Herhvöt Búnaðarþings
Af vettvangi Bændasamtakana 20. mars 2025

Herhvöt Búnaðarþings

Höfundur: Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands.

Hafi einhver það á tilfinningunni að Búnaðarþingið sem sett verður á Hótel Natura í dag sé einn af „þessum fjölmörgu málfundum“ sem engu máli skipta er sá hinn sami á miklum villigötum að mínu mati. Ég mun að minnsta kosti fara til þessa samtals með því hugarfari að hver einasta mínúta innan veggja þingsins skipti máli. Ekki eingöngu vegna þess að við skiptumst á svo verðmætum upplýsingum um stöðu ólíkra búgreina og helstu hagsmunamál þeirra heldur líka vegna hins að Búnaðarþingið mun setja okkur sem erum í framvarðasveit Bændasamtakanna til verka um grundvallaratriðin í viðræðum við stjórnvöld um nýja búvörusamninga.

Trausti Hjálmarsson

Ef vel tekst til verður það mikil og dýrmæt herhvöt og veitir kannski ekki af. Þær viðræður þurfa að hefjast strax og ef vel á að vera þurfa þær að klárast á þessu ári en ekki því næsta. Séríslenska hugarfarið um að byrja ekki að tala saman fyrr en eftir að samningar renna út er langt í frá boðlegt þegar afkoma undirstöðuatvinnuvegar þjóðarinnar er annars vegar.

Í mínum huga eru þessir nýju búvörusamningar ekki heldur bara einn af „þessum fjölmörgu samningum“ sem taka við af eldri samningum með einhverjum áframhaldandi bútasaumi og lagfæringum á stöku stað. Ég er heldur ekki að ímynda mér að þeir verði einhvers konar nýtt upphaf fyrir landbúnað á Íslandi sem markar þáttaskil í mannkynssögunni. En vonandi tekst okkur að lenda nýjum búvörusamningum á þann veg að ungt fólk líti á ævistarf í landbúnaði sem álíka öruggan og sjálfsagðan valkost og t.d. starf við sjómennsku, ferðaþjónustu, kennslu, hjúkrun eða hvað annað sem heillar.

Og öll áttum við okkur væntanlega á því hvað við eigum langt í land í þessum efnum. Nýliðun í bændastéttinni verður í dag fyrst og fremst með því að börn taka við búi af foreldrum sínum. Einstaka ofurhugar leggja reyndar líka í óvissuferðina og kannski nokkrir þokkalega vel stæðir sérvitringar á stangli. Allt á þetta fólk það sameiginlegt að þrá frelsið og fjallaloftið, snertinguna við lífríki náttúrunnar, tengslin við frumframleiðslu matvælanna o.m.fl. Ég ímynda mér að í flestum blundi líka þrá eftir að leggja sitt af mörkum til samfélagsins og meira að segja í leiðinni mat á diska landsmanna. Helst eins og þeir geta í sig látið!

En það er því miður hægara um að tala en í að komast þegar vonirnar snúast um landbúnað og bústörfin frekar en aðrar og aðgengilegri atvinnugreinar. Þeim nöturlega veruleika ungs fólks með stóra drauma þarf að breyta. Búvörusamningar eru í orðanna hljóðan kannski svolítið ópersónulegt og „kerfislegt“ fyrirbæri en það eru samt einmitt þeir sem geta ráðið svo miklu um hvort draumar unga fólksins sem þráir sveitina fái ræst. Og að sama skapi er Búnaðarþingið sem setur framvarðarsveit sína til verka ákaflega mikilvægt.

Forseti Íslands, atvinnuvegaráðherra og fleiri ráðamenn og umræðustjórar í íslensku samfélagi eru á meðal þeirra sem heiðra okkur með nærveru sinni við setningu þingsins. Ég dreg þeirra góða hug og einlæga stuðning við starfsskilyrði okkar bænda ekki í efa. Ekki eingöngu vegna þess hve vænt þeim þykir um bændur heldur vonandi líka – og eiginlega miklu frekar – um hversu annt þeim er um hag fólksins í landinu. Landbúnaðurinn er nefnilega ekki einkamál bænda heldur lífsspursmál fyrir fæðuöryggi þjóðarinnar.

