Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 mánaða.
Barnamosi.
Barnamosi.
Mynd / Sunna Áskelsdóttir
Á faglegum nótum 31. janúar 2024

Mýrin

Höfundur: Gerður Stefánsdóttir, sérfræðingur hjá Landi og skógi.

Það fer ekki mikið fyrir mýrinni, hún kallar ekki á okkur úr fjarlægð með geislandi fegurðinni eins og mörg önnur vistkerfi eða aðrar náttúrugersemar svo sem fegurð jöklanna, fjallana eða litskrúðugs gróðursins.

Gerður Stefánsdóttir.

Mýrlendið er okkur hins vegar afar mikilvæg auðlind. Þetta sáu systkinin á Kvískerjum vel, sem vernduðu votlendi á landi sínu, sennilega fyrst manna hér á landi. Áhugamenn um fugla skilja mikilvægi þessara vistkerfa en þau eru grundvöllur tilvistar mikilvægra stofna fugla.

Látum við okkur hafa það að fara í stígvél og ösla um sjáum við mun betur fegurð þessara vistkerfa. Hina heillandi lóma á smáum tjörnunum, dansandi óðinshana, syngjandi jaðrakaninn og margæsirnar sem fylla orkuforðann fyrir hið langa ferðalag og varp á hánorrænum slóðum. Ef við lítum aðeins nær sjáum við fífurnar blakta, störin teinrétt með svarta kólfana og elftingarnar sem er svo gaman að taka í sundur og setja aftur saman, barnssálin dafnar. Ef við lítum enn nær sjáum við einstakan barnamosann með sínum bjartgræna lit og einstöku lögun, svo rakadrægan að hann var meðal annars notaður í bleyjur ungbarna fyrr á árum. Það er margt að heillast af. Fegurðin mikil þó á smærri skala sé en það sem að jafnaði grípur augað.

Sagan og staðan

Sagan hefur einnig áhrif á viðhorf okkar til þessa einstaka vistkerfis. Votlendin og jökuárnar voru oft og tíðum mikill farartálmi. Þegar faðir minn fór í sveitina á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu þurfti hann að ríða eftir siglingamiðum til að feta rétta leið á áfangastað. Það var ekki að fyrirsynju að gamla konan sem spurð var á 100 ára afmæli sínu hvað hefði verið mesta byltingin á hennar æviskeiði nefndi strax gúmmískóna, ekki bílinn, símann, rafmagnið eða togarana. Það var eðlilega skelfilegt að vera blautur í fæturna alla tíð. Saga og reynsla forfeðra okkur hefur oft og tíðum talsverð áhrif á okkar lífsskoðanir og áherslur. Á síðustu öld var mikið af mýrum ræstar fram, einkum til að auka og bæta framlegð landbúnaðar. Eftir heimsstyrjaldir á fyrri hluta aldarinnar var okkur Íslendingum mikilvægt að vera sjálfum okkur næg og mikil áhersla því lögð á að bæta aðstæður í landbúnaði. Eftir á að hyggja, af okkar alkunna dugnaði, var þó framræst talsvert umfram nauðsyn. Við grófum um 34.000 km af skurðum en það samsvarar því að aka rúmlega 27 sinnum hringinn í kringum landið. Af þeim 4.200 km2 sem ræstir voru fram á liðinni öld eru einungis um 570 km2 nýttir til ræktunar, eða tæplega 14%. Það eru því þó nokkur tækifæri til að endurheimta votlendi.

Af hverju ættum við að endurheimta votlendi? Auk þess að votlendi eykur líffræðilega fjölbreytni í náttúru landsins, stuðlar að gæðum grunnvatns og lágmarkar áhrif flóða, þá geymir mýrin kolefni eins og enginn sé morgundagurinn. Í mónum safnast kolefnið upp og binst þar að megninu til öldum saman. Einungis lítill hluti þess berst með einum eða öðrum hætti upp í andrúmsloftið. Við vitum jú öll að olía myndaðist með því að lífrænt efni grófst niður og varð á milljónum ára að olíu sem við með okkar tæknigetu höfum leyst úr læðingi. Langtímabinding lífræns efnis er því vel þekkt.

