Hver er jólaréttur Íslendinga?
Nú, í síðasta tölublaði Bændablaðsins á þessu ári, er þess virði að líta til þess hvaða kjöt fólk kýs einna helst að borða yfir hátíðarnar og í aðdraganda þeirra. Ef ímynd jólanna stenst ættu tölur yfir sölu og innflutning að sýna að kjötát aukist yfir hátíðarnar og að aðallega myndi aukningin skiptast á lambakjöt og svínakjöt þar sem þetta er tíminn þar sem fólk seðjar hungrið með hamborgarhrygg, purusteik og hangikjöti.
En ef rýnt er í tölurnar þá sést að í desember undanfarinna þriggja ára selst minna af kjöti en í meðalmánuði. Meðalneysla desembermánaðar er 2.305 tonn en meðaltal ársins er 2.564,2 tonn. Þetta er 10% samdráttur frá meðaltali kjötneyslu á landinu.
Einnig er áhugavert að sjá að ekki er hægt að treysta á að sala svínakjöts eða kindakjöts aukist í desember. Hér er stuðst við sölu áranna 2020 og 2021 og sést þá að árið 2020 var kindakjötssala í desember rétt undir meðaltali en árið 2021 var hún rétt yfir meðaltali. Öfugt er farið með svínakjötið. Þar er salan rétt yfir meðaltali árið 2020 en undir því 2021. Þegar horft er yfir töflur sem sýna frávik frá meðal mánaðarsölu sést að fyrir utan lambakjöts- og hrossakjötssölu rétt eftir sláturtíð á haustin, og samdrátt í mánuðunum fram að því, er lítið hægt að reiða sig á árstíðabundna söluaukningu í einstaka kjötflokkum, þó fyrir utan það að í desember áranna tveggja í þessu úrtaki dró úr sölu bæði alifugla- og nautakjöts.