Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Með tilkomu PCR greiningartækni hefur skilvirknin við greiningar á sýkingarvöldum aukist verulega.
Með tilkomu PCR greiningartækni hefur skilvirknin við greiningar á sýkingarvöldum aukist verulega.
Mynd / Lactnet
Á faglegum nótum 7. desember 2021

Júgurheilbrigðisáætlun ætti að vera til á hverju kúabúi

Höfundur: Snorri Sigurðsson - snorri.sigurdsson@outlook.com

Það eru væntanlega ekki nein tíðindi fyrir kúabændur að með því að bæta júgurheilbrigðið á búum sínum hefur það bein jákvæð áhrif á reksturinn.

Það vefst þó fyrir mörgum hvernig eigi að ná raunverulegum tökum á ástandinu, hvernig eigi að standa að því að bæta júgurheilbrigðið skref fyrir skref þar til ásættanlegri niðurstöðu er náð. Það eru þó til allgóðar „þumalputtareglur“ sem hægt er að fylgja og komast þannig vel af stað á þessari leið.

Júgurbólgu valda ótal smitvaldar og alls hafa verið greindir 130 í heiminum til þessa en við horfum þó aðallega á tiltölulega fáar bakteríur sem meginorsakavalda tilfellanna sem kýrnar lenda í.

Hvenær er ástandið gott?

Kúabændur hafa í áratugi notað frumutölu sem mælikvarða á júgurheilbrigði kúnna og þó svo að hægt sé að nota aðrar mæliaðferðir þá er þetta ágætis aðferð við að meta heildarástand búanna. Tankfrumutala, sérstaklega þegar horft er til lengri tíma t.d. eins árs, gefur ágæta mynd af stöðu búsins og þumalputtareglan hér er að ef frumutalan er yfir 120.000 frumur/ml þá má bæta úr ástandinu með þekktum aðferðum.

Það er þó svo að til þess að ná frumutölunni niður þarf markvissar aðgerðir og aðferðir. Mín reynsla er að því lægri sem maður vill ná frumutölunni því erfiðara er það. Þannig hefur flestum bændum reynst allauðvelt og fljótlegt að ná henni úr 300.000 í 200.000 og flestum reynist ekki mjög erfitt að ná henni úr 200.000 í 150.000 með skilvirkni. Það hefur svo reynst mörgum allerfitt að fara úr 150.000 í 120.000, svo ekki sé talað um lægra en það, en þeim snarfjölgar þó í þeim hópi sem eru með stórar hjarðir kúa en frumutölu í tank um eða undir 100.000.

130 smitvaldar þekktir

Júgurbólgu valda ótal smitvaldar og alls hafa verið greindir 130 í heiminum til þessa en við horfum þó aðallega á tiltölulega fáar bakteríur sem meginorsakavalda tilfellanna sem kýrnar lenda í. Þetta eru mikið til sömu tegundir af bakteríum í öllum helstu framleiðslulöndum mjólkur og í dag eru til markvissar og þrautreyndar aðferðir til þess að útrýma þessum bakteríum úr fjósum. Það er þó oftast þannig að í hverju fjósi er ein ákveðin tegund af bakteríu sem er algengust og mesti skaðvaldurinn. Fyrst þarf s.s. að komast að því hver hinn raunverulegi óvinur er og því þarf að taka sýni úr sýktum kirtlum og senda í PCR greiningu.

Ekki er nóg að nota einungis eitt PCR sýni til þess að búa til „hernaðaráætlun“ búsins, heldur hef ég miðað við að hafa a.m.k. 5 kýrsýni til grundvallar auk þess að hafa PCR tanksýni líka. Ef þetta liggur ekki fyrir, er ekki hægt að setja út góða áætlun að mínu mati.

Hvert bú er einstakt

Það er annað sem er mikilvægt að gera sér grein fyrir en það er að hvert kúabú er einstakt og því er ekki hægt að færa leiðbeiningar svo auðveldlega á milli búa. Þetta er vegna þess að hver flokkur smitvalda er einstakur og þarf að gera sérstakar ráðstafanir til þess að „útrýma“ þessum smitvaldi. Hér áður fyrr, áður en hægt var að fá nákvæma greiningu á bakteríum, voru ráð okkar til bænda að hlúa að öllum þekktum þáttum á viðkomandi kúabúi, þ.e. þeim þáttum sem sneru að því að bæta úr júgurheilbrigði.

Þetta gátu verið þættir eins og að meðhöndla frumuháar kýr, halda nærumhverfi kúnna hreinu, mjólka kýrnar með ákveðnum hætti og nota sótthreinsiefni. Í dag, þegar vitað er hver hinn raunverulegi skaðvaldur er, getum við aftur á móti sett upp mun einfaldari og skilvirkari aðgerðaráætlun sem þá einblínir á þau atriði sem vitað er að virka í baráttunni gegn viðkomandi smitvaldi.

Skrifborðsgreining kúabús

Ég hef oft kallað þessar greiningar „skrifborðsgreiningar“ þ.e. ef til eru nógu góð gögn þá er hægt að mynda sér allgóða sýn á stöðu búsins og hvað þurfi að gera án þess svo mikið að koma í heimsókn á viðkomandi kúabú! Auðvitað er alltaf betra að ráðgjafi mæti á staðinn, fari yfir vinnubrögðin og skoði aðstæður. Tilfellið er að ótrúlega nákvæma greiningu má gera á heilsufarsstöðu kúabús út frá því einu að rýna í PCR niðurstöður frá viðkomandi kúabúi og út frá slíkri greiningu má svo setja upp drög að júgurheilbrigðisáætlun sem tekur á þeim þáttum sem vitað er að hafa áhrif á megin smitvaldinn.

