Hraustir kálfar skapa grunn að góðri framtíð
Það er gömul saga og ný að lengi búi að fyrstu gerð og þegar um smákálfa er að ræða er þetta líklega mun mikilvægara en um margt annað ungviði.
Reynslan sýnir nefnilega að möguleg skýring á því að kýr mjólkar minna en stallsystur hennar getur einfaldlega falist í því að eitthvað hafi misfarist á fyrstu vikum ævi hennar. Undanfarna áratugi hef ég flutt fyrirlestra og haldið námskeið í tugum landa um þetta og önnur atriði sem lúta að því að hámarka afrakstur kúabúa og þetta er það atriði, það er hvernig hlúð er að uppeldi smákálfa, sem oftast er ekki í lagi hjá kúabændum víða um heim.
Ein mistök kosta æviafurðir
Segja má að þegar kvíga fæðist þá sé hún þegar með allt sem þarf til að geta orðið góð kýr, þ.e. afurðalega séð, að því gefnu að að henni standi góðir foreldrar.
Stöðug ræktun nautgripa í meira en hundrað ár hefur leitt til erfðafestu þegar kemur að afurðatengdum eiginleikum, þó vissulega sé munur á milli gripa eins og gefur að skilja.
En víkjum aftur að upphafinu. Þegar kvígan fæðist má gera ráð fyrir því að hún hafi erfðaeiginleika til að framleiða mikið af mjólk á degi hverjum, þegar hún verður kýr í kringum tveggja ára aldurinn eða svo. Það dregur aftur á móti úr þessum möguleika hennar ef kúabóndinn gerir einhver mistök þannig að hún nái ekki að nýta þessa erfðatengdu eiginleika.
Þegar horft er til Holstein kúakynsins er þumalfingursregla að meðalafurðir kynsins í landinu svari til 50% mögulegrar erfðagetu.
Ef við heimfærum það upp á íslenska kúakynið þá er hægt að miða við, samkvæmt niðurstöðum skýrsluhaldsins á Íslandi í apríl, að möguleg reiknuð erfðageta sé nærri 13 tonn á ári! Þetta hljómar ótrúlega og tilfellið er að ekkert bú í heiminum, óháð kúakyni, nær að fullnýta erfðagetu gripanna því það koma alltaf upp einhver vandamál eins og gefur að skilja sem draga úr framleiðslugetunni.
Hvað vegur þyngst?
Það er í raun erfitt að segja hvaða atriði vegi þyngst en ef einungis er horft til fyrstu tveggja til þriggja mánaðanna í lífi kvígunnar má nefna atriði eins og of seina gjöf á broddmjólk, slök gæði broddmjólkur, skitutilfelli eða önnur sjúkdómstilfelli, rangur aðbúnaður, ónóg eða röng fóðrun, ranglega staðið að því þegar mjólkurgjöf er hætt og vafalítið mætti nefna fleira.
Fyrir mörgum kann þetta að virðast sem hálfgerð smáatriði, en tilfellið er að svona mistök geta hreinlega haft mjög mikil áhrif þegar frá líður. Þannig nær gripur ekki að vega upp með vexti eitthvað sem hefur bælt vöxtinn eða breytt vaxtarlínunni. Segjum sem svo að stefnt sé að því að gripurinn vaxi að jafnaði 650 grömm á dag fram að fyrstu sæðingu en vegna einhverra mistaka þá hafi dregið úr vexti á einhverjum tímapunkti frá fæðingu og fyrstu sæðingu.
Fyrir vikið nær kvígan ekki nægum þroska á réttum tíma og mögulega fyrst mánuði seinna eða jafnvel enn síðar. Þetta þýðir að hún festir fang seinna en bóndinn ætlaði og ber þar af leiðandi síðar en hann gerði ráð fyrir. Fyrirsjáanlegt er að þessi kvíga nái ekki að fullnýta sína mögulegu erfðagetu vegna mistaka sem urðu við uppeldi hennar.
