Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Stjörnuanís
Stjörnuanís
Á faglegum nótum 17. desember 2021

Jólakrydd

Höfundur: Vilmundur Hansen

Íslendingar eru vanir að gera vel við sig í mat og drykk um jólin, gefa gjafir og gleðjast. Fólk fagnar fæðingu Krists og upprisu ljóssins. Mesta skammdegið er liðið og sólin farin að hækka á lofti.

Flestir eiga sínar matarhefðir um jólin en aðrir breyta til og prófa eitthvað nýtt um hver jól.
Krydd af ýmsu tagi eru ómiss­andi í matreiðslunni og í marga jólarétti eru höfð krydd sem ekki eru hversdags á boðstólum. Dæmi um það sem má kalla jólakrydd eru einiber, negull, engifer, múskat, kardimomma, allrahanda, stjörnuanís, vanilla og jafnvel kanill. Allt bragðmikil krydd sem gefa matnum sérstakan keim.

Einiber

Einir vex víða á norðurhveli og meðal annars hér á landi. Bragðið af einiberjum er sætt og með vott
af barri.

Á heimasíðunni Íslenskt lambakjöt segir að marin einiber séu góð til að krydda villibráð og að þau eigi því vel við ýmsa norður-evrópska lambakjötsrétti, ekki síst í kryddlegi og sósum með rauðvíni, lárviðarlaufi, hvítlauk og blóðbergi.

Berin fara einnig vel með rósmaríni, marjoram, pipar, kúmeni og sellerífræi.

Þurrkaðar einigreinar gefa jólalykt séu þær brenndar.

Allrahanda eða negulpipar

Ólík því sem ætla mætti er kryddið allrahanda ekki blanda af allra handa kryddum því það er unnið úr beri Pimenta dioca og stundum kallað negulpipar og því hrein kryddtegund.

Bragðið minnir á blöndu af negul, múskati og kanil og þaðan er nafnið dregið. Kryddið er vinsælt í Evrópu og notað í pylsur, til að krydda þurrkað kjöt og til að bragðbæta svína- og hænsnakjöt. Auk þess sem það er notað við pæklun grænmetis. Auk þess sem það er talsvert notað við bakstur.

Negull

Óneitanlega minnir útlit neguls á nagla og kryddið því oft kallað negulnaglar. Gott er að stinga negulnöglum í mandarínur og appelsínur og kalla þannig fram jólailm.

Negull er mikið notaður í lambakjötsrétti í Arabalöndunum og hann er sagður fara vel með kanil, allrahanda, múskati, kardimommum, engifer, chili, kóríanderfræi, fennikufræi og lárviðarlaufi.

Múskat

Ilmurinn af múskati er mjög afgerandi en bragðið eilítið sætt. Kryddið er notað til að bragðbæta kökur, sælgæti, búðinga, kjöt og sósur, ýmiss konar drykki eins og eggjapúns og expressókaffi, einnig gott í kartöflurétti. Múskat fer vel með öðru kryddi eins og kanil, kardimommum, negul, engifer, pipar, blóðbergi, kóríander og broddkúmeni.

Til að fá sterkt múskatbragð er best að kaupa heilar múskathnetur og raspa þær rétt fyrir notkun.

Engifer

Vinsældir engifers hafa aukist hratt undanfarin ár og er það hluti af daglegri fæðu fjölda fólks hér á landi. Fersk rifin engiferrót er bragðsterk og góð í súpur, í jólaglögg og með núðlum. Þurrkað engiferduft er bragðminna og hentar því tvímælalaust betur í jólabaksturinn.

Engifer fer vel með ferskum chili, sítrónu- og límónusafa, sojasósu, vorlauk, hvítlauk, myntu, túrmerik og þurrkuðu kryddi eins og kanil, kardimommum, negul, múskati, papriku, pipar og saffrani.

Stjörnuanís

Ilmríkt krydd með lakkrískeim. Aldinið er eitt af undirstöðukryddum í kínverskri, asískri og indverskri matargerð og mikið haft með svínakjöti og önd og í Norður-Afríku er það algengt í lambakjötsréttum.

Fer vel með chili, kanil, fennikufræi, kóríander, hvítlauk, engifer, sítrónugrasi og sojasósu.

Vanilla

Flestir þekkja bragðið af vanillu og þykir gott. Þrátt fyrir það hafa margir aldrei smakkað náttúrulega vanillu þar sem yfir 90% af vanillu á markaði er bragðefni sem er að mestu unnið úr trjákvoðu.

Vanillubragðefni, hvort sem það er náttúrulegt eða vanillulíki, er mikið notað til að bragðbæta drykki og matvörur auk þess sem það er notað sem lyktarefni í snyrtivörur. Vanilluís er feikilega vinsæll auk þess sem vanilla er algengt íblöndunarefni í súkkulaði, karamellum, kaffi og kökum.

Kanill

Í huga margra minnir lyktin af kanil á jólin enda kanill mikið notaður í jólabaksturinn, til dæmis piparkökur. Auk þess sem kanill er ómissandi út á grjónagraut. Í Arabalöndunum eru kanilstangir notaðar til að krydda lambakjötsrétti.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...