Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Ljón eru letidýr.
Ljón eru letidýr.
Á faglegum nótum 6. desember 2019

Í gini ljónsins

Höfundur: Vilmundur Hansen

Fátt er skemmtilegra en að hossast í opnum og vel styrktum Land Rover um gresjur dýraverndarsvæða og skoða ljón, fíla, gíraffa og fleiri dýr í návígi. Reynsla af þessu tagi er ný fyrir mig því fram til þessa hef ég lagt áherslu á að heimsækja grasagarða en haft lítinn smekk fyrir dýragörðum.

Á verndarsvæðum fyrir villt dýr fá dýrin að ganga frjáls innan girðinga verndarsvæðisins. Í Suður-Afríku er að finna mörg slík svæði sem bæði eru í einkaeigu eða rekin af hinu opinbera og kallast þá þjóðgarðar. Stærst þessara verndarsvæða er Kruger-þjóðgarðurinn.

Að þessu sinni voru heimsótt þrjú minni dýraverndarsvæði sem öll bjóða upp á ólíka reynslu. Tvö þeirra eru í einkaeigu Garden Rout Game Lodge og Scholtía Safaris, en eitt er rekið fyrir opinbert fé, Addo Elephant National Park.

Satt besta að segja finnur maður fyrir styrk fullorðins fílstarfs þegar hann gengur í áttina að manni.

Ólíkar áherslur

Af einkagörðunum bauð Garden Rout Game Lodge upp á mest þægindi og þar mátti auk þess sjá blettatígur. Scholtía Safaris var aftur á móti að mínu mati skemmtilegri upplifun. Eins og nafnið gefur til kynna er Addo-þjóðgarðurinn upphaflega hugsaður sem verndarsvæði fyrir fíla en í dag er þar að finna fjölda annarra dýra.

Hin fimm stóru

Í Afríku er iðulega talað um hin fimm stóru dýr. Ólíkt því sem ég hélt er ekki átt við stærð dýranna og gíraffar því ekki taldir með. Skilgreining hinna fimm stóru kemur úr máli skotveiðimanna og þar er átt við þau fimm dýr sem hættulegast er talið að veiða; ljón, hlébarðar, nashyrningar, fílar og buffalóar.

Öll þessi dýr geta hæglega drepið menn, hvort sem er sem bráð eða ef dýrunum finnst þeim ógnað. Við sem fórum saman í ferðina vorum því vöruð við að sýna óþarfa snöggar hreyfingar og hvað þá að fara út úr bílum meðan á safaríferðunum stóð. Satt best að segja kom mér á óvart hversu nálægt dýrunum við gátum farið en að sögn landvarðanna sem stjórnuðu safaríinu eru dýrin orðin vön bílunum og vita að af þeim stafar ekki ógn og láta þá yfirleitt afskiptalausa. Helst eru það gamlir fílstarfar og nashyrningar sem láta til sín taka og fyrir kemur að þeir reyni að ráðast á bílana.

Fílafjölskylda, tarfur, kýr og kálfur.

Af saklausari dýrum og ekki saklausum dýrum sem sáust í skoðunarferðunum má nefna antilópur, vörtusvín, strúta, stökkhafur, krókódíla, gný og gíraffa auk fjölda fuglategunda.

Fimm ára þurrkur

Landslagið og gróðurinn á öllum verndarsvæðunum bar þess merki að stór svæði í Suður-Afríku hafa mátt þola þurrka undanfarin fimm ár. Ástandið í landinu er þannig að alls staðar er fólk beðið um að spara vatn og á köflum milli úrkomu þarf að færa dýrunum á sumum verndarsvæðunum vatn á tankbílum en á öðrum hefur verið borað eftir vatni og því dælt upp djúpt úr jörðu.

Gróðurinn ber þess greinileg merki að úrkoma er ekki næg. Grasið er víða sölnað og helst próterur, akasíur og þyrnililjur eða aloa-tegundir með djúpar rætur sem standa upp úr þótt margar þeirra séu skrælnaðar af þurrki. Innfluttir fíkjukaktusar þola þurrkinn vel og fjölga sér hratt á verndarsvæðunum og er víðast litið á þá sem ágenga tegund sem reynt er að halda í skefjum.

