Fjórir ARR-gripir til viðbótar í Vífilsdal
Í framhaldi af því að 2 gripir fundust á bænum Vífilsdal í Hörðudal með ARR genasamsætuna var hafist handa við að kortleggja alla hjörðina.
Síðastliðinn föstudag komu greiningar fyrir u.þ.b. helming ánna. Þar með er búið að greina nánast allar eldri kindur á búinu. Í næsta skrefi verður þá restin af hjörðinni greind, a.m.k. þær ær sem ekki er hægt að spá fyrir um arfgerð út frá greiningum eldri ánna.
Fjórar kindur bættust nú við sem bera ARR en áður var búið að staðfest genið í hrútnum Verði 23-459 og ánni Gullbrá 16-189. Enn er ekkert hægt að fullyrða um það hvaðan genið kemur í hjörðina. Þessar fjórar ær eru skyldar Gullbrá en þó ekki náskyldar.
Sameiginlegur forfaðir þeirra sem næstur þeim stendur er hrúturinn Golsi 02-346 frá Háafelli í Miðdölum, en hann kemur fyrir í 3. eða 4. ættlið hjá öllum ánum.
Frekari sýnataka mun væntanlega varpa ljósi á það hvort Golsi hafi borið ARR en hann á talsvert af afkomendum sem enn eru ógreindir. Í meðfylgjandi töflu er yfirlit yfir þessar fjórar ær sem við bættust.