Vaxandi áhersla á smákálfa erlendis
Það sést á greinaskrifum í erlendum tímaritum að ráðgjafar og vísindafólk er farið að gefa mun meiri gaum að uppeldi gripa og hve mikil áhrif rétt uppeldi hefur á framtíð viðkomandi grips.
Þannig er í dag sjúkdóma- og atvikaskráning orðin mun betri en hún var í mörgum löndum, þar sem bændur geta nú sett inn greinarbetri lýsingar á því hvernig hefur tekist til með uppeldið en áður.
Í Noregi er til dæmis sérstakt kerfi í notkun núna þar sem kúabúin fá sérstök stig þegar uppeldi á kálfum er metið. Út frá stigagjöfinni, sem er borin saman við landsmeðaltalið, má svo finna lausnir og ráð fyrir viðkomandi kúabú og/eða fara í aðgerðaráætlun.
Þessi stigagjöf kemur í kjölfar úttektar dýralæknis á viðkomandi kúabúi og er einkunnargjöfin einföld: 1, 2 eða 3 þar sem 1 merkir að allt sé í fínu lagi, 2 ef fáir kálfar víkja frá hinni bestu leið eða 3 þar sem margir kálfar eru veikir. Einfalt en áhugavert kerfi í raun sem gefur fljótt yfirsýn yfir stöðuna.
Hvað er til ráða?
Það er í raun ekki einfalt að gefa heildstætt ráð hvað varðar uppeldi á smákálfum en mikilvægast er að gera vinnuna einsleita svo líkurnar á mistökum verði sem minnstar.
Komi upp frávik þarf að bregðast skjótt við og taka á hlutunum svo ástandið versni a.m.k. ekki. T.d. ef kálfur sýnir einkenni veikinda, og er í hóp með öðrum, ber alltaf að taka hann út úr hópnum.
Þetta hefur tvenns konar tilgang. Annars vegar dregur það úr líkunum á því að ef eitthvað hrjáir kálfinn sem getur smitast að það berist í aðra kálfa en hins vegar eykur það líkurnar á því að eftirlit með þessum kálfi sé betra. Þannig er t.d. auðveldara að sjá hvort kálfurinn drekki og éti eins og til er ætlast svo dæmi sé tekið.
Þá er rétt að muna að kálfur sem sýnir einkenni um ofþornun þarf mun meiri vökva en aðrir kálfar og oft má koma kálfum hratt til bjargar með því að sinna vökvabúskap líkama hans rétt. Á markaðinum eru margs konar bætiefni og lausnir sem hjálpa kálfum að komast yfir margs konar vandamál en alltaf skal hafa í huga að kalla til dýralækni ef venjulegar aðferðir virðast ekki bera árangur.
Nýfæddur kálfur þarf að fá rétta broddmjólkurgjöf á réttum tíma, innan fyrstu tveggja tímanna eftir fæðingu og brodd af góðum gæðum og magni.
Þá ætti aðbúnaðurinn að vera góður.Mjúkt,hreintogþurrtlegusvæði gerir oft gæfumuninn og vonandi heyrir nú sögunni einni til í dag að láta kálfa á bert stíugólf eins og tíðkaðist oft áður fyrr. Þá ætti að tryggja öllum kálfum gott aðgengi að vatni, kjarnfóðri og góðu gróffóðri svo vöxtur hans og þroski verði sem mestur samhliða mjólkurfóðruninni fyrstu vikur lífsins.
Rétt er að benda á að víða á veraldarvefnum er til gott lestrarefni um uppeldi á kálfum sem óhætt er að mæla með, t.d. er gott lesefni um uppeldi í kennslubókinni um Nautgriparækt sem er aðgengileg á vef Bændasamtakanna, þar eru gefin ýmis handhæg ráð til þess að ná enn betri tökum á uppeldi gripa.