Aðeins nánar um kolefnisferlið í mýrinni

Eðlilega verður alltaf einhver ummyndun á lífrænu efni í mýrum og þá einkum fyrir tilstuðlan ýmissa örvera.

Umbreytingin er háð aðstæðum og þá einkum hvort súrefni sé til staðar eða ekki.

Þegar vatnsstaðan er há og mórinn vatnsmettaður eins og er við náttúrulegar aðstæður er afar lítið súrefni til staðar í mólaginu. Við slíkar aðstæður verður niðurbrot lífræns efnis fyrir tilstuðlan baktería sem ekki þurfa á súrefni að halda til brunans, einkum vegna virkni metan myndandi baktería (e: metanogens). Áhugaverðar bakteríur sem tilheyra hópi fornbaktería (e: Archaea) og eru taldar elsta form líffvera á jörðinni. Þessi leið til niðurbrots er arfaslakur orkugjafi og niðurbrot lífræns efnis er þannig mjög hægt og eðli máls samkvæmt ekki mikið magn metans sem berst þannig upp í andrúmsloftið frá óröskuðu votlendi. Þó svo að metan sé mikilvirkari gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur miðað við þyngdareiningu þá er myndunarferill þess svo hægur að það vegur lítið í stóra samhenginu.

Þegar vatnstaðan er lág eins og yfirleitt í framræstu eða röskuðu landi nær súrefni auðveldlega niður í móinn og þá gerast hlutir. Það er ekki tilviljun að mannskepnan andar að sér súrefni til bruna, súrefni sem rafeindaviðtaki gefur margfalt meiri orku en aðrir rafeindaviðtakar og er því hið ákjósanlega öndunarferli. Ef súrefni berst í miklum mæli niður í mó mýranna hefst kröftugur bruni sem losar koltvísýring (CO2) hratt út í andrúmsloftið með tilheyrandi áhrifum á loftslagið. Þetta viljum við lágmarka með því að halda mó mýranna vatnsmettuðum. Þrátt fyrir að langt sé liðið frá framræslu er enn umtalsvert magn lífræns efnis eftir í votlendinu enda hefur mórinn myndast á mjög löngum tíma. Umbreyting lífræna efnisins sem er til staðar heldur því áfram í afar langan tíma eftir að land var framræst. Mælst hefur virk losun frá landi sem var framræst fyrir meira en einni öld. Samkvæmt skýrslum frá Sameinuðu þjóðunum og Ramsar skýrslum eru óraskaðar mýrar taldar binda um 0,37 gígatonn af koltvísýringi á ári og geyma meira kolefni (um 600 gígatonn) en nokkurt annað vistkerfi þrátt fyrir að þekja aðeins 3% yfirborðs jarðar.

Vernd og endurheimt

Hægt er að auka bindingu kolefnis með ýmsum hætti í þeirri vegferð okkar að hægja á loftslagsvánni en flestar aðgerðir eru kostnaðarsamar. Vernd óraskaðs votlendis er æskilegasta vegferð okkar til að lágmarka kolefnislosun út í andrúmsloftið. Það er því afar mikilvægt að raska ekki frekar votlendinu en þegar er orðið.

Þar á eftir er endurheimt votlendis sú leið sem er bæði aðgerðarlega og fjárhagslega hagkvæmust fyrir samfélag okkar og sú leið sem kemur í veg fyrir að kolefnisbindingin skili sér aftur í hringrásina. Horfum til þessa í allri okkar vegferð bæði til sjávar og sveita; í skipulagi, við ræktun og aðra uppbyggingu. Það væri mikil hagur af því að vernda og bæta þessi máttugu en lágstemmdu vistkerfi.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...