Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Í skoðunarferð um nágrenni Flórens fór hluti ráðstefnugesta á sauðfjárbú sem geymir ræktunarkjarna Comisana- og Massese-mjólkurfjárkynjanna. Á búinu eru um 1.000 ær mjólkaðar í mjaltagryfju með 46 mjaltatækjum.
Í skoðunarferð um nágrenni Flórens fór hluti ráðstefnugesta á sauðfjárbú sem geymir ræktunarkjarna Comisana- og Massese-mjólkurfjárkynjanna. Á búinu eru um 1.000 ær mjólkaðar í mjaltagryfju með 46 mjaltatækjum.
Mynd / jhe
Á faglegum nótum 4. október 2024

Af árlegri ráðstefnu evrópskra búfjárvísindamanna – Fyrsti hluti: Loftslagið

Höfundur: Jón Hjalti Eiríksson, lektor við LbhÍ.

Árleg ráðstefna Evrópusamtaka búfjárvísindamanna (EAAP) var haldin í Flórens á Ítalíu 1. til 5. september síðastliðinn. Það er stór ráðstefna, um 2.000 manns mættu og 1.800 ágrip voru send inn frá vísindamönnum til að kynna sem veggspjald eða fyrirlestur.

Þar sem ráðstefnan var með um 100 málstofur, og allt að því 14 í gangi í einu, náði ég aðeins að sjá lítinn hluta af erindunum en hér ætla ég að segja frá nokkrum áhugaverðum erindum á málstofum sem ég sótti. Kynbætur nautgripa og sauðfjár fá hér hlutfallslega mikið pláss í samræmi við fagsvið höfundar.

Gestgjafinn Ítalía

Í Flórens var hitasvækja, sem er tímanna tákn, og varaborgarstjóri Flórens tengdi þennan hita loftslagsbreytingunum í ávarpi til ráðstefnugesta. Áhrif búfjár á loftslagið, og þá sérstaklega metanlosun jórturdýra, tók enda allnokkuð pláss á ráðstefnunni eins og á öllum svipuðum viðburðum síðustu ár.

Búfjárrækt og búfjárvísindi eru stórir geirar á Ítalíu. Yfir fimm milljónir hausar eru af hvoru, sauðfé og nautgripum í landinu, og 436 þúsund bufflar. Sauðfjárræktin á Ítalíu er um margt ólík því sem við eigum að venjast hér á Íslandi. Hún er mest til mjólkurframleiðslu, Sarda mjólkurfjárkynið það langsamlega fjölskipaðasta og sauðaostar víða á boðstólum. Í skoðunarferð um nágrenni Flórens fór hluti ráðstefnugesta á sauðfjárbú sem geymir ræktunarkjarna Comisana- og Massese-mjólkurfjárkynjanna. Á búinu eru um 1.000 ær mjólkaðar í mjaltagryfju með 46 mjaltatækjum. Kynbótastarf þessara kynja fer að mestu fram innan þessa bús sem svo selur kynbótagripi frá sér. Valið byggir á kynbótamati og með samanburði hálfsystrahópa innan búsins, afkvæmarannsókn svipuð því sem kynbótakerfi mjólkurframleiðslunnar byggði á fyrir tíma erfðamengjavals. Í kjarnanum eru aðeins arfhreinar kindur með mótstöðuarfgerð gagnvart riðuveiki, ARR/ARR, sem dreifir arfgerðinni svo út til framleiðenda með sölu gripa. Á þessu búi, eins og víða annars staðar, var búið að koma upp GreenFeed-bás til mælinga á metanlosun kindanna. Svipaður búnaður er í Hvanneryrarfjósinu til mælinga á losun kúa og nokkur erindi á ráðstefnunni greindu einnig frá niðurstöðum slíkra mælinga.

Fóðurbreytingar virka til að draga úr losun nautgripa

Á ráðstefnunni sjálfri var umfjöllun um metanlosun jórturdýra frá ýmsum hliðum, einkum um áhrif fóðrunar gripanna, framleiðslukerfa, og möguleikum til kynbóta fyrir minni losun. Málstofa sem bar yfirskriftina „Samband á milli umhverfis- og skilvirkni eiginleika – þverfagleg nálgun“ hófst á boðserindi Peters Lund frá Árósaháskóla, en rannsóknarhópur hans hefur skoðað losun mjólkurkúa við mismunandi fóðrun um nokkurt skeið. Ákveðin bætiefni í fóðri, svo sem 3-nítró-oxíprópanól, nítrat og ákveðnar þörungategundir hafa sýnt sig hafa áhrif á metanlosun til minnkunar. Aftur á móti fylgja í einhverjum tilfellum neikvæð áhrif á át og mjólkurframleiðslu sem þarf að taka tillit til við innleiðingu. Samsetning fóðursins án sérstakra aukaefna getur líka verið áhrifarík, svo sem aukið fituinnihald eða hækkað kjarnfóðurhlutfall. Þar þarf þó að hafa í huga kolefnisspor af framleiðslu fóðursins til að tryggja að kerfið í heild dragi úr losun.

Sauðfjárræktin á Ítalíu er um margt ólík því sem við eigum að venjast hér á Íslandi. Hún er mest til mjólkurframleiðslu.

