Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Fái kýr að velja sjálfar vilja þær þurrt og mjúkt legusvæði eins og t.d. sand.
Fái kýr að velja sjálfar vilja þær þurrt og mjúkt legusvæði eins og t.d. sand.
Mynd / Snorri Sigurðsson
Á faglegum nótum 3. október 2024

Góð velferð kúa er summa margra þátta

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Að eiga endingargóðar kýr er hverju kúabúi mikilvægt og áherslur á endingu kúa má sjá nú orðið í nánast öllum löndum þar sem mjólkurframleiðsla er stunduð.

Góð ending kúa þýðir ekki einungis að kúabúið verði betur rekið vegna aukinna afurða og lægri uppeldiskostnaðar kúa, heldur einnig hefur það góð áhrif á sótspor búsins að vera með hraustar og öflugar kýr.

Heilbrigðar kýr

Ein mikilvægasta forsenda góðrar endingar kúa er að þær séu heilbrigðar og til þess að svo megi verða þarf að huga sérstaklega að velferð þeirra. Í yfirlitsgrein, úr tímaritinu Journal of Dairy Science, hefur þetta verið tekið sérstaklega fyrir en greinina skrifar bandaríski vísindamaðurinn dr. Nigel B. Cook frá háskólanum í Wisconsin. Cook þessi gerði sérstaka úttekt á því hver tengsl góðrar velferðar og góðrar endingar væru og horfði þar sérstaklega til atriða sem fullnægja sem best legu- og hvíldaratferli kúa í fjósum enda liggur fyrir að innan fjósa getur ýmislegt verið í umhverfinu eða hönnun þess sem hefur neikvæð áhrif á þetta atferli.

Enn fremur er þekkt að ef kýr þurfa að velja á milli t.d. fóðurs og þess að hvílast, þá velja þær að hvílast ef þær hafa takmarkað aðgengi að báðum þáttum, þ.e. þær velja sem sagt frekar að vera svangar og í staðinn að geta hvílt sig ef það er einungis í boði. Aðstaðan, aðgengið og bústjórnin í kringum bása og legusvæðið þarf að tryggja svo kýrnar geti alltaf legið þegar þær vilja og þá þurfa þær að geta legið þægilega og óáreittar eins lengi og þær þurfa á því að halda.

Summa margra þátta

Góð velferð kúa er summa margra þátta og þessir þættir geta auk þess verið harla breytilegir á milli kúa, þ.e. hvað skiptir viðkomandi kú mestu máli. Að því gefnu að legan sé kúnni einna mikilvægust, er þó ákveðinn rauður þráður í þessu sem hægt er að fylgja. Með því að staðla sem mest ytra umhverfi kúnna, og það hvernig bústjórninni er háttað, má draga verulega úr breytileikanum á milli kúa og auka líkurnar á því að legu- og hvíldaratferli kúnna verði sem best. Á mynd 1 má sjá samantekt dr. Cook á því sem hann telur mikilvægustu áhrifaþætti á velferð kúa. Þar kemur m.a. fram að mikilvægur þáttur varðandi velferð kúa er möguleikinn á göngu og hreyfingu, þá þarf fóðrun og aðgangur að vatni að vera í lagi. Umhverfi þeirra þarf auk þess að vera gott og taka tillit til þarfa kúnna.

Velferð kúa er summa margra þátta og hér sjást þeir sem er mikilvægastir samkvæmt yfirlitsgrein dr. Cook.

Breytileiki á milli kúa

Þegar horft er til einstakra kúa eru þarfir þeirra nokkuð ólíkar, þegar kemur að því að uppfylla þarfir þeirra hvað varðar legu- og hvíldaratferli. Þar skipta máli þættir eins og aldur, staða á mjaltaskeiði, afurðasemi, heilbrigði og/eða helti. Þannig hefur t.d. legutími tilhneigingu til að aukast með aldri og stöðu innan mjaltaskeiðsins og ef um heilsubrest er að ræða. Að sama skapi er afurðasemin með neikvætt samhengi við legutímann, þ.e. eftir því sem hann eykst minnkar hún.

