Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Læsanlegar átgrindur ættu að vera til í öllum fjósum þar sem gripir eru í lausagöngu.
Læsanlegar átgrindur ættu að vera til í öllum fjósum þar sem gripir eru í lausagöngu.
Mynd / Fremtiden Staldinventar
Á faglegum nótum 12. febrúar 2024

Fjós geta verið hættulegir vinnustaðir

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Meðhöndlun á skepnum er líklega algengasta skýring þess að slys verða á fólki í landbúnaði og þetta á sérstaklega við um bændur sem búa með nautgripi enda vita auðvitað allir kúabændur að fjós geta verið hættulegir vinnustaðir, en það þarf nú þrátt fyrir það að sækja vinnuna kvölds og morgna og þess á milli eins og gengur.

Helstu ástæður þess að fjós geta reynst hættuleg sem vinnustaður er auðvitað fyrst og fremst vinnan við nautgripina sjálfa og þekkja vafalítið flestir bændur hér á landi til slysa eða óhappa á fólki, bæði smávægilegra sem og alvarlegra, þar sem nautgripir hafa komið við sögu. Þrátt fyrir að ávallt sé verið að rækta upp skapbetri gripi þá geta komið upp tilvik þegar nautgripirnir missa hreinlega stjórn á sér, eins og t.d. hefur komið fyrir nýbærur. Eins eru nautgripir vissulega þungir og það eitt og sér getur leitt til óhappa, svo sem þegar nautgripir troða sér einhvers staðar og starfsmaður lendi í klemmu svo dæmi sé tekið. Þrátt fyrir að framangreind vitneskja liggi fyrir, verða árlega slys á fólki í landbúnaði og sýna tölur erlendis frá að oft hefði mátt koma í veg fyrir slysin með einföldum hætti.

Helstu hættusvæðin

Það er mikilvægt að gera sér vel grein fyrir því hvar helstu hættusvæðin, innan fjóss, eru og gera ráðstafanir til þess að minnka líkurnar á því að óhöpp verði. Þetta hefur verið skoðað nokkuð vel víða um heim og samkvæmt norskum upplýsingum þá eru helstu áhætturnar í fjósum tengdar við:

  • Meðhöndlun á gripum
  • Mjaltir
  • Meðhöndlun fóðurs og fóðrun
  • Þrif

Við þessa upptalningu má bæta fleiri atriðum og líklega margir sem hugsa til hræringar á mykju. Tilfellið er þó, sem betur fer, að ekki eru mörg slík slys skráð og vonandi flestir sem hafa hugfast þá hættu sem felst í rangri gasmyndun við meðhöndlun mykju.

Meðhöndlun gripa

Kúabændur þurfa óhjákvæmilega að meðhöndla gripi daglega, færa þá á milli staða og/eða vinna með gripina eins og gengur og gerist. Algeng skýring slysa í fjósum er m.a. tengd við burð kúa, en mörg dæmi eru um slys og jafnvel banaslys vegna þess að kýr hafi misst stjórn á sér í kringum burðinn. Það eru í raun eðlileg viðbrögð kúa og mjög náttúruleg, það að verja afkvæmi sitt fyrir „árás“ og þó svo að þetta náttúrulega viðbragð kúa sé að mestu ræktað úr flestum stofnum þá koma stöku sinnum fyrir sterkir einstaklingar sem þarf að hafa varann á sér gagnvart. Hvert kúabú ætti því að vera vel útbúið stíum með mannopum og læsigrindum, svo unnt sé að hemja gripi sem þarf að vinna við og/eða forða sér auðveldlega út ef á þarf að halda.

Mannop, sem eru einfaldlega greið leið fyrir fólk út úr griparými, ætti að staðsetja í alla aðstöðu þar sem kúm er ætlað að bera sem og þar sem kýr eru almennt í lausagöngu. Þá ætti að hafa mannop í öllum stíum þar sem naut eru í eldi. Mannop eru vanmetin af mörgum og ekki einungis draga þau úr líkum þess að fólk lendi í óhöppum heldur auka þau verulega vinnuhagræði, þar sem mun einfaldara er að ganga um griparými þar sem mannop eru til staðar.