Blettatígurslæða með unga.

Dag- og nætursafarí

Þrátt fyrir að upplifunin í görðunum hafi verið ólík var þema þeirra það sama, eða safaríferð þar sem ekið er um og leituð uppi þau dýr sem hvert verndarsvæði hefur upp á að bjóða. Á báðum einkasvæðunum var boðið upp á morgun- og næturferðir þar sem ólík dýr eru á ferð á ólíkum tímum.

Fyrstu dýrin sem fyrir augu bar í þessum safaríferðum voru flóðhestar marandi upp að haus í vatni og skömmu síðar hvítir nashyrningar. Litlum sögum fer af flóðhestunum í þeirri ferð en hvítir nashyrningar sem sáust eru ótrúleg dýr að sjá í sínu náttúrulega umhverfi þar sem þeir reika um gresjurnar og bíta gras.

Þeir eru, eins og flest dýrin sem maður hefur séð í venjulegu sjónvarpi, stærri en maður ímyndar sér og geta karldýrin vegið allt að 2,3 tonn en kvendýrin eru minni og vega tæp tvö tonn. Nashyrningar eru með þykka húð sem stundum lítur út eins og hún passi illa og sé að minnsta kosti tveimur númerum of stór.

Heitið hvítur nashyrningur byggir á þýðingarvillu. Hollendingar, sem fyrstir settust að í Suður-Afríku, gáfu hvítum nashyrningum nafn eftir lögum kjaftsins og kölluðu þá wijd eða víðkjafta. Bretar misskildu orðið wijd sem white og gáfu nashyrningunum heitin hvítir og svartir nashyrningar en í raun eru báðar tegundir gráar að lit.

Allar tegundir nashyrninga sem eftir eru í heiminum í dag eru í hættu á að verða útrýmt og verði ekkert gert til að stöðva ólöglegar veiðar á þeim og ólöglega verslun með nashyrningahorn fljótlega er talið að dýrin deyi út á næstu 30 árum. Reyndar er ástandið svo slæmt að fólk er beðið um að birta ekki myndir af nashyrningum á samfélagsmiðlum sem teknar eru á verndarsvæðunum þar sem vitað er að veiðiþjófar notfæra sér myndirnar til að staðsetja dýrin.

Flóðhestar eru stuttfættir og tunnulaga

Síðar í annarri safaríferð sáust flóðhestar vel á landi. Þrátt fyrir að flóðhestar séu með stærri landdýrum virka þeir fremur litlir. Þeir eru tunnulaga á stuttum fótum en með stóran haus og gríðarstóran kjaft sem þeir geta hæglega drepið krókódíla með. Í dag finnast flóðhestar í Suður-Afríku einungis innan verndarsvæða þar sem þeir eyða stórum hluta lífsins í vatni og ganga helst á land til að bíta gras á nóttunni. Þeir eiga líka til að bíta á daginn sé fæða takmörkuð.

Fullvaxinn karlkyns flóðhestur getur verið tvö tonn að þyngd.

Fullvaxinn karlkyns flóðhestur getur verið tvö tonn að þyngd og kvendýrið 1,7 tonn en yfirleitt eru dýrin minni og þeir verja búsvæði sitt af hörku. Flóðhestar geta hlaupið á um 30 kílómetra hraða á klukkustund, verið á kafi í sex mínútur og lifað í um það bil 40 ár.

Blettatígur á veiðum

Næst í röð dýra sem fyrir augun bar var blettatígurslæða með fimm um það bil hálfs árs gamla kettlinga og hjörð af antilópum, sebrahestum og gnýjum.

Blettatígurslæðan var mjóslegin og að sögn landvarðarins nánast alla daga í leit að bráð þar sem kettlingarnir eru frekir til fæðunnar og ekki enn farnir að taka þátt í veiðunum. Helsta fæða blettatígurs eru stökkhafrar og minni antilópur sem þeir hlaupa uppi á miklum hraða.

Grasbítar eins og antilópur, gnýr og sebrahestar eiga það til að halda hópinn og er talið að dýrin geri það til að auka öryggið því betur sjá augu en auga og betur heyra eyru en eyra ef rándýr nálgast í veiðihug.

