Metin falla
Ævintýralegasta vænleikaár sögunnar er að baki. Fallþungi lamba hækkaði um hálft kíló á milli ára og óhætt að fullyrða að hópurinn sem var mældur og stigaður hefur aldrei verið betri. Í þessum pistli verður farið stuttlega yfir helstu tíðindi úr lambaskoðunum haustsins.
Þátttakan góður varnarsigur
Í haust voru skoðuð 60.311 lömb, samkvæmt skráningum í Fjárvís. Þar af voru 12.119 lambhrútar. Skoðuðum lambhrútum fjölgar á milli ára en hins vegar fækkar gimbrunum aðeins. Miðað við þann samdrátt sem hefur verið í framleiðslunni á síðustu árum verður þátttakan þó að teljast ágætur varnarsigur.
Lömbin voru vissulega vænni en áður, þó þessi mikli munur á vænleika milli ára komi kannski ekki eins skýrt fram í lambadómunum og í sláturhúsinu. Ástæðan liggur væntanlega m.a. í því að lömbin hafa verið mun jafnari en áður og lakari hlutinn tekur stærri skref upp á við. Stökk í fallþunga á milli ára getur skýrst af nokkrum þáttum. Fyrst er að nefna frábærlega hagstætt árferði fyrir sauðfé. Síðan má reikna með einhverjum áhrifum af fækkun fjár en sums staðar hefur rýmkast nokkuð í högum. Þá mjakast gæðin áfram með markvissum kynbótum og má þar þakka eljusemi bænda og almenns áhuga á ræktunarstarfinu.
Efstu lambhrútarnir
Hæststigaði lambhrútur haustsins er Sólskær 21-365 (L1016) frá Húsavík á Ströndum. Þessi hrútur hlaut hvorki meira né minna en 93 stig og er það hæsti lambhrútadómur sem fallið hefur, a.m.k. í seinni tíð. Faðir þessa hrúts er Kornelíus 19-315 frá Miðdalsgröf. Kornelíus er einn af trompum Miðdalsgrafarbúsins en ættir rekur hann m.a. í Heydalsá 1 og Broddanes 1. Annar í röðinni með 92,5 stig er Kubbur 21-276 (L175) frá Broddanesi 1. Kubbur er sonur Greifa 20-061 frá Broddanesi 1 og er sá sonarsonur Glæsis 16-081 sem hefur verið einn aðal kynbótahrútur Broddanesbúsins síðustu ár. Tveir hrútar hlutu í haust 92 stig og mældust báðir þessir hrútar með 40 mm bakvöðva. Annar þeirra er Broddaneshrútur, 21-275 (L169) sonur Hnikils 18-053 frá Broddanesi 1 sem einnig er út af áðurnefndum Glæsi. Báðir þessir Broddaneshrútar eru nú til heimilis að Þambárvöllum. Hinn 92ja stiga hrúturinn er einnig af Ströndunum, en það er Seðill 21-040 (L130) frá Klúku. Seðill er sonarsonur Dúlla 17-813 frá Miðdalsgröf. Seðill er nú til heimilis á Skagaströnd.
Í töflu 2 má skoða betur stigin á þessum gripum en þar er birtur listi yfir 5 efstu lambhrúta hverrar sýslu. Þegar hrútunum er raðað er fyrst horft til heildarstiga, síðan samanlagðra stiga fyrir frampart, bak og afturpart. Ef einhverjir eru enn jafnir er þykkt bakvöðvans látin ráða, síðan fitan og að lokum sker lögun vöðvans úr um röðun.
Betra bak
Það er óhætt að segja að bakvöðvinn hafi mikið lagast í fénu frá því byrjað var að velja fyrir þykkari vöðva með hjálp ómsjármælinga. Um aldamótin síðustu þóttu það vel viðunandi ásetningsgripir sem náðu 27 mm bakvöðva en allt yfir 30 mm mjög gott. Í dag þykir 37 mm bakvöðvi úrval og gripir sem ná því geta hlotið einkunnina 10 fyrir bak. Á hverju hausti hefur þó slurkur af lömbum verið að mælast með um og yfir 40 mm vöðva. Í haust var þetta allstór hópur, eða um 180 lömb. Þykkasti bakvöðvinn hefur í nokkur ár verið 45 mm og örfáir gripir náð því ár hvert en þar hefur „þakið“ legið. Í haust kom síðan fram hrútur sem rauf þetta þak en hann mældist með 47 mm bakvöðva. Það var hrúturinn Mási 21-133 (2675) frá Mýrum 2 í Hrútafirði en hann er jafnframt hæststigaði hrúturinn í Vestur-Húnavatnssýslu. Ás 18-160, faðir Mása, er sonur Lása 13-985 frá Leifsstöðum og dóttursonur Gosa 09-850 frá Ytri-Skógum.
Miðað við hversu mörg lömb eru farin að ná þessari miklu bakvöðvaþykkt og hvað einstaka gripir geta farið hátt yfir markið, sem var viðmið fyrir einkunnina 10, er örugglega tímabært að endurskoða kröfurnar sem settar eru fram í dómstiganum. Jafnframt þarf að taka fullt tillit til fitunar og fínstilla kröfur um lágmarks fitu. Þetta þarf allt að skoða í samhengi við bragðgæðin, þannig getum við sannarlega búið til betra bak.
Gleðileg jól!