Legutími er ekki allt

Helti eða fótamein kúa hefur einnig augljós áhrif á velferð kúa en áhrifin eru þó einnig tengd undirlagi legusvæðis kúnna og hönnun gangsvæða. Skýringin á því er að ef undirlagið er ekki rétt hannað geta kýr sem eru með helti eða annað fótamein átt erfitt með að standa á fætur og/ eða leggjast niður auk þess að geta átt erfitt með gang. Almennt á það við um kýr í þessu ástandi að þegar þær loks leggjast niður, þá reyna þær að liggja lengur en ella og leguloturnar innan sólarhringsins eru því færri en lengri en annarra kúa. Kýr sem er svona ástatt með mælast oft með lengri legutíma innan sólarhrings en aðrar kýr en þar með er s.s. ekki sagt að þeirra velferð sé betri en hinna. Mæling á heildarlegutíma einum og sér er því ekki nógu góður ávitull á velferð kúa en víða um heim er legutími kúa einmitt notaður sem einhvers konar mælikvarði á góða velferð kúa, þetta er með öðrum orðum sagt einfaldlega röng aðferð við að meta velferð.

Hönnun legusvæðis

Þegar horft er til annarra þátta þá hafa margar rannsóknir sýnt fram á að legusvæðið sem slíkt, og innrétting þess, skipta kúna miklu máli svo hún geti fengið fullnægt sínum þörfum til að hvílast. Séu kýr hafðar í legubásafjósi er það fyrst og fremst stærð legubássins sem skiptir máli. Sé básinn nógu breiður og langur fyrir kúna, og ef ekki eru einhverjar innréttingar til staðar sem trufla hreyfiferil hennar við að leggjast niður og standa upp, þá verður legutíminn lengri. Á það hefur verið bent, t.d. í Danmörku, að fjós sem voru byggð upp úr síðustu aldamótum, gætu í dag verið með of litla legubása enda kýr stækkað á tveimur áratugum samhliða betri umhirðu og erfðaframförum. Greinarhöfundi er ekki kunnugt um gögn hér á landi sem benda til þess að þetta geti einnig verið tilfellið hér á landi svo það er ekki hægt að útiloka.

Til viðbótar við stærð legusvæðisins og innréttinganna má nefna atriði eins og aðgengi kúa að legusvæðinu, loftræstingu, mögulegum smástraum eða trekk sem einnig getur haft áhrif á kúna þegar hún velur sér legusvæði. Því er mikilvægt að bændur fylgist vel með kúnum og þá sér í lagi hvort ákveðin svæði innan fjóssins séu óvinsælli en önnur sem gæti bent til þess að eitthvað sé að og þurfi að bæta úr.

Undirlagið sjálft

Sé litið til einstakra þátta, sem hafa mest afgerandi áhrif á möguleika kúnna til að liggja eins lengi og þeim sjálfum hentar, þá er það undirlagið sem mestu máli skiptir og þá bæði mýkt þess og gerð. Algeng tegund undirlags kúa í dag eru einhvers konar legudýnur og eru á markaðinum ótal mismunandi tegundir og allar eiga þær það sameiginlegt að reyna að skapa kúnum mjúkt og þægilegt undirlag. Ofan á svona dýnur þarf svo að setja einhvers konar þurran undirburð til þess að draga til sín raka frá kúnum og halda legusvæðinu hreinu. Sé undirlagið ekki þurrt liggja kýr skemur en sé það þurrt, það er því mikilvægt að passa upp á að undirlagið sé alltaf sem þurrast.

Undanfarna 2 áratugi hefur verið nokkuð um það að endurnýta mykju þannig að hún er sett í gegnum vindu og úr henni búnar til svokallaðar mykjutrefjar. Þessar mykjutrefjar má svo nota sem undirburð í legusvæði kúa, annað hvort ofan á einhvers konar dýnur eða einfaldlega sem þykkt lagt sem kýrnar svo liggja í. Bandarísk rannsókn á svona mykjutrefjum sýndi að mjög miklu máli skipti fyrir kýrnar að þessar trefjar væru þurrar, en strax eftir framleiðslu þeirra er þurrefnishlutfall þeirra oft í kringum 30%. Séu mykjutrefjarnar aftur á móti látnar þorna vel, upp fyrir 85%, þá svöruðu kýrnar með því að liggja lengur en ef mykjutrefjarnar voru með lágt þurrefnishlutfall. Ætla má að sömu rök gildi um allan annan undirburð, þ.e. að halda eigi legusvæðinu þurru. Það hefur svo auk þess þau áhrif að líkurnar á því að bakteríur haldi sig þar eru minni en ella og hætta á umhverfissmiti sem veldur júgurbólgu því einnig minni.

