Lífrænn landbúnaður fær aukið vægi og bætir stöðuna í loftslagsmálunum
Skýrsla Ólafs R. Dýrmundssonar vegna starfa í Evrópuhópi lífrænna landbúnaðarhreyfinga (IFOAM Organics Europe) fyrir árið 2024.

Sem fyrr einkenndist starf skrifstofunnar í Brussel af miðlun víðtækrar þekkingar starfsfólksins á hinu mikla regluverki ESB í þágu lífræns landbúnaðar. Því ágæta starfi stýrir Eduardo Cuoco í farsælu samstarfi við stjórn IFOAM Organics Europe, þar með Jan Plagge, formann hennar. Auk fasta starfsfólksins kemur við sögu áhugasamt ungt fólk í tímabundnu starfsnámi frá ýmsum Evrópulöndum. Tölvusamskiptin ganga mjög vel, fyrirspurnum er svarað greiðlega, og því var það mikið áfall í vor þegar árás var gerð á tölvukerfi skrifstofunnar. Furðufljótt tókst að koma starfseminni í fyrra horf. Á meðal atburða sem skrifstofan studdi og tók þátt í að skipuleggja árið 2024 voru Ungmennamálþingið (Organic Europe Youth Event) í Bari á Ítalíu 23. apríl, Evrópuráðstefnan (European Organic Congress) í Búdapest í Ungverjalandi 10.–12. september, Lífræni dagurinn (Organic Day) 23. september í Brussel í Belgíu og Nýsköpunardagarnir (Organic Innovation Days) 22.–23. október, einnig í Brussel. Hér verður vikið að nokkrum málum sem hafa verið ofarlega á baugi árið 2024.
Loftslagsmál og hægri sveifla
Í landbúnaðarstefnu ESB (CAP) hefur lífrænum landbúnaði verið gefið aukið vægi á seinni árum, ekki aðeins vegna aðgerða til að draga úr mengun eiturefna við plöntuvarnir og stuðla að sáðskiptum (skiptirækt) og líffræðilegri fjölbreytni, heldur einnig í vaxandi mæli til að bæta stöðuna í loftslagsmálunum. Þannig er aðlögun að lífrænum landbúnaði viðurkennd sem veigamikill liður í umhverfisvernd og nýlegar rannsóknir hafa staðfest að lífræn ræktun er ein vænlegasta leiðin til að draga úr losun og auka bindingu. Til þessa er tekið tillit í aðgerðaáætlunum í aðildarlöndum ESB og mun vonandi gerast einnig hér á landi í tengslum við EES-samninginn. Eftir jákvæða þróun síðan 2017 gæti hægri sveiflan við Evrópuþingskosningarnar í júní 2024 haft nokkur neikvæð áhrif, svo sem á framlög ESB til lífræna geirans og loftslagsmálanna. Evrópuhópurinn reiknar þó með að þetta bakslag verði ekki afgerandi enda nýtur lífrænn landbúnaður mikils stuðnings, bæði innan landbúnaðarins og á meðal neytenda í álfunni.
Nýjar skilgreiningar á verksmiðjubúskap
EGTOP-sérfræðinganefndin hjá ESB hefur m.a. verið að vinna að skilgreiningum á hugtakinu verksmiðjubúskapur um árabil. Skilgreiningar á þessum þéttbæru búskaparháttum voru orðnar mjög tímabærar því að viðmiðanir í hinum ýmsu löndum eru töluvert breytilegar. Við í Evrópuhópnum teljum að misræmið hafi leitt til skekktrar samkeppnisstöðu hinna ýmsu þjóða. Á meðal þeirra þátta sem þarf að taka tillit til eru fjöldi gripa í hverri framleiðslueiningu, þéttleiki þeirra, loftgæði og birta í húsum, og aðstaða til útivistar og beitar. Þarna koma mjög við sögu reglur um notkun búfjáráburðar frá slíkum búum sem eru mjög misvísandi eftir löndum og nauðsynlegt að samræma sem fyrst. EGTOP- sérfræðinganefndin skilaði skýrslu um þessar skilgreiningar 10. júní 2024. Í stað þess að nota hugtakið verksmiðjubúskapur (e. intensive factory farming) í reglugerðum og vottunarreglum leggur nefndin til að vísað verði í búfjáráburð (e. farmyard manure). Þannig verði lögð aukin áhersla á efnainnihald, bæði næringarefna, svo sem köfnunarefnis (N), og mengandi efna á borð við sýklalyfjaleifar og þungmálma. Því þurfi að liggja fyrir upplýsingar um bæði uppruna áburðarins og vinnslu á honum. Ekki verði þó slakað á kröfum til velferðar og aðbúnaðar búfjár og þar með skuli t.d. notkun búfjáráburðar frá öllum dýrum í búrum bönnuð við lífræna ræktun. Skýrslan er mjög efnismikil og ljóst er að vottunarstofur og aðrir eftirlitsaðilar þurfa að kynna sér hana vel og miðla upplýsingum til bænda og vinnslufyrirtækja í lífræna geiranum. Nefndin leggur til að aðlögunartíminn verði 3–5 ár.
