml.is sími: 516 5021.

6 myndir:

Skylt efni: Ættliðaskipti

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...