Það verður mitt hlutverk þegar ég set þetta mikilvæga þing að tala með þeim hætti að til okkar heyrist. Mér dettur ekki í hug að gera það með gífuryrðum. Þvert á móti mun ég á þessum stað, rétt eins og bændur hafa ávallt kappkostað þegar þeir taka til máls á fundum, í greinum, viðtölum og annars staðar, leggja mig fram við að útskýra í hinum einföldu aðalatriðum stóru myndarinnar að óbreytt ástand er ávísun á stórkostlegt tap fyrir okkur öll sem byggjum þetta land.

Og kannski er það svolítið skondið að það komi í hlut nýrrar ríkisstjórnar, sem ekki hefur hin gömlu og rótgrónu tengsl Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins við sveitir landsins, að slá um landbúnaðinn skjaldborg og ríða honum björgunarnet sem dugar til langrar framtíðar. Ef sú verður útkoman er það auðvitað einungis enn ein staðfesting þess að vöxtur og viðgangur íslensks landbúnaðar er ekki einkamál einhverra heldur almannahagsmunir allra.

Ég bind miklar vonir við framgöngu atvinnuvegaráðherra, Hönnu Katrínar Friðriksson, fyrir okkar hönd. Ekki bara vegna þess að fyrstu kynni okkar og samtöl hafa verið ánægjuleg heldur líka vegna hins að hún hefur ákveðið að koma með mér til fundar við bændur um land allt fljótlega í kjölfar Búnaðarþingsins. Þannig vill hún heyra það milliliðalaust frá bændum hver staða þeirra er og ekki síður hver brýnustu hagsmuna- og baráttumál þeirra eru.

Samskiptaleiðir okkar við ráðherra landbúnaðarmála og um leið stjórnvöld eru því nokkuð greiðfærar um þessar mundir. Ekki spillir fyrir að fjölmiðlar í landinu hafa sýnt málefnum okkar stöðugt vaxandi áhuga síðustu misserin. Um leið hafa tengsl okkar við íslenskan almenning styrkst. Ég hef alla tíð lagt mikla áherslu á samtal og samskipti okkar bænda innbyrðis en þau væru samt í raun einskis virði án tækifæra okkar til þess að koma sjónarmiðum okkar á framfæri og tala máli okkar fyrir brýnum hagsmunum gagnvart þeim sem öllu ráða um örlög okkar.

Myglufaraldur í húsum
Lesendarýni 19. mars 2025

Myglufaraldur í húsum

Fréttir berast reglulega um myglu í húsum, jafnvel svo útbreidda, að rífa þurfi ...

Hvað er Gvendardagur?
Lesendarýni 14. mars 2025

Hvað er Gvendardagur?

Á liðnum árum og áratugum hafa slæðst inn í dagatal okkar dagar sem bera hin ýms...

Tækifæri í kolefnisjöfnun
Lesendarýni 13. mars 2025

Tækifæri í kolefnisjöfnun

Undanfarin ár hefur verið nokkur umræða um kolefnisjöfnun sem loftslagsaðgerð. B...

Vindmyllur fagfjárfesta eru óhagkvæmar
Lesendarýni 13. mars 2025

Vindmyllur fagfjárfesta eru óhagkvæmar

Á Íslandi eru nú plön um að reisa um 30 vindmyllugarða víðs vegar um landið í na...

Áhættumat erfðablöndunar – hvað næst?
Lesendarýni 12. mars 2025

Áhættumat erfðablöndunar – hvað næst?

Í þessari grein er fjallað um blöndun á eldislaxi við villtan lax sem gerist þeg...

Kýrlaus varla bjargast bær
Lesendarýni 12. mars 2025

Kýrlaus varla bjargast bær

Í síðasta Bændablaði birtu Baldur Helgi Benjamínsson og Jón Viðar Jónmundsson ág...

Um áveitur og endurheimt mýra
Lesendarýni 11. mars 2025

Um áveitur og endurheimt mýra

Nýverið gekk ég yfir götuna á Hvanneyri og heimsótti Bjarna Guðmundsson, fyrrver...

Heilbrigð umgjörð um íslenskan landbúnað
Lesendarýni 10. mars 2025

Heilbrigð umgjörð um íslenskan landbúnað

Fyrsta kjördæmavika á nýju kjörtímabili er nýliðin. Við í Viðreisn ákváðum að ha...