Svínakjöt.
Svínakjöt.
Mynd / Amanda Lim
Fréttir 21. mars 2025

Fleiri svínum slátrað

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Mikil aukning var í svínaslátrun hjá Sláturfélagi Suðurlands árið 2024 en mismikill samdráttur var í slátrun á sauðfé, nautgripum, hrossum og kjúklingum.

Í ársskýrslu SS kemur fram að 86,8 prósenta aukning hafi verið á sláturfjölda svína milli áranna 2023 og 2024. Alls var 7.344 svínum slátrað hjá félaginu en þau voru 3.932 árið áður. Heildarslátrunin reyndist 605 tonn og var aukning um 289 tonn milli ára.

Heildarverðmæti innlagðra svínaafurða var rúmlega 373 millj. kr. en var um 170 millj. kr. árið áður. „Heildarsala svínakjöts á árinu 2024 var 541 tonn en var 288 tonn árið 2023. Birgðir svínakjöts í eigu afurðadeildar voru engar eins og árið áður,“ segir jafnframt í skýrslunni.

Samkvæmt upplýsingum frá Steinþóri Skúlasyni, forstjóra SS, voru þó enn töluverðar birgðir í eigu vinnslunnar. „Aukin slátrun segir ekkert um sölu heldur var tímabundin aukning á innleggi,“ segir hann. Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun var 78.142 svínum slátrað á Íslandi árið 2024, langmest hjá Stjörnugrís, eða 56.227 gripum.

Meiri birgðir kindakjöts

Samdráttur var í slátrun sauðfjár samkvæmt skýrslunni. Alls var slátrað 93.507 kindum á árinu 2024, sem er rúmlega 4.000 skepnum færri en árið áður. Reyndist slátrunin gera 1.700 tonn af innvegnu kjöti en meðalþungi innlagðra dilka var 17,5 kg. Heildarverðmætin reyndust 1.348 millj. kr. Flutt voru út 108 tonn.

„Birgðir kindakjöts í eigu afurðadeildar í lok ársins voru 1.126 tonn á móti 922 tonnum árið áður,“ segir í ársskýrslunni en þar kemur jafnframt fram að nærri helmingur af öllu lambakjöti hafi verið úrbeinaður og unninn í sölueiningar í sláturtíð.

Flytja út ferskt hrossakjöt

Tæplega fimm prósenta samdráttur varð á ungneytaslátrun en heildarslátrun reyndist 1.272 tonn af 6.169 sláturgripum. „Framboð á nautgripum til slátrunar var lítið mestan part ársins en jókst seinni hluta ársins,“ segir í skýrslunni. Heildarsala nautakjöts var 1.137 tonn og heildarverðmæti nautgripaafurða var 941 millj. kr.

Þá stóð fjöldi sláturhrossa nær í stað, voru 3.612 talsins og reyndist heildarslátrunin 461 tonn sem var 16 tonna aukning frá árinu áður. Heildarsalan reyndist 405 tonn og voru flutt út rúmlega 263,5 tonn umreiknað í kjöt í heilu að því er fram kemur í skýrslunni.

„Það er mikilvægt að jafna betur framboð sláturhrossa yfir árið svo hægt sé að afgreiða fastar vikulegar pantanir á fersku kjöti til erlendra viðskiptavina. Félagið hefur á undanförnum áratug þróað viðskiptasamband erlendis með ferskt hrossakjöt með góðum árangri,“ segir í skýrslunni, en þar er sagt að heildarverðmæti innlagðra hrossaafurða á árinu 2024 hafi verið rúmlega 100 millj. kr.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru flutt út um 330 tonn af nýju eða frystu hrossakjöti. Langmest fór til Ítalíu, 287 tonn.

Heildarslátrun kjúklinga árið 2024 hjá SS var 4.144 tonn sem var svipað og í fyrra, en sláturfjöldinn reyndist tæplega 2,4 milljónir fugla.

Gott gengi í innflutningi

Í umfjöllun ársskýrslunnar segir að afkoma afurðadeildar hafi verið óviðunandi og að leita þurfi leiða til að minnka kostnað í deildinni. Þá er sagt frá fjárfestingum í tækjabúnaði fyrir matvælavinnslu SS á Hvolsvelli, sem leiða á til hagkvæmni innan hennar.

Innflutningur félagsins á matvörum og öðrum tengdum vörum gekk vel á árinu samkvæmt ársskýrslunni, en SS flytur meðal annars inn Barilla pasta-vörur, Muttitómatvörur, krydd frá McCormick og sælgæti frá Mars.

Innflutningur á búrekstrarvörum er einnig vaxandi hluti starfseminnar en SS flytur m.a. inn áburði frá Yara, kjarnfóður, sáðvörur og rúlluplast.

Umfang útiræktunar dregst saman
Fréttir 21. mars 2025

Umfang útiræktunar dregst saman

Matvælaráðuneytið hefur afgreitt jarðræktarstyrki til garðyrkjubænda vegna útiræ...

Fleiri svínum slátrað
Fréttir 21. mars 2025

Fleiri svínum slátrað

Mikil aukning var í svínaslátrun hjá Sláturfélagi Suðurlands árið 2024 en mismik...

Bændablað úr frjóum jarðvegi
Fréttir 21. mars 2025

Bændablað úr frjóum jarðvegi

Áskell Þórisson, blaðamaður og ljósmyndari, varð fyrsti ritstjóri Bændablaðsins ...

Eignast allt Lífland
Fréttir 21. mars 2025

Eignast allt Lífland

Þórir Haraldsson hefur skrifað undir kaup á 50 prósenta hlut í Líflandi ehf. af ...

Landbúnaðartæki verði undanskilin kílómetragjaldi
Fréttir 21. mars 2025

Landbúnaðartæki verði undanskilin kílómetragjaldi

Bændasamtök Íslands kalla eftir því að dráttarvélar og eftirvagnar í landbúnaði ...

Slátrun á Hvammstanga áfram með svipuðu sniði
Fréttir 21. mars 2025

Slátrun á Hvammstanga áfram með svipuðu sniði

Slátrun hjá Sláturhúsi Kaupfélags Vestur-Húnvetninga (SKVH) á Hvammstanga verður...

Lök uppskera á kartöflum og gulrótum á síðasta ári
Fréttir 20. mars 2025

Lök uppskera á kartöflum og gulrótum á síðasta ári

Hagstofan gaf á mánudaginn út uppskerutölur úr grænmetisog salatræktun síðasta á...

Í fremstu röð í þrjátíu ár
Fréttir 20. mars 2025

Í fremstu röð í þrjátíu ár

Bændablaðið hefur í þrjátíu ár stuðlað að upplýsandi umræðu um landbúnað á víðum...