Austin – elsta hjóladráttarvélin á Íslandi kom til landsins 1920
Bretinn Herbert Austin hóf framleiðslu á bílum í Worcester-skíri árið 1906 og dráttarvélum 1919. Fyrsta dráttarvélin sem kallaðist Austin Model R líktist hinum bandaríska Forsson í flestu nema því að vélin í Austin var kraftmeiri.
Bifreiðarnar frá Austin seldust vel en vinsældir Austin-dráttarvélanna voru takmarkaðar í heimalandinu. Traktorarnir þóttu dýrir og bilanatíðni þeirra var há. Talsvert af þeim seldist samt til Ástralíu, Suður-Afríku og Suður-Ameríku. Model R var með fjögurra strokka vél sem gekk bæði fyrir bensíni og steinolíu. Traktorinn var tveggja gíra og tæp 30 hestöfl. Um það bil 1500 Austin-traktorar voru framleiddir í Bretlandi og voru þeir allir grænir með rauðum hjólum.
Í heimsstyrjöldinni fyrri var Austin-fyrirtækið stórtækt í framleiðslu á alls kyns stríðstólum fyrir breska herinn og framleiddi meðal annars fallbyssur, hertrukka og flugvélar. Sagt er að á árunum 1914 til 1918 hafi fyrirtækið meðal annars framleitt átta milljón sprengjur, tvö þúsund flugvélar, 2.500 flugvélamótora, 2.000 hertrukka, 480 brynvarðar bifreiðar og 150 sjúkrabíla.
Verksmiðja í Frakklandi
Mestar voru vinsældir Austin-dráttarvélanna í Frakklandi og til að komast í kringum háa innflutningstolla setti fyrirtækið á fót verksmiðju í landinu til að framleiða traktora fyrir Frakklandsmarkað. Rekstur þeirrar verksmiðju gekk reyndar svo vel að árið 1927 var verksmiðjunni í Bretlandi lokað og um tíma voru Austin-dráttarvélar fluttar til Bretlands frá Frakklandi.
Frönsku traktorarnir voru fáanlegir í tveimur breiddum og var sú grennri mikið notuð við vínrækt. Kaupandinn gat einnig valið um hvort vélin væri með járn- eða gúmmídekk. Þegar best gekk voru framleiddar um 2.000 Austin-dráttarvélar á ári í Frakklandi.
Árið 1933 kynnti fyrirtækið til sögunnar nýja og öflugri dráttarvél sem gekk fyrir steinolíu og var 55 hestöfl sem þótti talsvert á þeim tíma.
Í seinni heimsstyrjöldinni og í skjóli hersetu Þjóðverja í Frakklandi tók þýska fyrirtækið Krupp yfir Austin-verksmiðjuna þar í landi. Í framhaldi af yfirtökunni hætti Austin endanlega framleiðslu á dráttarvélum.
Samrumi og Austin Mini
Árið 1952 sameinuðust Austin og Nuffield og úr varð British Motor Corporation sem seinna varð að British Leyland Motor Corporation sem framleiddi meðal annars Austin Mini-bifreiðar.
Austin á Íslandi
Samkvæmt því sem segir á heimasíðu Fornvélafélagsins keypti Búnaðarfélag Íslands hjóladráttarvél af gerðinni Austin til landsins árið 1920 og mun það líklega vera elsta hjóladráttarvélin sem til er á landinu. Dráttarvélin var 20 hestöfl og kostaði um 20.000 krónur. Ætlunin var að nota dráttarvélina til flutninga og komu með henni til landsins sex vagnar. Vélin var einnig notuð við herfingu á Korpúlfsstöðum og síðan við nýræktarstörf.