Gróðurhúsalofttegundir í landbúnaði og metan
Árið 2023 var heitasta ár mannkynssögunnar svo vitað sé og um leið það ár þar sem mest hefur verið losað af gróðurhúsalofttegundum á heimsvísu til þessa.
Það er því mjög mikilvægt að fræðast um þær lofttegundir sem valda gróðurhúsaáhrifum og finna leiðir til þess að draga úr losun þeirra.
Samfélagslosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi
Samfélagslosun á Íslandi var árið 2022 2,8 milljónir tonna CO2-ígilda.
Þetta eru nýjustu tölur úr loftslagsbókhaldi Íslands sem kom út í lok síðasta mánaðar. Með samfélagslosun er vísað til losunar sem er á beina ábyrgð einstakra ríkja, þ.e.a.s. þeirrar losunar sem hægt er að hafa mest áhrif á og sem er um leið sú losun sem ríki þurfa að greiða fyrir ef þau uppfylla ekki skuldbindingar sínar. Samfélagslosunin stóð í stað á milli áranna 2021 og 2022 en hefur dregist saman um 11% frá árinu 2015. Næststærstur hluti samfélagslosunarinnar á Íslandi er frá landbúnaði. Vegasamgöngur eru í fyrsta sæti með 33% þessarar losunar, landbúnaður með 22% og fiskiskip um 17%.
Losun frá landbúnaði var árið 2022 þúsund tonn CO2- ígilda. Á milli áranna 2021 og 2022 varð samdráttur upp á 16 þúsund tonn CO2-ígilda sem skýrist að miklu leyti af fækkun búfjár. Iðragerjun og meðhöndlun búfjáráburðar er uppspretta 56% losunar frá landbúnaði og skiptir þar gróðurhúsalofttegundin metan einna mestu máli.
Hvað er metan (CH4)?
Metan er gróðurhúsalofttegund sem stuðlar að loftslagsbreytingum. Þrjár helstu gróðurhúsalofttegundirnar sem stuðla að hlýnun jarðar eru koltvísýringur (CO2), metan (CH4) og nituroxíð (N20). Metan er lit- og lyktarlaus lofttegund sem jórturdýr skila frá sér en verður einnig til við gerjun lífrænna efna sem hafa verið urðuð og frá votlendi. Metan er mjög öflug gróðurhúsalofttegund og er um 28 sinnum öflugra en koltvísýringur og um 20% gróðurhúsaáhrifa á heimsvísu má rekja til þess.
Af hverju framleiða jórturdýr metan?
Jórturdýr eins og nautgripir og sauðfé melta og framleiða orku úr trénisríku fóðri sem einmaga dýr geta ekki nýtt. Nýting þessa trénisríka fóðurs verður fyrir tilstilli gerjunar sem fer fram í vömb. Þar brjóta örverur niður tréni og mynda rokgjarnar fitusýrur sem nýtast sem orkugjafar fyrir gripina. Í meltingarferlinu losna einni koltvíoxíð og vetni. Gripirnir losa sig við vetnið á þann hátt að örverur framleiða úr því metan sem gripirnir síðan ropa.
Hverfur metan úr andrúmsloftinu?
Á meðan koltvísýringur og nituroxíð eru í andrúmsloftinu í hundrað ár, brotnar metan niður innan fárra áratuga. Þrátt fyrir hraðara niðurbrot leggur metanið mikið til hækkunar hitastigs á meðan það er til staðar í andrúmsloftinu. Þar sem framleiðsla metans heldur sífellt áfram viðhelst magn þess í andrúmsloftinu, þrátt fyrir að það brotni hratt niður. Ef tekst að minnka framleiðslu metansins lækkar styrkur þess í andrúmsloftinu hratt sem dregur úr gróðurhúsaáhrifum.
Hvaða leiðir er hægt að fara til að minnka metanlosun?
Góðir og vandaðir búskaparhættir eru mikilvægir til þess að minnka losun metans frá jórturdýrum. Í verkefninu Loftslagsvænum landbúnaði vinna bændur að því að gera búskapinn sinn sjálfbærari með
loftslagsvænum búskaparháttum.
Á vefnum www.loftslagsvaenn landbunadur.is má finna fræðsluefni um sjálfbæra búskaparhætti og leiðir til þess að draga úr metanlosun þar sem nánari umfjöllun má finna um atriðin í listunum sem hér fylgja.
Aðgerðir sem hægt er að vinna að strax til þess að minnka losun í sauðfjárrækt
- Hámarka fjölda lamba til nytja
- Taka heysýni
- Halda tréni í fóðri í lágmarki
- Rækta smára í túnum
- Láta gemlinga bera og vinna markvisst gegn lambaláti • Saxa fóður vel
- Gott sauðburðarskipulag og öguð vinnubrögð sem lágmarka vanhöld
- Nýta íblöndunarefni í fóður til að draga úr losun metans. Aðgerðir sem hægt er að vinna að strax til þess að minnka losun í nautgriparækt
- Auka afurðir á hvern grip
- Láta kvígur bera 23–24 mánaða
- Geldstaða sé ekki lengri en 60 dagar
- Hámarka vaxtarhraða gripa í kjötframleiðslu
- Nota íblöndunarefni í fóður til að draga úr losun metans
- Bæta fitu í fóður
- Slá fyrir skrið túngrasa til þess að tréni verði ekki of mikið í gróffóðrinu
- Nota smára í túnrækt
- Saxa fóðrið vel.