Kýrnar velja sand

Undanfarin ár hefur orðið mikil og ör breyting í fjósum víða um heim, þar sem sigtaður sandur er orðið notaður sem undirlag fyrir kýr og geldneyti. Þetta náttúrulega efni hentar einstaklega vel fyrir nautgripi enda sé því haldið þurru og mjúku er fátt betra fyrir nautgripi að liggja á enda gefur sandur vel eftir og lagar sig að líkamanum, rétt eins og fólk upplifir þegar það liggur í sandi á sólarströnd. Auk þess er sandurinn mjúkur og því einkar þægilegt fyrir nautgripi að standa á fætur, eða leggja sig, sé legusvæðið þakið þykkum sandi. Sandur í legusvæðinu gerir því það að verkum að legulotur kúa verða nær því sem þær vilja helst sjálfar ef allt væri eins og best sé á kosið. Þess utan hafa rannsóknir sýnt að gripir sem eru með einhvers konar helti eða fótamein jafna sig fyrr þar sem sandur er í undirlaginu.

Vatnsdýnur ekki lausnin

Erlendis hefur notkun á vatnsfylltum dýnum í legubásum kúa vaxið nokkuð ásmegin en bæði bandarískar og kanadískar rannsóknir sýna þó að svona undirlag hentar í raun ekki vel fyrir kýr sem velja oft að liggja á svona básum í stuttum legulotum og auk þess er tíðni heltis í fjósum með svona bása hærri en gerist og gengur en skýringin er einfaldlega sú að þrátt fyrir að vatnsdýnur í legubásum geti gefið kúnum ágætis legusvæði þá eru dýnurnar þunnar og þegar kýrnar standa á fætur, eða leggjast niður, þá þrýstist dýnan saman og verður í raun allt of hörð undir fótum kúa. Þær merjast því við þetta, þ.e. við síendurtekna hreyfiferla, og fá eymsli í fæturna.

Vatnsdýnur gætu virkað, við fyrstu sýn, einkar heppilegar fyrir kýr en rannsóknir sýna að kýr í fjósum með svona dýnum eru oft með einhver fótamein. Mynd / AgriExpo

Legutími og afurðasemi

Þrátt fyrir framansagt sýnir samantekt dr. Cook at það er ekkert öruggt samhengi á milli lengri legutíma og afurðasemi en skýringin á þessu felst í því að samhengið þarna á milli er einnig mjög tengt kúnni sjálfri, þ.e. stöðu á mjaltaskeiðinu, heilbrigði hennar, aldri o.s.frv. Með öðrum orðum þá er ekki hægt að gefa upp einhverja sérstaka tölu um legutíma kúa fyrir bændur að miða við. Aðstaðan og aðbúnaðurinn þarf einfaldlega að vera þannig að allar kýr eiga að geta legið samtímis á þægilegu undirlagi og svo er það undir hverri þeirra að ákveða hve oft og hve lengi hún vill liggja.

Bústjórn

Að síðustu þarf að nefna hér bústjórnina sjálfa enda er til lítils farið af stað ef allt sem hér að framan hefur verið sagt hefur verið gert og því fræðilega séð um fullkomna aðstöðu að ræða, en svo hindrar aðgengi að legusvæðinu nýtingu þess. Allt of oft, sér í lagi erlendis, gerist það að bændur eru með of þétt á gripum sínum þ.e. hafa jafnvel fleiri gripi en legusvæði sem auðvitað er óheimilt. Einnig er alls ekki öruggt að þó svo að jafnmörg legusvæði og gripir séu til staðar að þau nýtist sem slík. Stundum gerist það t.d. að lægra settir gripir þori hreinlega ekki að leggjast við hlið hátt settra gripa. Fyrir vikið nýtist legusvæðið ekki nógu vel. Það er því góð þumalfingursregla að hafa dálítið aukarými í fjósum.

Heimildir: Cook. N.B., 2020. The impact of management and facilities on cow culling rates, J. Dairy Science og Strudsholm F., 2020: Lang produktiv levetid kræver sunde ældre malkekøer, Magasin Kvæg.

Skylt efni: velferð kúa

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...