Mengun frá stórum kjúklingabúum
Lengi hefur lífræna hreyfingin, ásamt dýra- og umhverfisverndarsamtökum, vakið athygli á og varað við byggingu verksmiðjubúa af ýmsu tagi, t.d. í nágrenni áa, lækja og vatnsbóla. Soil Association í Bretlandi, sem rekur þekkta vottunarstofu og á aðild að lífrænu hreyfingunni, hefur t.d. verið að vekja athygli á þessu vandamáli, einkum í tengslum við þéttbæra alifugla- og svínarækt á Bretlandseyjum. Sérstaklega hefur verið bent á alvarlega mengun í a.m.k. 10 ám í Englandi og Wales, einkum af völdum afrennslis fosfórs (P) frá stórum alifuglabúum. Þá sé lífríkið líka orðið skaddað í þessum ám vegna úrefnisskorts (O) og óæskilegra þörunga í vatninu. Er Wye-áin tiltekin sem dæmigerð fyrir þessa alvarlegu mengun. Þarna er m.a. um lýðheilsumál að ræða, sérstaklega þegar mikil mengun verður í grunnvatni vatnsveitna. Vitað er um dæmi þess að fyrirtæki sem reka vatnsveitur hafi gert sérstaka samninga við bændur á tilteknum sveitum um aðlögun að lífrænt vottuðum búskaparháttum til þess að stemma stigu við mengun í neysluvatni. Talið er hagkvæmt að styrkja þessa bændur með árlegum greiðslum gegn því að þeir breyti búskaparháttum til að tryggja bætt vatnsgæði. Þar að auki geta bændurnir tekið þátt í opinberum aðgerðum til almennrar umhverfisverndar og fengið sérstaka styrki til þess.
Tryggingar vegna mengunar frá eiturefnaúðun
Nokkrir félagar mínir í Evrópuhópnum hafa verið að spyrjast fyrir um tryggingar og skaðabætur vegna eiturefnamengunar sem berst frá akurlendi við úðun efna sem bönnuð er í lífrænni ræktun. Frakkar hafa stofnað vinnuhóp til að skoða þessi mál. Við könnun í Evrópuhópnum kom í ljós að engar tryggingar virðast tiltækar sem gætu bætt skaða lífrænna bænda gegn slíkri mengun en hún getur leitt til þess að vottun tapist, a.m.k. tímabundið. Þótt eiturefnaúðun fari minnkandi er slík mengun ógn við lífræna búskaparhætti og sömuleiðis mengun af völdum erfðabreytts fræs sem einkum er þekkt í Norður-Ameríku. Almennt má segja að í Evrópu eru gerðar miklar kröfur um merkingu matvæla sem innihalda erfðabreytt efni (GMO eða NGTs) og í haust sendu 376 fyrirtæki í 16 ESB -löndum áskorun til framkvæmastjórnarinnar um að herða á merkingarkröfunni enda væri hún liður í neytendavernd sambandsins. Evrópuhópurinn mun hleypa af stað sérstöku átaksverkefni í lok janúar 2025 gegn notkun eiturefna (pesticides) við ræktun nytjajurta.
Vatnsrækt er aldrei lífræn
Þótt ræktun grænmetis og annarra jurta í vatni í stað jarðvegs (hydroponics) geti ekki fengið lífræna vottun samkvæmt reglugerð ESB um lífræna framleiðslu koma stöku sinnum upp spurningar um þessa ræktunaraðferð, t.d. seint á liðnu ári vegna forræktunar á skrautjurtum. Sérfræðingur á skrifstofunni í Brussel svaraði um hæl, með tilvísun í ESB-reglugerðina, að vatnsrækt væri aldrei lífræn.
Óáfengt vín skráð
Lífrænt vottuð vínrækt er mjög sérhæfð grein innan lífræna geirans. Það er því í anda þess þáttar í lýðheilsustefnu Evrópu að draga úr áfengisneyslu, að nú eru óáfeng lífræn vín komin á skrá lífrænna afurða. Eftirspurn fer vaxandi eftir óáfengum vínum með lífræna vottun og seint á liðnu ári var endurvakinn sérfræðingahópur til að endurskoða og treysta hinn faglega grundvöll lífrænu vínræktarinnar í Evrópu.
Prótein með lífræna vottun, auknar kröfur
Frá og með 2027 fellur niður undanþága í ESB-reglugerðinni til að nota 5% próteinfóðurs af hefðbundnum uppruna fyrir grísi upp að 35 kg lífþunga og fyrir unga kjúklinga. Eftir það þarf allt próteinfóður að vera með lífræna vottun og hafa einkum lífrænir bændur í Hollandi og Belgíu bent á að skortur geti orðið á þessu fóðri. Þá eru komnar fram vísbendingar um heilsu- og velferðarvandamál í fullorðnum varphænum sem eru fóðraðar á 100% lífrænu próteinfóðri. Þarna liggja m.a. fyrir þær áskoranir til rannsóknastofnana og háskóla, sem vinna að verkefnum í þágu lífræna geirans, að leita viðunandi lausna.
Ritstörf o.fl. í þágu lífræns landbúnaðar
Á árinu 2024 hef ég sem fyrr verið í sambandi við ýmsa sem láta sig varða lífrænan landbúnað auk þeirra ágætu samskipta sem ég hef átt við VOR–félag um lífræna ræktun og framleiðslu og Vottunarstofuna Tún ehf. Ég var með stutt erindi um Evrópuhópinn og starfsemi hans á aðalfundi VORs 21. mars 2024 og á því ári voru eftirtaldar greinar mínar um lífrænan landbúnað birtar í Bændablaðinu:
a) Íslandsdeild Evrópuhóps IFOAM. Bændablaðið, fimmtudagur 11. apríl 2024, blað nr. 654, 7. tbl., 30. árg. bls. 42.
b) Lífræni geirinn verðskuldar prófessorsstöðu. Bændablaðið, fimmtudagur 7. nóvember 2024, blað nr. 667, 20. tbl., 30. árg., bls. 48.