Læsanlegar átgrindur eru líka einkar hentugar þar sem nautgripir eru annars vegar enda hægt að læsa nautgripina fasta við fóðurgang sem gerir alla vinnu auðveldari svo sem ef setja á múl á grip, sprauta, klippa eða hvað það nú er sem stendur til að gera. Læsanlegar grindur eru einnig afar heppilegar til þess að halda eftir ákveðnum gripum, ef flytja þarf hluta þeirra í annað rými. Þá eru einfaldlega allir gripir læstir fyrst við fóðurgang og svo þeir sem þarf að flytja losaðir og þá er vinnan mun auðveldari heldur en ef allir gripir væru lausir og taka þyrfti grip eða gripi út úr hópnum. Það ættu því að vera til læsanlegar átgrindur í öllum fjósum nú til dags, tala nú ekki um í stíum hjá kvígum sem snarléttir sæðingavinnuna.

Mannop þarf að setja í þau rými þar sem gripir eru lausir. Þetta eykur bæði öryggi fólks og auðveldar einnig vinnuna. Mynd / Anja Juul Freudendal

Mjaltir

Helstu slysahættur við mjaltir eru líklega spörk, ástig og troðningur, þ.e. fólk lendir á milli grips og innréttinga. 

Á Íslandi eru mjaltaþjónar algengustu mjaltatækin og stundum verða óhöpp þegar verið er að koma þrjóskum kúm inn í mjaltaþjóninn eða vegna þess að ásetningararmur mjaltaþjóns veldur slysi á þeim einstaklingi sem er þar við vinnu.

Þá getur gólfið við mjaltaþjóninn, sérstaklega þeim megin sem gripirnir eru ekki, verið hált. Almennt þarf að hafa varann á sér á þessu vinnusvæði og er mikill kostur að vera með mannop beggja vegna mjaltaþjóns sem og að hafa vinnusvæðið aftan við mjaltaþjóninn með undirlagi á gólfinu sem er stamt en þó auðvelt að þrífa. Heppilegar gúmmímottur geta verið gagnlegar en geta orðið sleipar ef mjólkurleifar lenda á þeim svo hafa þarf varann á.

Meðhöndlun fóðurs

Meðhöndlun fóðurs á kúabúum er auðvitað mjög fjölbreytt og mismunandi á milli búa hvaða tæknibúnaður er notaður. Almennt séð eru þó flestir bændur að nota einhver tæki eða tól sem geta valdið slysum. Því þarf að tryggja að rétt sé staðið að vinnunni og góð þumalfingursregla er að skoða vel aðstöðuna á búinu og gera áhættumat á því hvar hætturnar geti legið og þá jafnframt hvernig eigi að draga úr líkum á því að slys verði.

Liðléttingar eru nú orðið mikið notaðir í fjósum og eru til mörg dæmi um slys við notkun þeirra svo sem vegna ofhleðslu eða veltu. Reynsla Norðmanna af þessum tækjum sýnir að best sé að koma í veg fyrir slys vegna liðléttinga með því að tryggja rétta notkun og að aðstaðan bjóði ekki upp á slysahættu svo sem vegna akstur á römpum eða misfellum sem og að miða hleðslu við stærð tækisins. Sérstaklega þarf hér að huga að þyngdarpunkti liðléttingsins sem snarbreytist þegar þungu fóðrinu er lyft upp.