Kynbætur virka til að draga úr losun

Kynbætur fyrir minnkaðri metanlosun eru aðgerð sem miklar vonir eru bundnar við vegna þess að náist árangur með þeim hætti verður hann varanlegur. Það er orðið nokkuð ljóst að erfðabreytileiki er til staðar fyrir metanlosun frá jórturdýrum, það sýna margar rannsóknir víða um heim. Aftur á móti er fjöldi mælingar innan einstakra landa enn ekki mikill og víðast er langt í land að geta byrjað kerfisbundið val fyrir eiginleikanum. Á EAAP sagði Birgit Gredler- Grandl frá Wageningen-háskólanum í Hollandi frá fjölþjóðlegu samstarfi sem stefnir að því að takast á við áskoranir sem þessu fylgja, staðla meðferð gagna, sameina gagnasöfn og auka mælingar víða um heim. Í það minnsta í Kanada og á Spáni eru nú þegar birtar erfðamengjakynbótaspár fyrir losun frá mjólkurkúm, þó að þær byggi á frekar takmörkuðu gagnasafni og séu ekki teknar inn í heildareinkunnir enn.

Þar sem farið er að safna upplýsingum um metanlosun einstakra gripa í stórum stíl eru helst notaðir svokallaðir þefarar (sniffers) sem mæla þéttni metans í kringum gripi, fyrir mjólkurkýr til dæmis í mjöltum í mjaltaþjóni. Slíkar mælingar gefa ekki beina mælingu eða tölu fyrir heildarlosun hvers grips en mælingar slíkra þefara hafa háa fylgni við mælingar úr nákvæmari búnaði. Úrvinnsla gagna sem fást úr slíkum mælingum er þó enn í þróun, til að mynda hvernig á að hreinsa þau og hvernig á að skilgreina eiginleikana sem unnið er með úr slíkum búnaði. Ester M. Teran frá INIA á Spáni og Coralia Manzanilla-Pech frá Wageningen komu báðar inn á þetta í sínum erindum þar sem þær báru saman mismunandi skilgreiningar á metaneiginleikanum frá slíkum búnaði og sýndu erfðastuðla fyrir þá. Niðurstöður þeirra eru ekki afgerandi enn um hvaða skilgreining er best svo frekari rannsókna er þörf þar.

Til viðbótar því hvernig á að nota þefaragögn er einnig óútkljáð hvaða eiginleika á að miða við sem kynbótamarkmiðið í vali fyrir minni losun. Samkvæmt erindi Nicolas Gengler frá Belgíu er metanlosun á einingu framleiðslunnar (t.d. g CH/l mjólkur) sjónarhorn sem fóðurfræðingar horfa gjarnan á en er óvinsælt meðal kynbótafræðinga vegna óheppilegra eiginleika slíkra hlutfallstalna í útreikningum. Frekar er horft til umframmetans, sem er munurinn á því metani sem mælist og því sem búast mætti við miðað við framleiðslu gripsins. Notkun magns losunar beint getur líka vel gengið sem eiginleiki í kynbótum þó að vissulega sé hann nátengdur framleiðslunni, t.d. þannig að kýr sem mjólka meira losa yfirleitt meira. Samsett heildareinkunn sem tekur tillit til erfðafylgni getur tekið á tengslunum á milli eiginleika þannig að útkoman verði minnkandi losun á framleidda einingu.

Umhverfisvæn heildareinkunn

Í yfirlitserindi um kynbótamarkmið sem Birgit Fuerst-Waltl frá auðlinda- og lífvísindaháskólanum í Vín var með lagði hún áherslu á að við höfum bara 100% til skiptanna – ef við aukum áherslu á eitthvað eitt í kynbótakerfinu minnkar jafnframt áherslan á aðra eiginleika. Þannig getur það skapað togstreitu við að taka meira tillit til sjálfbærni og velferðar í kynbótastarfinu ef það er á kostnað erfðaframfara á efnahagslega mikilvægum eiginleikum fyrir framleiðendur. Þó að eiginleikar eins og metanlosun eða aðrir umhverfisþættir sem ekki hafa bein fjárhagsleg áhrif á framleiðendur hafi ekki verið teknir inn í kynbótamarkmið hafa t.d. Ástralar farið þá leið að birta sérstaka sjálfbærni heildareinkunn til viðbótar hagrænni heildareinkunn. Útgangspunkturinn er þá að auka sjálfbærni framleiðslunnar frekar en hagkvæmni.

Aðlögun

Önnur hlið á loftslagsbreytingateningnum er aðlögun að þeim breytingum sem eru orðnar og verða á næstunni óháð öllum okkar aðgerðum til að draga úr losun. Skepnur þola hærri hita misjafnlega vel og ná misvel að halda uppi framleiðslu þegar mjög heitt er í veðri. Til dæmis sagði Aurélie Vinet frá erfðamengjatengslagreiningu (GWAS) á hitaþoli franskra mjólkurkúa sem benti til þess að ákveðin svæði í erfðamenginu séu tengd erfðafræðilegum mun á hitaþoli milli gripa.

Víðtækara hugtak sem hefur mikið verið í deiglunni hjá búfjárvísindamönnum síðustu ár er þanþol gripa, resilience á ensku. Það er eiginleiki skepnanna til að breyta líkamsstarfsemi lítið við áföll svo sem sjúkdóma eða mikinn hita og/ eða vera fljót að jafna sig. Tæki sem mæla t.d. mjólkurmagn, líkamshita, hreyfivirkni eða át daglega eða oftar gefa upplýsingar sem hægt er að nota til að meta þanþol gripa við bæði þekkta stressvalda og áföll einstaklingsins af óþekktum orsökum.

Búfjárvísindamenn víða í Evrópu og um heim allan eru sem sagt að vinn að lausnum til að draga úr loftslagsáhrifum búfjárræktarinnar og til að hjálpa okkur mannkyninu að framleiða mat í okkur þrátt fyrir þær loftslagsbreytingar sem eru orðnar og óhjákvæmilega verða. Vonandi skilar það sér fljótlega í því að losun frá búfjárrækt minnkar verulega sem getur verið einn þáttur í að draga úr hnattrænni hlýnun og að búfé geti áfram skilað sinni þjónustu við mannkynið.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...