Krydd- og matjurtir - fyrir hobbýræktendur
Heppilegasta svæðið fyrir krydd- og matjurtagarð er í skjóli og örlitlum halla til suðvesturs. Ef þessar aðstæður eru ekki til staðar er best að velja reitnum stað í skjóli þar sem hann nýtur sólar.
Eftir að búið er að hreinsa burt allt grjót og illgresi úr garðstæðinu er garðurinn tilbúinn til vinnslu. Hægt er að stinga garðinn upp með gaffli eða nota jarðtætara í verkið, sem er mun auðveldara, sérstaklega ef verið er að brjóta nýtt land. Ef notaður er jarðtætari verður að gæta þess að ofvinna jarðveginn ekki því þá getur hann orðið of þéttur og loftlaus.
Jarðvegur þarf að vera hæfilega blanda af mold og sandi og yfirleitt þarf að blanda hann með lífrænum áburði og kalki til að bæta hann. Ekki skal þó setja kalk í kartöflugarða því það eykur hættuna á kartöflukláða. Hæfilegt magn af lífrænum áburði á 10 fermetra eru tvær til þrjár hjólbörur af hrossaskít eða tveir lítrar af þurrkuðum hænsnaskít sem vinna þarf vel ofan í gróðurmoldina. Ef notaður er tilbúinn áburður er hæfilegt magn tvær matskeiðar af blákorni á fermetra.
Forræktun og útplöntun
Nauðsynlegt er að forrækta flestar krydd- og matjurtir inni í 6 til 8 vikur áður en þeim er plantað út í garð. Kjörhiti við spírun er 18 til 20°C en 10 til 17°C við áframræktun. Plöntum er síðan dreifplantað þegar komnir eru á þær tveir blaðkransar auk kímblaða. Þeir sem ekki hafa áhuga eða aðstöðu til að forrækta sínar plöntur sjálfir geta keypt þær tilbúnar til gróðursetningar í gróðrarstöðvum.
Áður en plantað er í garðinn er gott að stinga fyrir beðum sem eru höfð 20 til 30 sentímetra há, vegna þess að þá hitna þau fyrr, og um metri á breidd. Til að auðvelda vinnu í garðinum er hæfilegt bil á milli beða tvö fet eða 60 sentímetrar. Þeir sem vilja vanda enn meira til verksins og vera snyrtilegir geta smíðað ramma utan um beðið til að halda jarðveginum á sínum stað. Þar sem rými er takmarkað mælir ekkert með því að rækta krydd- og matjurtir í keri og innan um sumarblóm.
Algengt er að planta mat- og kryddjurtum út um mánaðamótin maí og júní. Útplöntunartími er háður því að jarðvegurinn sé orðinn sæmilega hlýr, að minnsta kosti kominn yfir 6°C, og hætta á næturfrosti liðin hjá. Heppilegast er að gróðursetja í skýjuðu veðri og jafnvel svolítilli rigningu. Gott er að breiða akrýldúk yfir plönturnar fyrstu vikurnar til að hjálpa þeim af stað. Dúkurinn heldur hita á plöntunum og hann er ágæt vörn gegn kálflugu.
Áburður og næring
Ef borinn er tilbúinn áburður á matjurtagarðinn er æskilegt að skipta áburðargjöfinni í tvennt með um það bil mánaðar millibili. Sé miðað við 10 fermetra garð skal gefa um 1 kíló af alhliða áburði um 15. maí og 0,5 kíló um það bil mánuði síðar. Best er að bera á tilbúinn áburð í þurru og ekki er ráðlagt að gefa of mikið af honum því hann getur brennt plönturnar og þannig gert meira ógagn en gagn.
Við blómkálsrækt getur reynst þörf á að bera á hálft til tvö grömm af natríummólýbdati á hverja 10 fermetra og 10 til 15 grömm af bór. Bór í sama magni er einnig æskilegur þar sem rækta á gulrófur, hreðkur og gulrætur. Yfirleitt er nóg af þessum efnum í húsdýraáburði þannig að ekki þarf að gefa þau aukalega sé hann notaður reglulega.
Umhirða
Allt illgresi sem læðir sér inn í krydd- og matjurtagarðinn á að fjarlægja jafnóðum. Með því móti er komið í veg fyrir að það nái að skjóta rótum. Illgresið keppir við nytjajurtirnar um næringu og birtu í garðinum, auk þess sem sniglar þrífast vel í skugganum af því.
Sé þurrt í veðri verður að vökva matjurtirnar reglulega, sérstaklega hraðvaxta og stórblaða jurtir.
Skiptiræktun
Ólíkar tegundir jurta nýta næringarefnin í jarðveginum misvel og þess vegna er gott að breyta um ræktunartegundir á hverju ári. Með því að skipta reglulega um tegundir dregur úr líkum á jarðvegsþreytu og að sjúkdómar nái að festa sig í sessi. Einföld skiptiræktun felst í að rækta rótarávexti eitt árið en plöntur þar sem ofanjarðarhlutinn er nýttur það næsta og svo koll af kolli.
Tegundir sem sá má beint í beð
Gulrætur.
Hnúðkál.
Næpur.
Mizuna-kál.
Pastinakka.
Radísur.
Salat.
Sinnepskál.
Spínat.
Dæmi um skiptiræktun
Fyrsta ár: Kál, rófur og aðrar tegundir körfublómaættarinnar.
Annað ár: Gulrætur, pastinakka, steinselja og sellerí.
Þriðja ár: Salat, rauðrófur og spínat.
Fjórða ár: Kartöflur.
Síðan er ræktuninni víxlað á milli beða frá ári til árs.