Undanfarin ár hafa margir kúabændur hérlendis komið sér upp fóðurblöndunarkerfum og eðli þessara kerfa er að þau hræra saman ólíkum fóðurefnum og oftar en ekki eru í þessum hrærum beittir hnífar sem skera niður gróffóður. Hnífana þarf að brýna reglulega og eru til mörg dæmi, erlendis frá, þegar orðið hafa alvarleg slys á fólki við þessa iðju. Oftast vegna þess að kerfin hafa verið gangsett á sama tíma og einhver er að vinna við hnífana. Afleiðingarnar eru því miður oftast mjög alvarlegar og mörg banaslys orðið vegna þessa. Því þarf að tryggja verkferla við þetta verk þannig að ekki sé með nokkrum hætti hægt að setja kerfið af stað, þegar þessi vinna fer fram. Skiptir þar engu máli hvort venjulega sé ekki nokkur annar sem á að koma að verkinu en reynslan sýnir að það er einmitt í slíkum tilvikum sem slysin verða. Fyrir einhverja tilviljun kemur einhver að og setur blandarann af stað með skelfilegum afleiðingum. Því er alltaf ráðlagt í dag að aftengja allan drifbúnað fyrir brýningu eða útskiptingu á hnífum.

Mörg önnur dæmi mætti nefna og þó svo að rúlluskerar séu líklega minna notaðir núorðið en áður, þá eru til dæmi um skurðarslys vegna rangrar notkunar skeranna og/ eða bara óhappa. Öryggisskór eða stígvél með stáltá geta í einhverjum tilvikum dregið úr líkum á slysum vegna rúlluskera, þó það sé vissulega ekki tryggt.
Fallhætta í tengslum við meðhöndlun fóðurs er einnig til staðar, bæði vegna vinnu við og í sílóum, gryfjum o.fl. Hér ættu allir bændur að gera áhættumat og vera með verkferla sem draga úr líkum á slysum svo sem með því að hafa handrið þar sem þörf krefur og jafnvel nota líflínur.

Rykgrímur eru mismunandi að gæðum. Fyrir vinnu í fjósum ætti ekki að nota grímur sem eru með lægri rykstöðvunarstuðul en P2 og við háþrýstiþvott á að nota tegundir sem kallast P3.

Þrif

Síðasta atriðið sem hér verður tekið fyrir eru fjósþrifin en vegna eðli nautgriparæktar þarf að þrífa ansi oft og mikið. Smáar agnir í loftinu, sem koma til við þrifin, geta valdið bændum og starfsfólki á búum miklu tjóni og tilfelli lungnasjúkdóma eru nokkuð algeng meðal fólks sem starfar í landbúnaði.

Þetta er m.a. rakið til þess að oft er fólk ekki nógu passasamt við þrifin og ver ekki öndunarveginn vel, t.d. er algengt að háþrýstiþvo án þess að nota grímu og oft tengir fólk ekki vatnsúða við hættu. Rykagnir geta þó, með hinum örfínu dropum sem koma frá háþrýstiþvotti, borist djúpt niður í öndunarveginn með framangreindum afleiðingum. Þessar rykagnir innihalda oft lífræn efni og jafnvel örverur eins og bakteríur eða myglu. Sumar þessara örvera innihalda eða framleiða eiturefni sem geta einnig valdið ertingu í augum og eins og áður segir á öndunarfærum. Til lengri tíma litið getur þetta valdið ofnæmi, astma, berkjubólgu eða langvinnri lungnateppu. Allt eru þetta sjúkdómar sem eru langvinnir og alvarlegir. Þess vegna þarf að nota grímur þegar háþrýstiþvottakerfi eru notuð í fjósum og þessar grímur ættu að vera af svokölluðum P3 gæðum, þ.e. sérstaklega hannaðar til að stöðva lífrænar agnir. Almennt ætti ekki að nota grímur af minni gæðum en P2 í vinnu í fjósum þar sem talið er að þörf sé á grímunotkun.

Hér er ekki hægt að telja allt upp en best er að gera áhættumat, fara yfir það hvernig vinnan fer fram og skoða vel hvar mögulegar hættur eru til staðar. Þegar það hefur verið gert er svo næsta skref að gera ráðstafanir til þess að draga úr slysahættunni, hvernig sem það er gert.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...