Fílar á ferð

Afrískir fílar eru stór dýr og getur fullvaxinn tarfur vegið vel á sjötta tonn og verið fjórir metrar á herðakamb. Þrátt fyrir að við höfum séð fíla á öllum verndarsvæðunum sem við heimsóttum eru fílar í Afríku sagðir vera í útrýmingarhættu þrátt fyrir að fjöldi þeirra fari vaxandi. Líftími fíla getur verið um 70 ár, eða svo lengi sem jaxlar þeirra halda áfram að endurnýjast og þeir geti étið.

Meðganga fíla er 22 mánuðir og við fæðingu eru kálfar um 100 kíló að þyngd og eftir að þeir komast á fætur lifa þeir aðallega á mjólk eða þar til þeir hafa náð stjórn á rananum. Fílar eru félagslyndir og móðirin og hjörðin gætir unga vel fyrstu árin. Júgur kvendýranna eru á milli framfótanna en ekki afturfótanna eins og hjá flestum ferfættum spendýrum.

Fílar eru grasbítar sem krafsa upp rætur þegar yfirborðsgróður er af skornum skammti og þeir geta hæglega velt háum trjám um koll til að komast að laufi sem vex ofan við þá hæð sem rani þeirra nær. Fílar ganga iðulega langar leiðir milli beitarsvæða og fara oftast sömu leiðina fram og til baka árum saman og fílagötur því algengar í gegnum þétt gróðurlendi. Ungir tarfar yfirgefa eða eru reknir úr hjörðinni og ráfa oft einir eða nokkrir saman alla ævi eða þar til þeir ná yfirráðum yfir eigin hjörð með því að skora ríkjandi karldýr á hólm.

Fáir gera sér líklega grein fyrir því hversu stórir fílstarfar geta verið og sjálfum þótti mér nóg um þegar Land Roverinn vakti athygli tarfs við eitt vatnsbólið og hann ákvað að skoða farþegana betur. Satt besta að segja finnur maður fyrir styrk fullorðins fílstarfs sem vitað er að hefur drepið fullvaxinn buffalóa og stálpaðan flóðhest þegar hann kemur að þér og horfir á þig úr hálfs metra fjarlægð.

 

Við fyrstu sýn virðast buffalóar ekki hættuleg dýr en þegar nær dregur sést vel hversu stór og sterkleg dýrin eru.

Buffalóar, sebrahestar og kúdú

Við fyrstu sýn virðast buffalóar ekki hættuleg dýr en þegar nær dregur sést vel hversu stór og sterkleg dýrin eru. Kvendýrin eru milli 550 til 700 kíló að þyngd en tarfarnir 650 til 700 kíló. Bæði kynin eru með stór, sterk og útstæð horn sem þau verja sig með. Yfirleitt eru tíu dýr saman í hóp þar sem eitt karldýr ræður ríkjum en einnig eiga ung karldýr það til að halda hópinn.

Sebrahestar eru algengir í Suður-Afríku og kjósa opin svæði þar sem skammt er milli vatnsbóla. Þeir eru hjarðdýr sem halda sig í hópum með ríkjandi fola, nokkrum merum og nokkrum ungum folum. Einnig eru til stóð sem innihalda eingöngu unga fola. Þeir sem þekkja til segjast geta þekkt sebrahesta í sundur á röndum þar sem engir tveir sebrahestar hafa sams konar rendur. Hægt er að temja unga sebrahesta til reiða en þeir eru sagðir hastir.

Kúdú er með stærstu antilóputegundum og finnast þær víða í Suður-Afríku, bæði innan og utan verndarsvæða, þar sem þau hoppa auðveldlega yfir þriggja metra girðingar. Karldýrin hafa stór og voldug horn og eru talsvert stærri en kvendýrin. Kjötið af dýrunum er afskaplega bragðgott.

Strútakjöt er rautt á litinn, fitulaust og afskaplega ljúffengt. 

