Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Gamall einir á Hólasandi. Sá stærri gæti verið á aldur við þann elsta sem þar fannst og reyndist um 280 ára gamall, elsta tré á Íslandi.
Gamall einir á Hólasandi. Sá stærri gæti verið á aldur við þann elsta sem þar fannst og reyndist um 280 ára gamall, elsta tré á Íslandi.
Mynd / Pétur Halldórsson
Á faglegum nótum 14. febrúar 2024

Einir (Juniperus communis)

Höfundur: Pétur Halldórsson

Einir telst til grátviðarættar sem reyndar er líka kölluð ýmist einiætt, lífviðarætt eða sýprusætt. Einir er hægvaxta barrviður með einkennandi aldinum og fíngerðum en beittum barrnálum.

Nálarnar standa saman þrjár og þrjár á greinunum ef vel er skoðað. Einir er útbreiddasta barrtrjátegund í heiminum og vex um stóran hluta norðurhvels jarðar. Þótt allt sé þetta flokkað sem sama tegundin eru skilgreindar allnokkrar deilitegundir af eini enda fjölbreytnin innan tegundarinnar talsverð.

Tegundin vex við ýmiss konar skilyrði og aðstæður, allt upp í 2.400 metra hæð yfir sjó. Ein deilitegund vex jafnvel ofan trjámarka í fjallgörðum meginlands Evrópu og austur til Síberíu. Hjá okkur er einirinn eina barrtréð sem vex villt á landinu. Hann er fremur algengur um mestallt land en samkvæmt Flóruvefnum er þó lítið af honum í Húnavatnssýslum, Rangárvallasýslu og vestanvert í Skaftafellssýslu. Útbreiðslan er allnokkuð slitrótt. Einir er harðgerður, getur þrifist í rýrum jarðvegi og þolir vel bæði kulda og næðing. Hins vegar er hann ljóselskur og líður best þar sem hann fær ríkulega birtu. Í skógarskugga verður hann gjarnan uppsveigður.

Fyrir okkur Íslendingum er einirinn lágvaxinn, jafnvel jarðlægur runni en til eru í heiminum deilitegundir sem ná gjarnan um tíu metra hæð. Af því að tegundin verður meira en fimm metra há einhvers staðar á útbreiðslusvæði sínu telst hún til trjátegunda, þar með á Íslandi. Hæstu einitré sem þekkjast eru um sextán metra há en slíkt er sjaldgæft. Á Íslandi eru skilgreindar tvær deilitegundir einis, J. communis spp. communis og J. communis spp. nana. Hefur sú fyrrnefnda meiri tilhneigingu til að teygja sig upp í loft. Hin er jarðlægari eða dvergvaxnari eins og deilitegundarheitið nana gefur til kynna. Ekki er þó með öllu víst að þessi flokkun stæðist nánari skoðun en það yrði erfðagreining að leiða í ljós. Til eru dæmi um mannhæðarháan eini hérlendis, til dæmis bæði í Fnjóskadal og á Þórsmörk. Sá hæsti sem vitað er um vex innan um birki í Bakkaselsskógi í Fnjóskadal. Hann er uppsveigður og tveggja metra hár en lengsti stofninn um þrír metrar á lengd. Jafnvel er mat sumra að slíkur einir sé farinn að teygja sig meira upp í loftið með hlýnandi loftslagi þótt ekki sé það staðfest með vissu.

Einir hefur mjög sérstakan ilm. Ilmolíur úr eini hafa víða verið notaðar frá fornu fari í ýmsum tilgangi, meðal annars til lækninga. Einiberin eru notuð sem bragðefni við framleiðslu á gini en líka sem krydd. Reyndar er strangt tiltekið ekki rétt að tala um ber því þetta eru í raun könglar, stundum kallaðir berkönglar. Könglar myndast á eini rétt eins og á öðrum barrtegundum en einiberin verða til með því að þrjú efstu blöð köngulsins tútna mjög út. Neðri blöðin eru aftur á móti mjög smágerð og birtast okkur sem eins konar varta neðan á berinu. Einiberin standa græn á greinunum ári eftir að frjóvgun á sér stað en á þriðja ári ná þau fullum þroska og verða dökkblá. Algengt er að sjá bæði græn og blá einiber á sömu plöntunni. Einir er sérbýlisplanta þannig að plönturnar eru annað hvort karlkyns eða kvenkyns.

Einir getur orðið mjög gamall, sérstaklega karlplönturnar sem vitað er til að hafi náð meira en tvö þúsund ára aldri. Fyrir fáeinum árum kom í ljós að elsta tré á Íslandi sem vitað er um væri einir á Hólasandi norðan Mývatnssveitar. Þar tókst með hjálp víðsjár að telja 250 árhringi í stofni og töldu sérfræðingar að bæta mætti þrjátíu árum við þá tölu. Elsta tré á Íslandi er því á að giska 280 ára gamalt. Áður höfðu birkitré í Hallormsstaðaskógi verið álitin elstu tré landsins, um 200 ára gömul. Einir hefur því þraukað á Hólasandi þrátt fyrir að landið blési þar upp og breyttist í auðn á 19. og 20. öld. Þeir eru til vitnis um horfið gróðurlendi á svæði sem nú er unnið við að græða upp.

Einiviður verður seint til mikilla nytja á Íslandi en í löndum þar sem finna má stórvaxnari einitré er hann eftirsóttur í ýmsa sérsmíði, einkum smærri nytjahluti eins og hnífsköft, smjörhnífa og sleifar en líka ýmsa skrautmuni. Vegna þess hve viðurinn er þéttur og stutt milli árhringja verður hann mjög stöðugur og sterkur. Sérstakur ilmurinn endist líka mjög lengi. Eftirsóttastur er viðurinn úr viðarnýrum sem myndast geta á eini eins og ýmsum öðrum trjátegundum. Slíkur viður af eini er mjög skrautlegur og harður enda nýttur í margvíslega gripi og skart.

Skylt efni: einir

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...