Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Í anda þess tíma var sýprus- og ýviðartrjám plantað meðfram göngustígum og í bakgrunninn.
Í anda þess tíma var sýprus- og ýviðartrjám plantað meðfram göngustígum og í bakgrunninn.
Á faglegum nótum 17. nóvember 2017

GIUSTI endurreisnargarðurinn í Verona

Höfundur: Vilmundur Hansen

Í Verona er að finna eitt best varðveitta dæmið á Ítalíu um garð aðalsfjölskyldu frá endurreisnartímanum. Þrátt fyrir endurbætur á garðinum í gegnum aldirnar er hann að mestu í upprunalegri mynd og hrein unum að heimsækja.

Aðkoman að garðinum er látlaus og nánast ósýnileg í samfelldri og þröngri götumyndinni.

Fyrir, „introverta“, fólk sem ekki er mikið fyrir fjölmenni, hafa lystigarðar óneitanlega marga kosti fram yfir listasöfn. Yfirleitt eru fáir á ferli í görðunum andstætt frægum og fallegum listasöfnum sem iðulega eru sneisafull af fólki sem líta vill helstu listaverk sögunnar augum. Lystigarðar eru opin rými þar sem draga má andann, horfa til himins og finna angan vel skipulagðrar, manngerðrar og tilbúinnar náttúru.

Skammt austan við hringleikahúsið í Verona, eftir að farið er yfir Adiga-ána sem rennur í gegnum borgina, er að finna Giusti-garðinn sem sagður er vera eitt besta dæmið um lystigarð aðalsfjölskyldu frá endurreisnartímanum á Ítalíu. Aðkoman að garðinum er látlaus og nánast ósýnileg í samfelldri og þröngri götumyndinni en eftir að gengið er inn um hliðið blasir við stórkostlegt útsýni inn í garðinn sem umkringdur er háum steinvegg á allar hliðar.

Giusti-fjölskyldan reisti sér látlausa höll sem sneri að götunni og ræktaði garð aftan við hana.

Garður Guisti-fjölskyldunnar

Við lok fjórtándu aldar var ullarvinnsla og ullarlitun ein helsta tekjulind Verona og á þeim tíma flutti Guisti-fjölskyldan til borgarinnar og fjárfesti í ullariðnaðinum og efnaðist vel. Á þeim tíma var svæðið sem garðurinn stendur í dag notað undir verksmiðjur sem suðu og lituðu ull í risastórum pottum og lögðu hana út til þerris.

Þegar á fimmtándu öld viku verksmiðjurnar og fjölskyldan reisti sér látlausa höll sem sneri að götunni og ræktaði garð á verksmiðjusvæðinu aftan við hana.

Auðvelt er að villast í völundarhúsinu þrátt fyrir að hekkið sé ekki nema tæpur metri að hæð.

Garðurinn er að hluta í klassískum ítölskum stíl, skipt í níu minni og symetríska garða. Í anda þess tíma var sýprus- og ýviðartrjám plantað meðfram göngustígum og í bakgrunninn. Buxus eða fagumlim var mótað í form, kúlur og limgerði klippt eftir reglustiku. Í garðinum eru vel snyrtar grasflatir, blómaker og kryddjurtagarður,  fjöldi klassískra höggmynda, gosbrunnar og manngerðra hella og var einn þeirra í eina tíð alsettur speglum. Þar eru einnig lítil sæluhús sem gott er að skýla sér í fyrir sólinni og kæla sig niður á heitum sumardögum.

Brugmansia 'Feingold', eða englalúður.

Þrátt fyrir að garðurinn sé að mestu í upprunalegri mynd hefur hann verið endurnýjaður og endurbættur á margan hátt. Árið 1786 var hannað í garðinn klassískt völundarhús úr buxusrunnum sem auðvelt er að villast í þrátt fyrir að hekkið sé ekki nema tæpur metri að hæð. Í seinni tíð hefur Brugmansia 'Feingold', eða englalúður, sem er stórblómstrandi planta af náttskuggaætt, verið plantað í garðinn til skrauts. Í garðinum eru líka sítrónuplöntur í pottum, klifurplöntur og skuggþolnar þekjuplöntur í beðum. Þar er einnig tjörn við einn gosbrunninn með skrautfiskum.

Sveppur og litadýrð á gömlum ývið sem farinn er að láta á sjá.

Vanræksla og órækt

Við upphaf þarsíðustu aldar var garðurinn kominn í órækt og niðurníðslu vegna vanrækslu. Vel formaðir runnarnir og völundarhúsið var vaxið úr sér og illgresi hafði yfirtekið beðin, blómakerin og grasflatirnar.