Strútar geta drepið ljón með einu sparki

Fullorðnir hanar strúta eru gráir að lit en hænur og unghanar brúnir eða grábrúnleitir. Strútar geta náð góðri tveggja metra hæð enda hálsinn á þeim langur. Þeir eru 100 til 160 kíló að þyngd og geta orðið 30 til 40 ára gamlir í náttúrulegum heimkynnum sínum. Strútar eru langfættir og fótsterkir og með tvær klær á hvorum fæti sem líkjast klaufum. Þeir geta hlaupið á 70 kílómetra hraða á klukkustund og haldið þeim hraða í allt að 30 mínútur og taka þrjá til fimm metra í hverju skrefi.

Sé strútum ógnað geta þeir sparkað hraustlega frá sér og hæglega drepið ljón sem á þá ráðast með einu sparki. Hausinn er lítill en augun stór og þeir sjá og heyra vel. Strútar eru tannlausir og gleypa steina sem hjálpa til við meltingu fæðunnar. Í maga strúta hafa fundist allt að kíló af meltingarsteinum. Yfirleitt lifa strútar í hópum, fimm til fimmtíu saman, sem eitt karldýr og eitt kvendýr fara fyrir.

Strútakjöt er rautt á litinn, fitulaust og afskaplega ljúffengt.

Konungur dýranna

Á Schotia-verndarsvæðinu sáum við nokkrum sinnum ljón, bæði að nóttu sem degi. Í næturferð sáum við karldýr sem voru að gæða sér á ótilgreindri antilóputegund og ótrúlegt að sjá dýrin og heyra hljóðið þegar þau rifu af því framfótinn með kjaftinum og alblóðugu andlitinu og rumdu af vellíðan.

Ljónynja með bráð.

Á sama svæði var ljónynja sem nýlega var búin að fæða tvo unga og sagt að hún væri ljónhungruð vegna þess. Þegar við vorum á svæðinu fótbrotnaði kúdú-antilópa á verndarsvæðinu og þar sem slík brot gróa ekki var dýrið fellt og ákveðið að gefa ljónynjunni skrokkinn. Eftir nokkurra mínútna taugatrekkjandi bið í nokkurra metra fjarlægð frá skrokknum sáum við svo stóra og sterklega ljónynjuna koma á hægum en ákveðnum hlaupum í átt að skrokknum. Því næst læsti ljónynjan sterklegum tönnunum um háls dýrsins og dró það með sér í runnaþyrpinguna þar sem hún faldi ungana.

Ljón eru gráðug letidýr sem eyða stórum hluta sólarhringsins sofandi og fara helst ekki á stjá nema í fæðuleit. Þau eru stærstu rándýrin sem finnast í Afríku og ólíkt flestum öðrum kattardýrum eru þau félagslynd og í hópum sem inniheldur eitt til fjögur karldýr og hátt í tuttugu kvendýr. Eftir að karldýr hafa náð tveggja til tveggja og hálfs árs aldri hrekja ríkjandi karldýr þau úr hópnum og eiga þau ekki afturkvæmt nema að skora ríkjandi karldýr á hólm og sigra í þeim slag.

Gíraffar eru ævintýraverur

Af öllum þeim dýrum sem ég sá í ferðinni voru það gíraffarnir sem vöktu mesta athygli mína, enda ævintýraleg dýr í útliti með langa fætur, langan háls og lítið höfuð. Gíraffar eru satt best að segja ótrúlega fallegar skepnur og hreyfingar þeirra líkjast einna helst tígulegum dansi frekar en gangi dýra í fæðuleit. Karldýrin geta verið fimm metrar á herðakamb og þá er hálsinn ótalinn og 1,4 tonn að þyngd. Karldýrin eru yfirleitt dekkri en kvendýrin.

Gíraffar kjósa opnar gresjur með háum runnum og trjám í bland. Tunga og gómur dýranna eru með þykka húð og eiga þau auðvelt með að bíta laufin af þyrnastórum akasíutrjám. Gíraffar halda sig í hjörðum með allt að tuttugu kvendýrum og einu ríkjandi karldýri og halda hjarðirnar sig oft í nágrenni við impala-hirti og sebrahesta. 

Gíraffar eru ótrúlega fallegar skepnur og hreyfingar þeirra líkjast einna helst tígulegum dansi frekar en gangi dýra í fæðuleit.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...