Landbúnaðartæki verði undanskilin kílómetragjaldi
Bændasamtök Íslands kalla eftir því að dráttarvélar og eftirvagnar í landbúnaði verði undanþegnir kílómetragjaldi í umsögn um frumvarp til laga um kílómetragjald.
Samtökin eru gagnrýnin á að dráttarvélar og eftirvagnar sem eru meira en 3.500 kílógrömm að leyfðri heildarþyngd, séu meðal þeirra ökutækja sem eru tilgreind sem gjaldskyld í frumvarpinu. Í sömu grein eru bifreiðar og bifhjól.
Í umsögn Bændasamtakanna segir: „Hagfelldast væri að fella dráttarvélar og eftirvagna, sem notuð eru í landbúnaðarstörfum, undir hugtakið „landbúnaðartæki“. Slíkt væri til einföldunar.“ Samtökin leggja til að landbúnaðartæki verði talin upp í þeirri grein þar sem tekin eru fram þau ökutæki sem eru undanþegin gjaldskyldu.
Bændasamtökin vilja benda sérstaklega á að heyvinnuvélar, eins og rúllubindivélar og heyhleðsluvagnar, eru yfir 3.500 kílógrömm að leyfilegri heildarþyngd. Samkvæmt frumvarpinu ætti kílómetragjaldið að falla á þau tæki þegar þeim er ekið milli staða á opinberum vegum.
Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að hækka kolefnisgjald á bensín og dísilolíu til þess að hvetja aðila til að velja ökutæki sem ganga fyrir vistvænum orkugjöfum. Bændasamtökin benda á að þess sé enn langt að bíða að dráttarvélar sem ganga fyrir grænni orku verði raunhæfur kostur eins og þær sem ganga fyrir dísilolíu.