Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Hvað getum við öll lagt af mörkum?
Á faglegum nótum 1. desember 2022

Hvað getum við öll lagt af mörkum?

Höfundur: Guðrún Lind Rúnarsdóttir, fagsviðsstjóri lyfjamála Sigurbjörg Ólöf Bergsdóttir, sérgreinadýralæknir nautgripa- og sauðfjársjúkdóma Vigdís Tryggvadóttir, sérgreinadýralæknir súna og lyfjaónæmis

Í tilefni nýliðinnar vitundarviku um skynsamlega notkun sýklalyfja 18.-24. nóvember vill Matvælastofnun vekja athygli á að ný lög um dýralyf, sem byggja á Evrópureglugerð, hafa tekið gildi á Íslandi.

Þar kemur skýrt fram að ekki skuli beita sýklalyfjum reglulega eða nota þau til að bæta fyrir lélega hollustuhætti, ófullnægjandi dýrahald, skeytingarleysi eða til að bæta fyrir lélega bústjórn.

Lengi hefur verið bannað að nota sýklalyf sem fyrirbyggjandi meðferð (e. prophylaxis) nema í undantekningartilvikum. Slíkar undantekningar væru þá fyrir stök dýr, eða takmarkaðan fjölda dýra, þegar hætta á sýkingu eða smitsjúkdómi er mjög mikil og líklegt að afleiðingarnar yrðu alvarlegar fyrir dýrin. Lögin segja einnig að einungis skuli nota sýklalyf til verndarmeðferðar (e. metaphylaxis) þegar hætta á útbreiðslu sýkingar eða smitsjúkdóms innan hóps dýra er mikil og þegar engir aðrir viðeigandi kostir eru tiltækir. Verndarmeðferð er skilgreind sem lyfjagjöf til hóps dýra eftir að greining á klínískum sjúkdómi hefur verið staðfest í hluta hópsins með það fyrir augum að meðhöndla klínískt veiku dýrin og hefta útbreiðslu sjúkdómsins til dýra sem þau eru í náinni snertingu við og sem eru í hættu og gætu þegar verið með forklíníska sýkingu.

Hversu útbreidd er notkun sýklalyfja í nýfædd lömb hér á landi?

Hérlendis er vel þekkt að sýklalyf eru notuð reglulega gegn slefsýki af völdum E. coli sýkingar í nýfædd lömb ár hvert með því að gefa þeim svokallaðar „lambatöflur“. Þar er um að ræða lyf sem eingöngu eru markaðssett til notkunar í hunda og ketti. Samkvæmt sölutölum er áætlað að um 7% seldra pakkninga af sýklalyfjum til dýralækninga á Íslandi séu „lambatöflur“. Matvælastofnun hefur undanfarin ár unnið að vitundarvakningu meðal bænda og dýralækna um þessa útbreiddu notkun á sýklalyfjum í unglömb.

Matvælastofnun hefur greint notkun „lambataflna“ á árunum 2020-2022 með útreikningum byggðum á sölutölum að vori og fjölda fæddra lamba sem komast á legg. Í útreikningunum var gert ráð fyrir að hvert lamb hafi fengið 1⁄4af250mgtöflueðaeina50mg töflu. Samkvæmt því fengu 66% lambatöflur árið 2020, hlutfallið fór í 59% árið 2021 og stendur í stað árið 2022. Þannig er vísbending um að notkunin sé að dragast saman en samt sem áður er notkun á „lambatöflum“ mjög útbreidd í íslenskum sauðfjárbúskap.

En hver er raunveruleg þörf fyrir verndarmeðferð gegn slefsýki?

Frekari rannsóknir á orsökum og útbreiðslu slefsýki eru nauðsynlegar þannig að bændur og dýralæknar geti markvisst unnið gegn sjúkdómnum án þess að grípa þurfi til sýklalyfja. Nýlega fékk rannsóknarteymi á Keldum úthlutað styrk frá matvælaráðuneytinu til rannsóknar á E. coli stofnum í unglömbum. Stefnt er að því að safna hræjum af allt að 5 daga gömlum lömbum sem drepast úr slefsýki eða skitu næsta vor til stofnagreiningar. Samstarf við bændur og dýralækna er mikilvægur þáttur í þeirri vinnu.

Geta bændur beitt öðrum aðferðum til þess að fyrirbyggja sjúkdóminn?

Lengi hefur verið ljóst hvað þarf til þess að minnka smitálag á sauðburði, hreinleiki, aðbúnaður, þéttleiki o.s.frv. eru allt atriði þar sem menn geta bætt og eru atriði sem vega þungt til að fyrirbyggja sjúkdóminn.

Önnur fyrirbyggjandi aðgerð sem hefur reynst vel er að gefa lömbum Lamboost við fæðingu. Tilraun sem gerð var á Hesti í Borgarfirði síðastliðið vor bendir til þess að það hafi svipaða virkni og að gefa sýklalyf. Einnig nota margir þá aðferð að gefa lömbum AB-mjólk við fæðingu með ágætum árangri. Nokkrir bændur prófuðu síðastliðið vor að nota bóluefni gegn E. coli sem skráð er fyrir svín. Misjafnar skoðanir eru á árangri bólusetningarinnar og miðað við kostnað bólusetningar er óvíst að það svari kostnaði.

Af hverju er mikilvægt að minnka sýklalyfjanotkun?

Útbreiðsla sýklalyfjaónæmis er talin ein helsta heilbrigðisógn manna og dýra í dag og er notkun sýklalyfja talinn sá þáttur sem hefur hvað mest áhrif á uppkomu ónæmra sýkla. Of mikil eða röng notkun eru þar helstu áhættuþættirnir. Því er mikilvægt að leggja áherslu á rétta notkun sýklalyfja jafnframt því að draga úr notkun þeirra eins mikið og mögulegt er. Megináherslan ætti að vera á aðrar fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir að þörf sé á notkun sýklalyfja.

Matvælastofnun hvetur bændur til að huga að því hvar hver og einn getur lagt sitt af mörkum í þessari baráttu. Við höfum öll hlutverki að gegna!

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...