Þannig má t.d. geta sér nokkuð vel til um ástand fjósanna og má nefna sem dæmi að ef megin orsakavaldurinn er Uberis, þá eru miklar líkur á því að fara þurfi yfir það hvernig viðkomandi bóndi vinnur í fjósinu, en ef megin smitvaldurinn er t.d. Aureus myndi ég ekki nota mikinn tíma í að ræða vinnubrögðin í fjósinu en þess í stað horfa meira á mjaltirnar.

Sé E. coli megin vandamálið (sem ætti ekki að vera algengt) þarf að fara yfir almennt heilsufar kúnna og fóðrun en sé Dysgalactiae vandamálið þarf að skoða vel hvernig húðhirðu er háttað svo nokkur dæmi séu tekin.

Það er komin afar góð reynsla með júgurheilbrigðisáætlanir í nágrannalöndum okkar og mögulega líka á Íslandi. Best er að gera skriflega áætlun fyrir búið, skrifa niður hvaða smitvaldar eru „óvinurinn“ og vinna svo markvisst að því að uppræta hann. Fylgja því svo eftir með reglulegu eftirliti og a.m.k. mánaðarlegum PCR prófum á tankmjólkinni.

Smitefnið

Þegar framangreind gögn liggja fyrir og gerð hefur verið almennileg úttekt á aðstöðu og vinnubrögðum á kúabúinu er svo tiltölulega einfalt mál að setja upp júgurheilbrigðisáætlun búsins. Slík áætlun leggur línurnar varðandi helstu forvarnir til þess að draga úr líkum á því að algengustu smitvaldar viðkomandi bús nái að hafa veruleg áhrif, í raun má líta á þetta eins og inngrip í lífshringrás smitvaldanna.

Allir hafa þeir ákveðin einkenni og þurfa ákveðið umhverfi til þess að lifa af og áætlunin snýst um að rjúfa þessa hringrás og koma þannig í veg fyrir útbreiðslu smitefnanna. Algengustu atriðin í lífshringrás smitefnanna, sem reynt er að grípa inn í, eru næringarskilyrðin, hitastigið, rakastigið og sýrustigið. Með því að fjarlægja einn þessara þátta úr hringrás smitefnanna lifa þau ekki af. Þannig er í raun óþarfi að ráðast á alla þættina í einu, mun skilvirkara að reyna að taka einn þeirra fyrir og gera það almennilega!

Snýst um bóndann

Það eru engar töfralausnir til og t.d. notkun á alls konar sótthreinsiefnum er klárlega ekki leiðin til þess að ná tökum á ástandinu, en getur þó í ákveðnum tilfellum hjálpað til, eins og t.d. með því að nota rétta spenadýfu eftir mjaltir.

Langoftast er þó megin skýringarþátturinn fólginn í því hvernig staðið er að vinnu og hvernig vinnulagið er á búinu. Það getur stundum snert bændurna þegar þessi liður er gagnrýndur en hjá því verður ekki komist að líta í eigin barm og skoða með opnum huga hvort eitthvað við vinnulagið megi gera öðruvísi. Þetta geta verið atriði eins og hvernig umhverfi kúnna er haldið þannig að smitefni eigi erfitt með að fjölga sér eða t.d. hvernig hlúð er að sjúkdómavörnum kúnna.

Krefst vinnu

Ég held að ég geti fullyrt að flestir bændur sem ég hef unnið með, bæði hérlendis og erlendis, hafi allra helst viljað fá það svar að hægt sé að ná árangri hratt og auðveldlega, en reynslan sýnir að til þess að ná góðum árangri þarf að leggja á sig töluverða vinnu. Margir hafa sagt við mig að þeirra fjós sé svo gamalt og illa hannað að það sé ekki hægt að ná árangri eða að mjaltakerfið sé ekki nógu gott og þar fram eftir götunum.

Tilfellið er að aðstaðan sjálf, þótt hún sé gömul og slitin, ætti ekki að vera nein hindrun fyrir því að ná árangri enda snýst málið oftar en ekki um bóndann sjálfan. Það sem reynist nefnilega langerfiðast er að breyta vinnulaginu sjálfu. Að breyta því hvernig við gerum ákveðna hluti og stöndum að vinnu er ekki eitthvað sem hægt er að gera svo auðveldlega, en það geta samt allir náð árangri í alls konar fjósum, sé einbeittur vilji til staðar.

Að koma í veg fyrir eldinn

Það er komin afar góð reynsla með júgurheilbrigðisáætlanir í nágrannalöndum okkar og mögulega líka á Íslandi. Best er að gera skriflega áætlun fyrir búið, skrifa niður hvaða smitvaldar eru „óvinurinn“ og vinna svo markvisst að því að uppræta hann. Fylgja því svo eftir með reglulegu eftirliti og a.m.k. mánaðarlegum PCR prófum á tankmjólkinni.

Með því er hægt að fylgjast með þróun smitefnanna í fjósinu og þá hvernig innbyrðis hlutfall þeirra sé að þróast auk þess sem tíðni þeirra mælist um leið. Þegar svo líður á baráttuna gerist það iðulega að aðrar bakteríur ná sér á strik þ.e. verða meira áberandi í sýnunum og þá þarf að aðlaga áætlunina að þeim aðstæðum. Með öðrum orðum þá er markviss júgurheilbrigðisáætlun breytileg og á að þróast með búinu enda er hlutverk hennar á hverjum tíma að hjálpa bóndanum að koma í veg fyrir að eldurinn kvikni í stað þess að hann/hún þurfi að standa í slökkvistarfi.

Skylt efni: júgurheilbrigði | júgur

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...