Árið 1930 var svo komið að garðurinn lá undir skemmdum og ráðist var í miklar endurbætur á honum.

Garðurinn varð illa úti í vitfirringu seinni heimsstyrjaldarinnar. Tré lögðust á hliðina í sprengjuárásum og margar stytturnar bera þess enn merki að hafa orðið fyrir skemmdum. Ráðast þurfti í gagngerar endurbætur á garðinum í stríðslok, reisa við fallin tré og planta nýjum og hefur garðinum verið sýndur sá sómi sem honum ber og vel við haldið síðan þá.

Garður á tveimur hæðum

Eitt af því sem kemur á óvart við garðinn er að hann er á tveimur hæðum. Neðri hluti hans og sá formlegri liggur í eylítið aflíðandi brekku frá innganginum upp að talsvert háum en vart sjáanlegum klettavegg.

Við göngustíginn undir klettinum er steinturn sem byggður er utan í klettinn.

Í miðjum garðinum, milli há­vax­inna sýprustrjáa, eru breiðar steintröppur sem liggja eftir honum endilöngum en til beggja hliða buxusar sem mynda fögur munstur og þar eru líka höggmyndir af grísku gyðjunum Díönu og Venus og guðunum Appolo og Adónis.

Þegar innar dregur í garðinn, meðfram sýprustrjáasúlunum og framhjá gosbrunnunum, sjást fagurlega skreyttar svalir efst á klettaveggnum og undir þeim stór ufsagrýla sem blásið gat eldi út um munninn þegar mikið stóð til.

Kjaftur ufsagrýlunnar, undir svölum efrigarðsins, átti það til að spúa eldi sem magnaður var með fýsibelg.

Við göngustíg undir klettinum er steinturn sem byggður er utan í klettinn. Í turninum eru slitnar hringlaga steintröppur sem leiða gesti upp í látlausan og eilítið villtan efri garðinn. Sagan segir að vel hirtir villigarðar eins og þessi hafi þótt tilvaldir fyrir unga aðalsmenn og -meyjar endurreisnartímabilsins til að stunda í feluleiki, daðra og kyssast á laun.

Malarstígur frá útgangi turnsins í efri garðinum leiðir gesti að svölum, með fallega munstruðu handriði, sem bjóða upp á stórkostlegt útsýni yfir Verona og að virða garðinn fyrir sér frá sjónarhorni fuglsins. Í efri garðinum eru líka bekkir þar sem hægt er að setjast niður í skugga trjáa.

Sítrusarækt og útflutningur

Eystri hluti neðrigarðsins er ólíkur aðalgarðinum að því leyti að í dag er hann að mestu grasflöt en var matjurtagarður fyrr á tímum. Við austurvegg garðsins er að finna orangerý, eða gróðurhús, sem notað var til að rækta sítrónur og appelsínur fyrir heimilið og voru sítrusarnir einnig seldir aðalsfólki í Evrópu og til hirðarinnar í Rússlandi.

Við austurvegg garðsins er að finna orangerý, eða gróðurhús, sem notuð voru til að rækta sítrónur og appelsínur.

Í austurveggnum er einnig innskot með myndarlegri höggmynd af guði jurtagróðurs, gleði og víns, Dionysos eða Bakkusi, þar sem hann heldur á vínberjaklasa og með lærisvein sér við hlið.

Stytta af gleðiguðinum Bakkusi þar sem hann heldur á vínberjaklassa.

Tignir gestir

Helsti hvatamaður að gerð garðsins var Agostino Giusti sem uppi var á árunum 1548 til 1615. Auk þess að vera áhugasamur um garðlist lét hann sér annt um mynd- og tónlist og léku lútuleikarar iðulega snemmbarrokk tónlist eða undirleik fyrir castrato-söng í garðinum fyrir tigna gesti.

Agostino var vel kynntur háaðlinum um alla Evrópu og gestkvæmt var í garðinum þegar tignir gestir heimsóttu Verona. Mikilmenni eins og Cosimo De Medici, Jóseph II keisari og Fransis I keisari af Austurríki og faðir Maríu Lúísu, eiginkonu Napóleons. Alexander I Rússakeisari, skáldin Púskin og Goethe og tónskáldið Mozart hafa einnig heimsótt garðinn og heillast af honum. Alveg eins og Vilmundur Hansen þegar hann heimsótti garðinn í haust og varði einni dagsstund til að njóta hans.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...